ÁSLAUG ARNA SIGURBJÖRNSDÓTTIR

Dómarafélagið: Geispað og gapað af leiðindum

Ágætu dómarar og aðrir gestir.

Mér er það mikil ánægja að fá að ávarpa ykkur hér í dag á aðalfundi Dómarafélags Íslands.

Hæstiréttur Íslands verður 100 ára hinn 16. febrúar. Á dögunum átti ég þess kost að ganga um dómhúsið undir leiðsögn dómaranna Grétu Baldursdóttur, Helga I. Jónssonar, Karls Axelssonar og Þorgeirs Örlygssonar, forseta réttarins. Mér fannst mikið til koma. Þetta er einstaklega fallegt hús og glæsileg umgjörð um þennan æðsta dómstól þjóðarinnar. Að vísu virtist mér húsnæðið nokkuð við vöxt miðað við núverandi starfsemi en við getum litið svo á að húsnæðisþörf Hæstaréttar sé a.m.k. fullnægt til nokkuð langrar framtíðar!

Stofnun Hæstaréttar 1920 fól vissulega í sér miklar breytingar á réttarkerfinu en þá var æðsta dómsvaldið flutt til landsins frá Danmörku. Ég hygg að mér sé óhætt að segja að stofnun Landsréttar í byrjun árs 2018 hafi falið í sér einhverjar mestu breytingar á íslensku réttarkerfi allt frá stofnun Hæstaréttar. Stofnun millidómstóls var lengi í deiglunni en ég held að á þeim skamma tíma sem liðinn er frá stofnun réttarins hafi hann sannað gildi sitt. Hann hefur verið fljótur að ávinna sér nauðsynlegt traust þrátt fyrir erfiðleika í upphafi tengda skipun dómara við réttinn. Fyrir liggur að fjórir dómarar við réttinn hafa fengið áframhaldandi leyfi frá störfum fram á mitt næsta ár. Forseti Landsréttar hefur óskað eftir að sett verði í embætti þeirra á meðan á leyfinu stendur. Mál þetta er því miður í ákveðinni biðstöðu á meðan beðið er endanlegrar niðurstöðu efri deildar Mannréttindadómstóls Evrópu. Greinargerð af hálfu ríkisins var skilað í síðustu viku og málflutningur verður í byrjun febrúar. Ekki liggur fyrir hvenær dómur gengur en almennt líður nokkur tími þar til endanleg niðurstaða kemur en það fer þó að sjá fyrir endann á þessu máli. Þess má geta að íslenska ríkið hefur fengið virta enska lögmannsstofu til að aðstoða við undirbúning og flutning málsins fyrir dómstólnum.

Með tilkomu Landsréttar sem áfrýjunardómstóls urðu töluverðar breytingar á starfsemi Hæstaréttar Íslands. Dómurum hefur fækkað og eru þeir nú sjö. Eitt embætti losnaði nú í haust þegar tveir dómarar létu af embætti og hefur hæfnisnefnd umsóknir um það embætti til meðferðar.

Ég hef ekki setið í stóli dómsmálaráðherra nema í tæpa þrjá mánuði en á þeim stutta tíma hafa nokkur mikilvæg mál verið til umfjöllunar í ráðuneytinu tengd dómstólunum. Nefna má smíði frumvarps um stofnun endurupptökudómstóls en í frumvarpinu er lagt til að endurupptökunefnd verði lögð niður og settur verði á fót sérstakur dómstóll til að skera úr um hvort heimila skuli endurupptöku mála sem dæmd hafa verið í héraði, Landsrétti eða Hæstarétti. Einnig er unnið að frumvarpi um hagsmunaskráningu dómara þannig að aukið verði aðgengi að upplýsingum um aukastörf dómara og fjárhagslega hagsmuni.

Eitt mál er mér ofarlega í huga og ég get ekki látið hjá líða að nefna það hér, en það er mikilvægi þess að dómstólar gæti vel að því að viðkvæmar persónuupplýsingar séu ekki birtar í dómum sem birtir eru á heimasíðum dómstólanna. Ég ávarpaði nú í október ráðstefnu sem haldin var m.a. á vegum ráðuneytisins vegna formennsku Íslands í norrænu ráðherranefndinni. Yfirskrift ráðstefnunnar var: Njóta börn nægrar persónuverndar í stafrænum heimi? Þar voru margir góðir fyrirlesarar og m.a. norskur dómari sem fjallaði um mikilvægi verndar upplýsinga um börn í dómskerfinu. Mikið hefur verið fjallað um þetta efni á vettvangi dómskerfisins. Var m.a. í maí í fyrra haldinn fundur dómstólasýslunnar og umboðsmanns barna með fulltrúum réttarvörslukerfisins og þeim sem gæta hagsmuna barna. Þar voru rædd ýmis sjónarmið um hvernig unnt væri að tryggja betur persónuvernd  og friðhelgi barna við birtingu dóma. Ég tel að mikilvægt skref hafi verið stigið í þessum efnum við breytingu á lögum um dómstóla sem gildi tóku  25. júní sl. þar sem stjórn dómstólasýslunnar var falið að setja samræmdar reglur um birtingu dóma og úrskurða allra héraðsdómstóla, Landsréttar og Hæstaréttar á vefsíðum dómstólanna. Voru reglurnar settar 14. október 2019 og tóku þegar gildi. Í reglunum er mikil áhersla lögð á að gætt sé að nafnleynd og afmáningu viðkvæmra upplýsinga áður en dómar eru birtir á vefsíðum dómstólanna. Ég legg áherslu á að vel sé gætt að persónuvernd manna við birtingu dóma og þá sérstaklega barna. Það verður áhugavert að sjá virkni þessara reglna og þá í framhaldinu hvort frekari aðgerða er þörf og er ég tilbúin til að skoða frekari lagabreytingar í þessa veru.

