Er þetta for­gangs­mál

„Er þetta nú for­gangs­mál?“ Þetta er spurn­ing sem sum­ir spyrja þegar fram koma mál sem lúta að því að auka frelsi ein­stak­linga. Í hvert ein­asta skipti sem rætt er um breyt­ing­ar á áfeng­is­lög­gjöf­inni er spurt hvort það sé for­gangs­mál og hvort það séu ekki mik­il­væg­ari mál sem hægt sé að sinna. Hvernig dett­ur nokkr­um stjórn­mála­manni í hug að ein­beita sér að þannig máli á meðan fjöl­mörg önn­ur og al­var­legri mál kunna að bíða af­greiðslu? Þetta viðhorf ein­skorðast alls ekki við áfeng­is­lög­gjöf­ina og á í raun við um flest frels­is­mál.

Stutta svarið er: Nei, þetta er ekki for­gangs­mál, því miður. Það eru ótelj­andi mál sem ávallt bíða þess að hljóta at­hygli og af­greiðslu stjórn­mála­manna. Vanda­mál­in, bæði raun­veru­leg og upp­töluð, sem bíða þess að ríkið leysi þau eru og verða alltaf til staðar. Það má alltaf bæta hag ein­hverra hópa í sam­fé­lag­inu, það þarf að af­greiða fjár­lög, það þarf að upp­færa lög um hitt og þetta og það þarf að bregðast við þeim fjöl­mörgu mál­um sem koma upp hverju sinni. Allt eru það for­gangs­atriði hverju sinni.

Það er ekki til það vanda­mál sem hið op­in­bera tel­ur sig ekki geta leyst með fjár­magni, laga­setn­ingu eða reglu­gerð. Það má á sama tíma færa rök fyr­ir því að flest sem þing­menn og ráðherr­ar senda frá sér fel­ur í sér auk­in fjár­út­lát af hálfu hins op­in­bera (sem sótt eru í vasa skatt­greiðenda) eða ein­hvers kon­ar form af þving­un­um eða tak­mörk­un á því sem ein­stak­ling­ar og fyr­ir­tæki geta tekið sér fyr­ir hend­ur. Lög­um og reglu­gerðum er ætlað að leysa vanda­mál nú­tím­ans og ekki síður mögu­leg vanda­mál framtíðar­inn­ar. Með ein­um eða öðrum hætti ramm­ar ríkið reglu­lega inn það hvernig við lif­um lífi okk­ar, stund­um í þeim til­gangi að verja okk­ur fyr­ir okk­ur sjálf­um.

Í öllu þessu gefst sjald­an tími til að velta því fyr­ir sér hvort hægt sé að minnka rík­is­valdið, t.d. í formi þess að fækka eða af­nema lög og reglu­gerðir. Og þá sjald­an sem það er gert er alltaf hægt að færa rök gegn því að af­nema lög, því ein­hver gæti gert eitt­hvað sem geng­ur gegn hug­mynd­um um móður­hlut­verk hins op­in­bera. Á sama tíma er líka alltaf hægt að benda á eitt­hvað annað sem mögu­lega ætti að vera í for­gangi.

Frels­is­mál ættu að vera for­gangs­mál. Það að lækka skatta, minnka rík­is­valdið eða ein­falda líf al­menn­ings, með ein­um eða öðrum hætti, er ekki síður mik­il­væg­ur hluti af starfi stjórn­mála­manns­ins. Það eru fjöl­marg­ir mála­flokk­ar sem ein­stak­ling­ar og fyr­ir­tæki eru bet­ur til þess fall­in að sinna og það eru til lög og reglu­gerðir sem eru úr sér geng­in. Það að vilja breyta lög­um í frels­isátt og treysta al­menn­ingi fyr­ir eig­in lífi er mik­il­vægt viðhorf að hafa. Þær radd­ir eiga að heyr­ast og það hátt. Það er for­gangs­mál.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. október 2019.