ÁSLAUG ARNA SIGURBJÖRNSDÓTTIR

Kirkjuþing: Kirkjur eru alltaf í smíðum

Biskup Íslands, fulltrúar kirkjuþings, ágætu gestir

Það er mikil ánægja fyrir mig að fá tækifæri til að ávarpa kirkjuþing og vera hér með ykkur við setningu þess. 

Á þeim stutta tíma sem liðinn er frá því að ég settist stól dómsmálaráðherra hef ég átt góð, upplýsandi og uppbyggileg samskipti við fulltrúa þjóðkirkjunnar og vænti áframhaldandi góðs samstarfs um mikilvæg mál fyrir íslenskt samfélag. Það er mikilvægt að við vinnum vel saman í þeim tilgangi að byggja upp traust, velvilja og von í samfélaginu. Þar gegnir kærleiksboðskapur kirkjunnar veigamiklu hlutverki.

Íslenska þjóðkirkjan hefur lengi vel sinnt mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi; hún hefur verið griðastaður þeirra sem hafa átt erfitt um vik, en ekki síður sá staður sem fólk kemur saman til að fagna gleðistundunum í sínu lífi. Boðskapur kirkjunnar á fullt erindi við landsmenn nú, eins og áður. 

 

Ég þekki það af eigin raun, því kirkjan reyndist mér vel þegar ég missti móður mína, í þessum mánuði fyrir sjö árum. Þá fann ég hversu mikilvæg kirkja er á raunarstundum, hún er athvarf í sorgum og hvernig einstaklingar innan hennar geta hjálpað manni að komast upp erfiðustu brekkurnar í lífinu. Fyrir það erum við kirkjunni, og ykkur sem hér eruð, þakklát.

Ágætu gestir,

„Hákoni varð helst að falli, að hlýddi hann eigi tímans kalli.“

Þannig orti Grímur Thomsen um fall Hákonar Hlaðajarls. Kall tímans árið 995 var kristin trú. „Nýr siður“ sem boðaður var af Ólafi konungi Tryggvasyni.

Við stöndum reglulega frammi fyrir þeirri áskorun þar sem við þurfum að meta hvort rétt sé að viðhalda íhaldssemi eða horfa með frálslyndari augum á hina ýmsu samfélagshætti. Það er ekki alltaf hægt að sjá það fyrir hvorn veginn skal fara í því samhengi; stundum er ekki bara ágætt heldur nauðsynlegt að halda í gamlar venjur, siði og reglufestu – en oft þurfum við að horfa með opnum hug til þeirrar þróunar sem er að eiga sér stað í samfélaginu, bæði nær og fjær.  

Þessar ljóðlínur sem ég vitnaði til hér eiga vel við eftir að ég horfði nýlega á fróðlegan sjónvarpsþátt um réttindabaráttu samkynhneigðra á árunum 1999-2016, þáttinn Svona fólk eftir Hrafnhildi Gunnarsdóttur, kvikmyndargerðamann. 

Segja verður eins og er að þjóðkirkjan var afar sein að taka við sér í þeirri réttindabaráttu. Fyrir okkur sem yngri erum kemur það okkur spánskt fyrir sjónir hve mikil, andstaða kirkjunnar var við að samkynhneigðir fengju að ala upp börn. Reynslan hefur þó að sjálfsögðu sýnt að þau hafa reynst góðir uppalendur og vitaskuld ekkert síðri en gagnkynhneigðir foreldrar.

Í ljósi þess að fjölskylduréttur samkynhneigðra er nú tryggður í löggjöfinni og þeir njóta loks fullra mannréttinda; þeir mega ala upp börn; um hjónabönd þeirra gilda engar sérreglur; í því ljósi verður ekki annað sagt en að þjóðkirkjan hafi ekki skilið kall tímans í málefnum samkynhneigðra þegar mest á reið.

Þjóðkirkjan var í engum takti við þjóðina sem í upphafi aldarinnar hafði að miklum meirihluta snúist á sveif með samkynhneigðum í baráttu þeirra fyrir sjálfsögðum mannréttindum. 

Kæru vinir,

Ég nefni þessi mál vegna þess að ég tel að þjóðkirkjan verði að læra af mistökum sínum. Nú vil ég þó sérstaklega taka fram að ég er ekki þeirrar skoðunar að kirkjan eigi að sveiflast með tískubylgjum eða öðrum nútímastraumum. Stór hluti af starfi kirkjunnar felst einmitt í því að standa fast á grunngildum sem vonandi víkja aldrei frá okkur – og kirkja á ekki að láta hina ýmsu sviptivinda slá sig út af laginu.

En réttindabarátta samkynhneigðra var ekki tískubylgja. Hún var ekki merki um hnignun samfélagsins eða afturför góðra gilda. Hún var – og er – hluti af þeirri framþróun mannkyns sem átt hefur sér stað á undanförnum öldum. Afstaða kirkjunnar í málefnum samkynhneigðra fældi marga frá henni, og ekki aðeins samkynhneigða einstaklinga heldur einnig fjölskyldur og vini sem ekki gátu skilið orðræðu forsvarsmanna kirkjunnar um samkynhneigð sem sjúkdóm eða synd.

