ÁSLAUG ARNA SIGURBJÖRNSDÓTTIR

Ávarp: Sýslumenn – þjónusta og framþróun

Ávarp á aðalfundi Sýslumannafélagsins

Ágæti formaður, fundarstjóri og aðrir fundarmenn,

 

Það er gaman að fá að vera með ykkur hér í Bítlabænum Keflavík í dag. 

 

Á aðalfundi sýslumannafélagsins fyrir ári síðan hélt ráðuneytisstjóri erindi þar sem kynnt var framtíðarsýn ráðuneytisins á málefnum sýslumanna. Hún felst meðal annars í endurskoðun á skipulagi og verklagi sýslumannsembættanna. Framtíðarsýnin var fyrst og fremst kynnt vegna slæmrar fjárhagsstöðu sýslumannsembættanna og krafna um hagræðingu í rekstri. Við vitum öll að málaflokkurinn sem slíkur hefur glímt við erfiða fjárhagsstöðu undanfarin ár og hefur sú staða eðlilega sett svip sinn á starfsumhverfi embættanna. Aðgerðirnar sem sýslumenn hafa hingað til þurft að grípa til hafa miðað að því að halda rekstrinum gangandi og því hefur lítið sem ekkert svigrúm gefist fyrir framþróun tæknimála og önnur brýn umbótaverkefni.  Miðað hefur verið við að verklaginu yrði breytt á ákveðnum réttarsviðum, svo sem lögum um nauðungarsölu, samhliða uppbyggingu á stafrænum innviðum sýslumanna. Var það mat ráðuneytisins að með því að breyta stjórnsýsluframkvæmdinni, úr því að vera unnin staðbundið með pappír og yfir í að vera unnin miðlægt á landsvísu með rafrænum hætti, mætti í senn bæta þjónustuna og hagræða í rekstri embættanna. Með því að færa stóran hluta starfsemi embættanna úr skrifstofum sýslumanna og yfir í tölvuna, myndi skapast tækifæri til að endurskoða núverandi umdæmismörk sýslumanna og ná fram hagræðingu sem mætti betur verja í þágu þjónustunnar.

 

Kæru vinir,

Þær voru ekki skemmtilegar fréttirnar sem við sáum í gær af uppsögnum í íslenskum bönkum. Ég nefni það hér því það er ákveðin birtingarmynd af breyttum heimi í bankaþjónustu. Fram hefur komið að fjörtíu sinnum fleiri viðskiptavinir banka nýta frekar þjónustu þeirra á í símum og tölvum frekar en að sækja útibú þeirra. Við höfum séð þessa þróun eiga sér stað. Flugfélög starfrækja ekki lengur söluskrifstofur, tryggingarfélög hafa fækkað þjónustuskrifstofum og þannig mætti áfram telja. Allir vilja einfalda líf sitt eins og hægt er og nútímatækni býður upp á að það sé hægt upp að vissu marki. Það er hins vegar ekki bara tæknin sem býður upp á það heldur hafa fyrirtæki og stofnanir ýtt enn frekar undir þá þróun með því að bæta aðgengi að þjónustu. 

 

Hið opinbera ætti ekki að vera nein undantekning í þessari þróun. Okkur má vera bæði ljóst og kunnugt um mikilvægi þess að færa þjónustu opinberra stofnanna yfir í rafræna þjónustu eftir því sem hægt er. Að því hefur verið stefnt lengi, mörg mikilvæg skref hafa verið stigin í þá átt og um það ríkir þverpólitískur stuðningur. Nú þegar er unnið að því að færa þinglýsingar í rafrænt form og hann er langur listinn af öðrum stafrænum verkefnum sem koma á eftir. Það er ekki bara ungur ráðherra sem stendur hér fyrir framan ykkur í dag til að tala um mikilvægi þess nýta tæknina. Þetta er þróun sem ríkið, og ekki síst sýslumannsembættin, þurfa að fylgja og eftir tilvikum leiða.  Þróun sem skýrt er kveðið á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Samkvæmt fjármálaáætlun 2020-2024 er meðal markmiða málaflokksins tæknileg framþróun, bæði í stafrænni málsmeðferð og þróun upplýsingakerfisins.

 

 

Ágætu fundarmenn,

 

Ég átta mig vel á því að allt kostar þetta fjármagn og eins og ég minntist á hér í upphafi hafa sýslumannsembættin glímt við erfiða fjárhagsstöðu. Ég átta mig líka á því að það er til lítils að halda hér langa tölu um hvert við ættum að fara ef núverandi staða er sú að embættin geti tæplega sinn þeim verkefnum sem þeim eru falin. Í nýju frumvarpi til fjárlaga fyrir næsta ár er gert ráð fyrir 150 milljóna króna varanlegri viðbótarfjárheimild til að koma fjárhagsstöðu embættanna í viðundandi horf. Óháð því vil ég að á sama tíma og við eigum samtal um fjárhagsstöðu embættanna þurfum við að eiga samtal um það hvert við ætlum að fara í framtíðinni, hvernig sýslumannsembættin gæta bætt og einfaldað enn frekar líf almennings og síðast en ekki síst tryggt öryggi og þjónustu við fólkið í landinu. Að því sögðu þá vil ég hrósa Sýslumannafélaginu – og um leið ykkur öllum – aðkoma ykkar að tæknilegri framþróun hefur verið mikilvæg og verður það áfram.

 

Kæru gestir,

Það hefur einnig verið til skoðunar að gera breytingu á lögum um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði. Með breytingunum er ætlunin annars vegar að veita ráðherra heimild til að skipa annan sýslumann til að gegna lausu embætti samhliða eigin embætti, og hins vegar að heimila þeim sýslumanni að gera nauðsynlegar ráðstafanir sem leitt geta til fjárhagslegrar hagræðingar í rekstri og samræmingar á þjónustu. Með því er stígið ákveðið skref í átt að þessu framtíðarskipulagi, enda geti embættin þá nýtt sér fjárhagslegan ávinning sem felst í væntanlegum samlegðaráhrifum og samstarfi þvert á fleiri umdæmi.

 

Ég vil í lokin ítreka óskir mínar um gott samstarf við sýslumannsembættin í landinu. Ykkar hlutverk er mikilvægt og ég er mjög þakklát ykkar þjónustu. Ég hvet þá sem hér eru til að hika ekki við að hafa samband við mig eða mín nánustu samstarfsmenn á meðan ég sinni þessu mikilvæga verkefni. Ég hlakka til samstarfsins og mun gera mitt allra besta í þessu nýja hlutverki.