Lögspekingurinn Njáll á Bergþórshvoli á að hafa sagt fyrir margt löngu „með lögum skal land vort byggja, en með ólögum eyða“. Þetta er um margt rétt. Ef lagasetning frá Alþingi er ekki skýr, í takt við tímann og ríkjandi viðhorf reynist eðlilega erfitt fyrir borgarana að fara að þeim sömu lögum. Dæmi um úrelta lagasetningu eru þau ólög að refsa fólki með fangelsisvist fyrir að móðga aðra manneskju. Þessi ákvæði almennra hegningarlaga stangast á við tjáningarfrelsið og vernd mannréttinda.
Í gær mælti ég fyrir frumvarpi til laga um bætur vegna ærumeiðinga. Með frumvarpinu er lagt til að sett verði sérstök lög um bætur vegna ærumeiðinga og að samhliða því verði nánast öll ákvæði almennra hegningarlaga sem fjalla um ærumeiðingar felld á brott. Þetta eru tímabærar breytingar á tæplega 80 ára gömlum ákvæðum um refsingar vegna ærumeiðinga. Eins og gefur að skilja hafa orðið umtalsverðar breytingar á löggjöf um tjáningarfrelsi á þeim tíma. Ber þar hæst tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar frá árinu 1995 og lögfesting Mannréttindasáttmála Evrópu árið 1994, þar sem finna má ákvæði sem sérstaklega fjallar um tjáningarfrelsi.
Samkvæmt eldri lögum, sem nú falla úr gildi, er hægt að dæma einstakling í eins árs fangelsi fyrir móðgun. Það gefur auga leið að það stenst ekki tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Þau ákvæði hegningarlaga sem fjalla um ærumeiðingar endurspegla því hvorki raunverulega réttarframkvæmd né nútímaviðhorf um tjáningarfrelsi og ærumeiðingar sem refsiverðan verknað. Samkvæmt nýjum lögum geta einstaklingar þó enn höfðað meiðyrðamál og krafist bóta af þeim sem þeir telja að hafi skaðað æru þeirra. Það er samt töluverður munur á því að krefjast bóta og setja menn í fangelsi.
Þá eru jafnframt lagðar til breytingar er fella á brott ákvæði um óvirðingu íslenska fánans og fangelsisrefsingu þar um. Aðrar reglur um þjóðfánann haldast óbreyttar sem og sektarheimildir.
Nú velta eflaust einhverjir því fyrir sér hvort með þessu sé verið að hvetja til ærumeiðinga einstaklinga eða óvirðingar fánans. Það er þó ekki svo. Við eigum sem þjóð að virða fánann okkar og vera stolt af honum, enda munu fánalögin sem slík halda gildi sínu. Aftur á móti verðum við að viðurkenna rétt einstaklinga til að tjá skoðanir sínar og takmarka þá möguleika sem ríkið hefur til að dæma menn í fangelsi fyrir að tjá þær. Hvergi á Norðurlöndunum eru ákvæði í sambærilegum lögum til að stinga mönnum í steininn fyrir ofangreind atriði og það er ekkert sem kallar á að íslensk lög séu með öðrum hætti.
Tjáningarfrelsið er hornsteinn lýðræðislegrar og upplýstrar umræðu. Öllu jafna förum við misvel með þennan hornstein, en við þurfum ekki að fangelsa þá sem fara illa með hann.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. október 2019.