Lífskjör á Íslandi eru með því besta sem þekkist. Íslenskt efnahagsumhverfi er heilbrigt, jöfnuður óvíða meiri og staða ríkissjóðs traust. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um íslenska hagkerfið sem birt var í vikunni. Hér hefur verið hagvöxtur á liðnum árum, atvinnuleysi lítið og verðbólga lág. Það er hægt að mæla lífskjör á marga vegu en óhætt er að segja að flestallir mælikvarðar hafi verið okkur jákvæðir síðustu ár.
Það mætti hugsa þetta með öðrum hætti. Ef við til gamans fengjum að velja þann tíma í mannkynssögunni sem best væri að upplifa heila mannsævi, þá væri það einmitt í dag. Lífslíkur hafa aldrei verið meiri og það sama á við um menntun, jafnrétti, tækniframfarir, heilbrigðisþjónustu og fleira. Við vitum hvenær væri best að lifa (í nútímanum) og ef við veltum fyrir okkur hvar væri best að fæðast getum við verið þess fullviss að Ísland skorar ofarlega á þeim lista.
Það er tvennt sem vert er að huga að í framhaldi af þessu; hvernig komumst við hingað og hvert förum við næst?
Við sem þjóð höfum náð gífurlegum árangri í efnahag og lífsgæðum. Ekki bara á liðnum áratug heldur á liðinni öld. Utanaðkomandi aðstæður hafa eftir tilvikum verið okkur hagstæðar og tækniframfarir miklar, hagnýt orkunotkun, betri samgöngur og aukin viðskipti eru allt þættir sem hafa stóraukið lífsgæði hér á landi.
Ekkert af þessu verður þó til af sjálfu sér. Til að ná þessum árangri þurfum við góða blöndu af stjórnmálamönnum sem eru hagsýnir og framfarasinnaðir en hafa um leið vit á því að leyfa einkaframtakinu að blómstra. Það eru einkaaðilar sem búa til verðmæti, koma fram með hugmyndir og framkvæma þær, byggja ný viðskiptasambönd, hagræða og þannig mætti lengi áfram telja. Hið opinbera á fyrst og fremst að búa til leikreglur sem allir geta spilað eftir og búa þannig í haginn að það standi ekki í vegi fyrir frekari framförum.
Við komumst á þennan stað af því að við erum framsýn og jákvæð þjóð. Við leitum sífellt leiða til að gera betur, við sækjum þekkingu og reynslu til annarra landa þegar þess þarf en fyrst og fremst höfum við stuðlað að auknu frelsi (þótt enn megi gera betur í þeim efnum).
Og þá veltum við því fyrir okkur hvert við förum næst. Að öllu óbreyttu ætti leiðin að liggja upp á við. Við getum bætt menntakerfið umtalsvert, við getum aukið viðskipti, bætt samgöngur, nýtt tækifæri til framfara í heilbrigðismálum o.s.frv. Það eina sem stendur í vegi fyrir frekari framförum erum við sjálf. Við þurfum að koma böndum á stækkandi ríkisvald og við sem störfum í stjórnmálum höfum það hlutverk að búa þannig í haginn að ríkisvaldið þjónusti almenning og fyrirtæki en ekki öfugt. Það er og verður stærsta áskorunin á næstu árum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. september 2019.