ÁSLAUG ARNA SIGURBJÖRNSDÓTTIR

Frumvarp: Haldlagning og kyrrsetning

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á XII. kafla laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum. Með þessu frumvarpi er lagt til að á eftir 88. gr. laganna komi ný grein, 88. gr. a, þar sem lögfest verði heimild stjórnvalda til þess að óska eftir úrskurði dómara um heimild til að selja haldlagðar og kyrrsettar eignir og muni þar sem hætta er á að þeir rýrni að verðmæti á meðan á haldlagningu eða kyrrsetningu stendur. Í frumvarpinu er jafnframt að finna heimild fyrir ráðherra til að setja nánari ákvæði um sölu haldlagðra og kyrrsettra eigna og muna í reglugerð, svo og um meðhöndlun og vörslur þeirra að öðru leyti.

Tilefni frumvarpsins má að hluta til rekja til úttektar alþjóðlega fjármálaaðgerðahópsins á vörnum Íslands gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sem fram fór á árinu 2017. Í skýrslu sem samtökin birtu um úttektina í apríl 2018 kom fram að veikleika væri að finna í íslenskri löggjöf og framkvæmd hvað þetta varðaði sem kallaði á úrbætur af hálfu íslenskra stjórnvalda. Meðal athugasemda í úttektinni var að hérlendis skorti heildstæðar reglur um meðhöndlun eigna og muna sem haldlagðir eða kyrrsettir væru af stjórnvöldum. Þá skorti heimildir til að taka á þeirri stöðu þegar hætta væri á að haldlagðar eða kyrrsettar eignir og munir myndu rýrna að verðmæti á meðan haldagningu þeirra eða kyrrsetningu stæði. Er þetta frumvarp liður í að koma til móts við þær athugasemdir úttektarinnar en í þessu ákvæði felst að þar til bærum stjórnvöldum er gert kleift að afla með dómsúrskurði heimildar til að selja haldlagðar og kyrrsettar eignir og muni sem hætta er á að rýrni að verðmæti á meðan á því stendur.

Jafnframt er lagt til að lögfest verði heimild ráðherra til að setja reglugerð þar sem nánar er kveðið á um sölu slíkra muna, svo og meðhöndlun og vörslur að öðru leyti. Þá er enn fremur lagt til að unnt verði að kæra úrskurð dómara um að heimila söluna til Landsréttar. Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að tvö skilyrði þurfi að vera uppfyllt til að dómara sé heimilt að verða við beiðni um að heimila sölu. Annars vegar þarf eign annaðhvort að hafa verið haldlögð í því skyni að tryggja upptöku hennar eða kyrrsett til tryggingar greiðslu sektar, sakarkostnaðar og annarra krafna og hins vegar þarf að vera hætta á rýrnun verðmætis á meðan á haldlagningu eða kyrrsetningu stendur, en slík aðstaða gæti t.d. verið uppi þegar um er að ræða tæki eða búnað sem úreldist fljótt vegna örrar tækniþróunar. Með úrræði þessu er annars vegar horft til hagsmuna ríkisins sem felast í því að verðmæti haldlagðra og kyrrsettra eigna og muna sé enn til staðar þegar kemur að upptöku þeirra og hins vegar til hagsmuna eigenda slíkra muna sem þurfa þá ekki að horfa upp á verðmæti eignanna rýrna í meðförum stjórnvalda þegar enn liggur ekkert fyrir um hvort fallist verði á upptöku þeirra. Fyrirhuguð reglugerð um meðhöndlun og vörslur haldlagðra og kyrrsettra eigna og muna mun jafnframt verða til mikilla bóta í þeim málum.

Virðulegi forseti. Þetta eru aðalatriði frumvarpsins. Ég legg til að málinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.