Ég vil leyfa mér að vitna í þessu sambandi í prédikun afa míns heitins, séra Magnúsar Guðmundssonar, sem var á sínum tíma sóknarprestur í Grundarfirði. Hann sagði þar á einum stað:

„Vér viljum vera eins og hyggni maðurinn í dæmisögunni. Hann gaf sér tíma til að grafa í gegnum sandlagið niður á klöppina svo að hann gæti byggt á bjargi. Hann gerði sér ljóst að það var ekki nóg að heyra orðið, hann varð að læra að breyta eftir því, halda allt það sem Jesús hefur boðið. Verið gerendur orðsins, ekki aðeins heyrendur. Er það ekki hérna sem meinið liggur hjá oss? Vér eigum að breyta samkvæmt orði Krists, líf vort á að breytast, vér eigum að hlýðnast fyrirmælum Jesú í fjallræðunni en þar sagði hann: Vertu skjótur til sátta við andstæðing þinn meðan þú ert enn á veginum með honum. … Dæmið ekki svo að þér verðið ekki dæmdir…“

Magnús afi hafði þarna rétt fyrir sér. En lífið heldur áfram og kirkjan hefur og getur sýnt kærleikann í verki með ýmsum hætti, með áherslu á umburðarlyndi, skilning og virðingu fyrir náunganum. Ekkert af þessu kallar á að grunngildum kristinnar trúar sér breytt – þvert á móti. En þannig sýnir kirkjan að hún hefur lært af mistökunum – með því að beita sér í þágu mannréttinda, standa með fólkinu, mennskunni og sýna kærleika í verki. 

Ágætu gestir,

Krafan um jafnræði milli ólíkra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga verður sífellt meira áberandi og þá ekki síst meðal yngri kynslóðarinnar. Sjálfstæð kirkja óháð ríkisvaldinu samrýmist líka betur trúfrelsi og skoðanafrelsi en sérstaðan sem þjóðkirkjan hefur notið í íslenskri stjórnskipan. Fleiri og fleiri aðhyllast þá skoðun að það sé ekki hlutverk ríkisins að fjármagna trúfélög eða „hygla einu trúfélagi á kostnað annarra“ eins og stundum heyrist sagt.

Í mínum huga er ekki spurning um það, að kirkjan getur vel sinnt öllum verkefnum sínum og þar á meðal sáluhjálp og margvíslegri félagslegri þjónustu óháð ríkinu. Ég er einnig þeirrar skoðunar að margir muni fylgja kirkjunni að málum þótt fullkominn aðskilnaður verði á endanum á milli hennar og ríkisvaldsins. Ég mun halda áfram að tilheyra kristinni kirkju þótt leiðir skilji á milli hennar og ríkisins.

Nýlegt samkomulag milli ríkisvaldsins og þjóðkirkjunnar felur í sér að hún verður ekki lengur eins og hver önnur ríkisstofnun heldur mun hún fremur líkjast frjálsu trúfélagi sem ber ábyrgð á eigin rekstri og fjárhag.

Þessar breytingar eru til mikilla bóta og óhjákvæmilegt að stefna áfram á sömu braut í átt að fullum aðskilnaði með farsæld þjóðarinnar og þjóðkirkjunnar að leiðarljósi. 

Þangað til og þrátt fyrir samkomulagið sem ég hef hér vísað til mun þjóðkirkjan áfram njóta stuðnings og verndar íslenska ríkisins á grundvelli ákvæðis stjórnarskrárinnar Áfram verður gert ráð fyrir menningarlegum og fjárhagslegum tengslum. Með samningnum er ekki verið að hækka eða lækka þær greiðslur sem renna til þjóðkirkjunnar skv. kirkjujarðasamkomulaginu frá árinu 1997, en samningurinn felur í sér nýja viðmiðun fyrir þessar greiðslur, mikla einföldun á fjárhagslegum samskiptum og að starfsmannamál verða á hendi kirkjunnar.

Allt er þetta skynsamlegt og til mikilla bóta fyrir þjóðkirkjuna en það ríður á að kirkjunnar fólk taki höndum saman og axli ábyrgðina á framkvæmd samningsins. Hjá þessu ferli verður ekki komist og að þessu hefur verið stefnt lengi. Við skulum hins vegar vanda okkur í þessu ferli.

Það er mikilvægt að hugsa til þess að jafnvel þó svo að hin lútherska kirkja verði ekki Þjóðkirkja, þá er það undir henni sjálfri komið hvort hún verði áfram þjóðarkirkja. Það er undir henni komið að halda tengslum við þjóðina og viðhalda þeirri stöðu sem hún hefur nú þegar í þjóðarsálinni. 

Að endingu vil ég vitna aftur í prédikun afa míns, en hann flutti hana við vígslu Grundarfjarðarkirkju 31. júlí árið 1966. Orðrétt sagði hann:

„Vér höfum lagt oss fram um að vanda gerð kirkjunnar allt frá því grundvöllur hennar var lagður hér á þessum stað. Vér höfum líka kappkostað að gera búnað hennar allan sem bestan. Og þó er enn margt eftir. En ég segi í dag eins og einn af biskupum kirkju vorrar sagði þegar minnst var á að nýreista kirkju skorti enn ýmislegt. Hann sagði: „Kirkjur eru alltaf í smíðum.“

Þessi síðustu orð geta vel átt við um þjóðkirkjuna í heild sinni. Hún er alltaf í smíðum og hún verður að finna réttan samhljóm við þjóðina svo hún fái að vaxa og dafna. Ef vel tekst til mun henni vegna vel, óháð því hvernig tengslum hennar verður hagað við ríkisvaldið í framtíðinni. Ef kirkjan miðlar boðskap sem hefur vægi og þýðingu í aðstæðum hversdagsins og gagnvart álitamálum framtíðarinnar; ef fólkið ber traust til kirkjunnar og leitar til hennar í betri tíð og verri – þá verður kirkjan áfram þjóðkirkja. Hver svo sem laga- og stjórnskipunarleg staða hennar verður.

 

Ræðan var flutt á Kirkjuþingi 2. nóvember 2019.