Á undanförnum árum hafa komið fram alvarlegar ábendingar í skýrslum, rannsóknum, umfjöllun fjölmiðla og ekki síst beint frá brotaþolum kynferðisafbrota, að þeir taki meðvitaða ákvörðun um að kæra ekki brotin. Ein af ástæðunum er sú að þeir treysta ekki réttarvörslukerfinu. Slíkt er óboðlegt í íslensku réttarríki. Hér er um alvarlega brotalöm að ræða sem brýnt er að takast á við með ákveðnum og skilvirkum hætti. Þeir sem kæra kynferðisafbrot þurfa að vera þess fullvissir að tekið verði á málum þeirra af fagmennsku.
Eitt af helstu verkefnum ríkisstjórnarinnar er að vinna að umbótum í meðferð þessara brota. Það rímar vel við þá vinnu sem hrundið var af stað í tíð Ólafar Nordal innanríkisráðherra snemma árs árið 2016. Samráðshópur sem hún skipaði skilaði ítarlegum tillögum um aðgerðir í kynferðisbrotamálum með það að markmiði að tryggja vandaða, skilvirka og réttláta málsmeðferð við rannsókn mála á þessu sviði og auka traust á réttarvörslukerfinu. Tillögur starfshópsins um aðgerðir voru kynntar af þáverandi dómsmálaráðherra, Sigríði Andersen, í febrúar árið 2018.
Sú vinna hefur þegar leitt til mikilla bóta. Farið var í átak við að efla rannsóknir kynferðisbrota og hraða afgreiðslu þeirra. Það hefur meðal annars skilað sér í styttri málsmeðferðartíma, sem var alltof langur. Ég mun beita mér fyrir því að áherslur á landsvísu verði samræmdar með þeim hætti þannig að lögregluembættin í landinu séu í stakk búin til að sinna rannsókn og meðferð kynferðisbrota.
Ýmislegt hefur verið gert á liðnum árum til að styrkja stöðu brotaþola. Þannig má nefna verkefni á borð við Bjarkarhlíð, löggjöfin hefur verið endurskoðuð, unnið er að því að ráða sálfræðing hjá lögreglunni, unnið hefur verið í endurmenntun hjá rannsakendum kynferðisbrota, fjárframlög til málaflokksins aukin og þannig mætti áfram telja.
Allir sem komið hafa með einum eða öðrum hætti að rannsóknum eða úrvinnslu kynferðisbrota vita að þau eru flókin úrlausnar. Það verður aldrei undan því vikið. Sönnunarbyrðin er oft erfið og við þurfum ávallt að gæta að grundvallarreglum réttarríkisins.
Á sama tíma vinnum við markvisst að því að tryggja að réttarvörslukerfið taki vel utan um þolendur kynferðisafbrota og veiti þeim skjól á þeim erfiða kafla sem fylgir slíkum brotum. Það þarf að gera af fagmennsku og um leið af hlýju og tillitssemi. Í flestum tilvikum eru skjólstæðingar ríkisins tölur á blaði eða málsnúmer, en í þessum tilvikum er mikilvægt að líta á mannlega þáttinn og horfa til þess að annar aðili málsins er brotinn einstaklingur sem þarf á nauðsynlegri aðstoð að halda. Kerfið þarf að vera mannlegt og til þess fallið að veita brotaþolum skjól. Ég mun beita mér fyrir því að svo verði.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. október 2019.