Kæru gestir, framúrskarandi fólk úr framúrskarandi fyrirtækjum.
Það er mér heiður og ánægja að vera boðin hingað á 10 ára afmæli Framúrskarandi fyrirtækja. Creditinfo á heiður skilin fyrir að byrja með þessa vinnu og þessa hvatningu til fyrirtækja að standa sig vel i rekstri fyrir 10 árum síðan. Það var alls ekki sjálfgefið þá, ári eftir hrun, að hefja jákvæða umræðu um fyrirtæki. Þótt ég hafi þá verið Verslunarskólamær þá man ég samt mæta vel stemminguna, umræðuna og vantraustið sem var í garð atvinnulífsins á þessum tíma.
Þið veltið því kannski fyrir ykkur afhverju dómsmálaráðherra er hér á þessari samkomu atvinnulífsins. Í sannleika sagt þá held ég að ég hafi ekki verið fyrsta val, og varla annað val.
En dómsmálaráðuneytið tekur á öllu, við erum svona frá vöggu til grafar ráðuneyti. Á okkar könnu eru málefni barna, mannanöfn og hjúskaparmál. Eignarrétturinn, nauðungarsölur og gjaldþrotaskipti. Lögreglan, Landhelgisgæslan og dómstólar. Happdrætti, kosningar og kirkjugarðar. Öll lykil málin. Ef þú átt erfiða æsku, kemst i kast við lögin, verður gjaldþrota og verst af öllu fyrir mannorðið, lendir i því að verða kosin á þing, þá ertu á okkar forræði, alltaf.
En hér inni er kjölfesta íslensks atvinnulífs, vel reknu fyrirtækin. Fyrirtækin sem standa undir íslensku efnahagslífi. Stór og smá. Þegar ég þáði boðið um að koma hingað spurði ég vin minn sem þekkir þessa samkomu hvernig fólk væri hér og hann sagði að þarna muntu hitta fólkið sem raunverulega skiptir mestu máli í íslensku efnahagslífi. Ekki endilega fólkið og fyrirtækin sem eru mest í fjölmiðlum eða þau sem látið er mest með. Heldur í raun og veru fólkið frá bestu fyrirtækjum landsins. Salt jarðar. Þegar ég lít yfir salinn og sé þau andlit sem ég þekki, þá er ég ekki frá því að þetta sé satt. Og mig langar til að segja takk!
Takk fyrir ykkur, takk að vera þið og takk fyrir að standa undir öllu þessu sem Ísland er.
Mér er sagt að samanlagður rekstrarhagnaður ykkar á síðasta ári hafi verið meira en 305 milljarðar. Það er frábært! Vel gert! Og ég er ekki bara að hugsa um skatttekjurnar, ég lofa!
Mér er það algerlega ljóst að án ykkar, án vel rekinna fyrirtækja sem skila hagnaði er ekkert velferðarþjóðfélag á Íslandi.
Það gleymist oft í opinberri umræðu hvað stendur undir þessu þjóðfélagi okkar. Hvernig við borgum reikninga þjóðarbúsins. Við eigum auðlindir en þær gera lítið til að halda uppi því velferðarþjóðfélagi sem við búum við ef þær eru ekki nýttar á einhvern hátt. Hvort sem það er með því að veiða fiskinn í sjónum, virkja fallvötnin eða flytja hingað ferðamenn til að njóta náttúrufegurðar landsins. Þessar þrjár auðlindir standa með einum eða öðrum hætti undir langstærstum hluta tekna okkar sem þjóðar. Orkan, fiskurinn og náttúran.
Þessar auðlindir gera okkur, og hafa gert okkur, svo kleift að standa undir menntakerfi sem býr til fjórðu auðlindina. Auðlindina sem er óþrjótandi, sem aldrei þarf að kvótasetja og ég vona að það komi aldrei til umræðu að leggja auðlindaskatt á þá auðlind. Ég er auðvitað að tala um hugvitið og nýsköpunina.
Það er hugvitið sem hjálpar okkur að finna betri leiðir til að reka fyrirtækin og stofnanir þjóðfélagsins betur og nýsköpun sem er drifkrafturinn til nýrra sigra.
Tækifærin eru allsstaðar – við eigum þess kost að vera framúrskarandi, ekki bara þið sem hér eruð, heldur allt Ísland. Með sjálfbærni og ábyrgð á umhverfi og samfélagi að leiðarljósi.
En ég er hér komin til að afhenda verðlaun til rótgróins fyrirtækis sem skara framúr í nýsköpun og þess fyrirtækis sem skarar framúr í samfélagsábyrgð.
Og mér skilst að Brynja Baldursdóttir hinn skeleggi forstjóri Creditinfo muni kalla formenn dómnefnda á svið en…
Ég þakka fyrir mig og segi aftur, takk fyrir ykkur.
Takk fyrir að vera framúrskarandi.