Auk framangreinds hafa húsnæðismál dómstólanna verið til skoðunar í ráðuneytinu að undanförnu. Brýn nauðsyn er á að finna héraðsdómi Reykjavíkur nýtt húsnæði. Það húsnæði sem dómstóllinn er í þarfnast mikilla og kostnaðarsamra lagfæringa. Þá rennur leigusamningur um húsnæði héraðsdóms Reykjaness út eftir fimm ár. Það húsnæði er jafnframt orðið of lítið fyrir starfsemi réttarins. Landsréttur er tímabundið staðsettur í Kópavogi á grundvelli bráðabirgðaákvæðis í dómstólalögum sem rennur út 1. janúar 2022. Í samstarfi ráðuneytisins, dómstólasýslunnar og fulltrúa frá Hæstarétti, Landsrétti og héraðsdómstólum Reykjavíkur og Reykjaness er nú unnið að þarfagreiningu á húsnæðisþörf dómstólanna. Mun sú þarfagreining liggja fyrir innan tíðar og verða næstu skref tekin í framhaldinu. Ráðgert er að byggja dómhús á svokölluðum stjórnarráðsreit sem liggur milli Lindargötu og Skúlagötu. Þar er gert ráð fyrir byggingum sem hýsa eiga opinberar byggingar þ.m.t. ráðuneyti og dómstóla. Hönnunarsamkeppni um skipulag á reitnum var lokið 1. desember 2018 og var þá verðlaunatillagan kynnt.

Þegar hugað er að húsnæðismálum fyrir dómstólana er einnig mikilvægt að hafa í huga að unnið er að því að koma á fót rafrænni málsmeðferð hjá dómstólunum með því markmiði að auka skilvirkni við meðferð málanna. Getur rafræn málsmeðferð haft áhrif á húsnæðsþörf td. fjölda dómsala og annarrar aðstöðu? Á vegum ráðuneytisins er unnið að svokallaðri réttarvörslugátt þar sem markmiðið er að gera réttarvörslukerfið allt stafrænt þannig að gögn geti farið pappírslaust á milli stofnana eftir því sem máli vindur fram. Verkefnið er unnið í samstarfi við verkefnastofu um stafrænt Ísland, ríkislögreglustjóra, lögregluembætti, saksóknaraembættin, fangelsismálastofnun og alla dómstólana. Nú þegar er unnt að senda gögn frá héraðssaksóknara til héraðsdóms Reykjavíkur. Hvert skref í átt að rafrænni málsmeðferð er mikilvægt þótt lítið sé og byggir þar með grunninn undir stærri verkefni.

Húsnæði og tölvuvæðing myndar umgjörð um þá starfsemi sem fram fer í dómstólum landsins. Ég trúi því að miklar framfarir hafi orðið í málflutningi og öðrum dómstörfum frá því sem áður var ekkert síður en hvað varðar húsakostinn. Magnús Stephensen var a.m.k. ekki hrifinn af yfirréttinum, sem starfaði á Alþingi ár hvert á ofanverðri 18. öld og var lagður niður þegar Landsyfirréttur tók til starfa árið 1800. Magnús lýsti ástandinu með þessum orðum:

Meðdómendur hefur orðið að tína saman úr ferðamannaslangri…Þessir meðdómendur, sem kallað var að sætu dóminn, þekktu ekkert til málanna, sem dæma átti…Þegar talið er, að menn sitji og greiði dómsatkvæði, þá er í rauninni geispað og gapað af leiðindum, og hver greiðir ekki atkvæði fyrir sig og ekki skriflega; aðeins einn, ef til vill sá, er þekkir eitthvað til málsins, ræður niðurstöðunni. Málflutningur er að mestu fólginn í hnýfilyrðum, sem fávísir og frakkir málflytjendur hreyta hver í annan.

Ég trúi að ástandið hafi eitthvað batnað á dómþingum frá því þessi lýsing var sett á blað. Örugglega má þó enn finna einhver dæmi þess að dómendur geispi af leiðindum yfir málflutningi og dómendur þekkja alveg örugglega einhverja fávísa og frakka málflytjendur þó að það hljóti að heyra til undantekninga!

Ég vil að lokum óska ykkur góðrar umræðu og árangursríks aðalfundar og öllum dómurum gæfu og gengis í störfum sínum.