ÁSLAUG ARNA SIGURBJÖRNSDÓTTIR

Frumvarp: Íslenskur ríkisborgarréttur

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um íslenskan ríkisborgararétt. Um er að ræða breytingar á nokkrum ákvæðum laganna er varða skilyrði fyrir veitingu ríkisborgararéttar. Helstu breytingarnar sem lagðar eru til snúa að biðtíma eftir ríkisborgararétti vegna sekta. Felst breytingin einkum í því að auka heimild Útlendingastofnunar til að veita ríkisborgararétt þegar umsækjandi hefur sætt sektarrefsingu. Til samræmis við lög um útlendinga eru lagðar til smávægilegar breytingar á búsetutíma og heimild útlendings til dvalar erlendis. Þá eru lagðar til breytingar er varða framlagningu skilríkja og framfærsluskilyrði. Einnig er lagt til að tekin verði upp í lögin á ný heimild til að endurveita íslenskan ríkisborgararétt.

Nánar tiltekið er meginmarkmið frumvarpsins að koma í veg fyrir að hækkanir sem orðið hafa á fjárhæðum sekta vegna umferðarlagabrota raski upphaflegum tilgangi ríkisborgaralaga um biðtíma vegna refsinga. Er breyting á 6. tölulið 9. gr. laganna því talin sanngjörn þar sem biðtími eftir ríkisborgararétti myndi ella lengjast í sumum tilvikum og verða lengri en ráðgert var við setningu núgildandi ákvæðis. Auk þess er nokkur tími liðinn frá því að gildandi viðmiðunarmörk um biðtíma voru lögfest, en það var gert með breytingu á ríkisborgaralögum árið 2012. Til að auka möguleika Útlendingastofnunar á að veita ríkisborgararétt er einnig lagt til að heimilt geti verið að veita ríkisborgararétt þó að umsækjandi hafi endurtekið framið brot, en biðtími muni hins vegar lengjast með hverju broti. Hingað til hefur stofnunin orðið að synja um ríkisborgararétt í þeim tilvikum nema um hafi verið að ræða sektarrefsingar sem sameiginlega eru undir 101.000 kr.

Í öðru lagi er með frumvarpinu reynt að koma í veg fyrir misræmi milli laga um útlendinga og laga um íslenskan ríkisborgararétt sem skapast hefur eftir setningu nýrra laga um útlendinga er tóku gildi 1. janúar 2017. Eftir breytinguna eru búsetuskilyrðin hin sömu fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis og fyrir ríkisborgararétti maka íslenskra ríkisborgara, þ.e. þrjú ár. Þykir það ekki í fullu samræmi við tilgang ríkisborgaralaga þar sem miðað hefur verið við að réttur til ótímabundins dvalarleyfis verði til áður en mögulegt verði að sækja um íslenskan ríkisborgararétt. Er því í frumvarpinu lagt til að maki íslensks ríkisborgara þurfi að hafa verið hér búsettur í fjögur ár áður en réttur til ríkisborgararéttar myndast.

Þá eru heimildir til dvalar erlendis áður en sótt er um ríkisborgararétt gerðar skýrari og að sumu leyti rýmkaðar. Er tilgangurinn m.a. að aðlaga reglurnar að lögum um útlendinga og að auka skýrleika þeirra, en reynslan hefur sýnt að þörf er á nákvæmari reglum. Tillögurnar taka jafnframt mið af breyttum þjóðfélags- og atvinnuháttum frá setningu núgildandi ákvæða.

Í þriðja lagi er lagt til nýmæli er tengist framlagningu skilríkja eða sönnun á því hver umsækjandi er hafi upplýsingar ekki reynst vera réttar. Ef sú er raunin er lagt til að sá tími sem umsækjandi hefur dvalist hér á grundvelli ófullnægjandi eða rangra upplýsinga teljist ekki með sem búsetutími. Lögð eru til skýrari ákvæði um framfærsluskilyrði en sú breyting er ekki efnisleg.

Þá er lagt til það nýmæli að ef umsækjandi er talinn ógna mikilvægum þjóðarhagsmunum eigi hann ekki rétt á íslenskum ríkisborgararétti.

Í fimmta lagi er lagt til að endurvakið verði ákvæði um heimild til að endurveita íslenskan ríkisborgararétt þeim sem misst hafa íslenska ríkisfangið við það að sækja um annað ríkisfang í tíð eldri laga. Heimild þessi hefur tvívegis verið tímabundið í lögunum en féll síðast úr gildi 1. júlí 2016. Ekki er gert ráð fyrir að gildistími ákvæðisins verði takmarkaður eins og áður hefur verið.

Loks er lögð til stytting búsetutíma norrænna ríkisborgara sem sækja um ríkisborgararétt á grundvelli norræns samnings um ríkisborgararétt úr sjö árum í þrjú ár til að koma betur til móts við þá umsækjendur. Við undirbúning frumvarpsins var m.a. haft samráð við Útlendingastofnun sem fer með afgreiðslu ríkisborgaramála.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins. Vegna hækkunar sem orðið hefur nýlega á sektarrefsingum vegna umferðarlagabrota eru breytingar á reglum um biðtíma vegna refsinga orðnar brýnar. Einnig er mikilvægt að kerfið okkar sé skýrt og taki mið af breyttum þjóðfélagsháttum. Kerfið okkar verður að vera þannig úr garði gert að fólk sem hingað kemur viti í hvaða ferli mál þess fer þegar það sækir um ríkisborgararétt, að mál streymi ekki til þingsins sem ætti að vera hægt að leysa eftir almennum reglum og vonandi með samþykki þessa frumvarps. Frumvarpið miðar að því að auka skilvirkni og gegnsæi laganna með því að bæta skýrleika nokkurra ákvæða sem mæla fyrir um veitingu íslensks ríkisborgararéttar.

Ég legg því til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.