ÁSLAUG ARNA SIGURBJÖRNSDÓTTIR

SFF: Staða á FATF

Fundarstjóri, ágætu fundarmenn,

Í þessari ræðu mun ég fjalla um þá ákvörðun FATF (e. Financial Action Task Force), að setja Ísland á svonefndan „gráan lista“ yfir ríki sem sæta sérstöku eftirliti eða teljast áhættusöm með tilliti til peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka. Þá mun ég fjalla um það hvað gera þurfi til að komast af listanum, lýsa stuttlega þeim aðgerðum sem unnið er að til að komast af listanum og hvenær þess megi vænta að við komumst af þessum lista.

 

Ísland lenti á gráa listanum í október síðastliðnum þrátt fyrir að mikið hafi verið gert til að reyna að forða landinu frá þeirri niðurstöðu, allt frá því að lokaskýrsla FATF vegna úttektar á Íslandi lá fyrir í apríl 2018. Það á ekki síst við um aðdraganda fundarins í október, þegar allir lögðust á árar við að reyna að klára þær aðgerðir sem enn voru taldar útistandandi. Það skilaði sér í fækkun á aðgerðum sem búið var að setja á aðgerðaáætlunina. En lengra komumst við hins vegar ekki og við verðum því að sætta okkur við orðinn hlut. Vera okkar á gráa listanum er staðreynd. Út frá þeirri staðreynd verðum svo við að vinna, þar sem markmiðið er að sjálfsögðu að koma okkur af þessum lista aftur eins fljótt og unnt er.

 

Þegar kemur að því að svara spurningunni hvað þurfi að gera til að komast af gráa listanum þá liggur fyrir að FATF samþykkti sérstaka aðgerðaáætlun með tilteknum aðgerðum sem gerð er krafa um að Ísland grípi til. Svarið við þessari spurningu er því í sjálfu sér tiltölulega einfalt. Við þurfum að klára þessar aðgerðir með fullnægjandi hætti. Það er hins vegar ekki jafn einfalt að svara því hvenær það getur orðið, því aðgerðirnar sjálfar fela ekki allar í sér eitthvert áþreifanlegt takmark eða marklínu sem hægt er að hlaupa yfir, heldur fela þær í sér að það þarf að meta hvort fullnægjandi árangri hafi verið náð á þeim sviðum sem aðgerðirnar taka til. Það mat er í höndum annarra en okkar og svo ég tali tæpitungulaust, þá er það mat ekki alltaf gagnsætt og skýrt. Við vorum auðvitað ekki sammála þeirri niðurstöðu FATF að setja Ísland á gráa listann. Það er ekkert launungarmál. Það sést kannski best á því að við vorum þeirrar skoðunar, og erum raunar enn, að Ísland hefði þegar verið búið að klára þessar aðgerðir á aðgerðaáætluninni með fullnægjandi hætti áður en kom að fundinum í október. Sérfræðingahópurinn sem sá um að meta árangur Íslands var hins vegar ekki á sama máli og það var það sem réði niðurstöðunni.

 

Staðan er því sú að við þurfum að vinna að þessum aðgerðum á aðgerðaáætluninni með jafn hröðum og vandvirkum hætti og unnt er. Hlutaðeigandi stjórnvöld eru að sjálfsögðu meðvituð um þetta og vinnan við að taka á þessum atriðum er þegar hafin og hófst í raun um leið og niðurstaðan um grálistun Íslands lá fyrir. Þetta er heilmikil áskorun en við kveinkum okkur hvergi undan henni.

 

Ef ég vík aðeins nánar að þessum aðgerðum og það sem verið er að gera varðandi þær, þá er þar í fyrsta lagi um að ræða aðgerð sem felur í sér að bæði grunnupplýsingar og upplýsingar um raunverulega eigendur lögaðila séu aðgengilegar fyrir þar til bær stjórnvöld innan hæfilegs tíma. Þetta sé sérstaklega gert með því að safna upplýsingum um raunverulega eigendur í þar til gerða skrá, svo og að sýna fram á að hæfilegum viðurlögum sé beitt í þeim tilvikum þar sem brotið er gegn þessum skyldum.

 

Um þessa aðgerð er það að segja að skrá um raunverulega eigendur verður tilbúin hjá fyrirtækjaskrá 1. desember næstkomandi. Þegar er byrjað að safna saman upplýsingum í skrána. Nýskráð félög þurfa að veita þessar upplýsingar við skráningu og þegar skráð félög innan gefins frests sem er 1. júní næstkomandi. Sérstaklega er til skoðunar hjá stjórnvöldum hvort ekki eigi að stytta þennan frest. Þá hefur fyrirtækjaskrá jafnframt hafið sérstakt átak í að kanna réttmæti skráðra upplýsinga í fyrirtækjaskrá. Það átak hefur þegar haft í för með sér að fjölda félaga hefur verið gefinn frestur til að bæta úr röngum og ónákvæmum skráningum að viðlögðum sektum.

 

Í öðru lagi er gerð krafa um að lokið sé við innleiðingu á svokölluðu goAML kerfi hjá Skrifstofu fjármálagreininga lögreglu. Einnig er gerð krafa um fjölgun í starfsliði skrifstofunnar til að koma til móts við þá aukningu sem hefur orðið á tilkynningum um grunsamlegar færslur frá tilkynningarskyldum aðilum og til að tryggja að skrifstofan haldi og styrki greiningarhæfni sína.

 

Hvað goAML kerfið varðar þá er um að ræða kerfi sem tekur við og skráir tilkynningar um grunsamlegar færslur frá tilkynningarskyldum aðilum. Þetta kerfi hefur verið í innleiðingu frá því fyrr á þessu ári. Gert er ráð fyrir að innleiðingunni verði lokið um mánaðarmótin apríl/maí á næsta ári. Búið er að leita allra leiða til að flýta þessari innleiðingu. Staðreyndin er hins vegar sú að hún tekur tíma og þeir sérfræðingar sem rætt hefur verið við mæla frekar gegn því að svona innleiðingu sé flýtt. Slíkt geti skapað vandamál á síðari stigum ferlisins. Okkar stefna í þessum efnum er alveg skýr. Við leggjum frekar áherslu á að gera hlutina rétt heldur en of hratt og ef það þýðir að við verðum að bíða fram í maí þar til innleiðingarferlið klárast, þá verður svo að vera. Það breytir því ekki að þessi aðgerð er í fullri vinnslu og verður það áfram.

 

Þá erum við einnig búin að bregðast við kröfum um aukinn mannskap hjá Skrifstofu fjármálagreininga lögreglu. Samþykkt hefur verið að bæta við þremur starfsmönnum hjá skrifstofunni. Búið er að ráða tvo og ég held að ég farið rétt með að þeir hafi báðir hafið störf. Ráðningin á þriðja starfsmanninum er svo yfirstandandi. Þessir starfsmenn koma til viðbótar þeim fimm starfsmönnum sem eru þegar til staðar og munu auðvitað styrkja starfsemi og greiningarhæfni skrifstofunnar til mikilla muna.

 

Í þriðja lagi ber Íslandi að tryggja að skilvirkt eftirlit sé með því að bæði fjármálafyrirtæki og aðrir tilkynningarskyldir aðilar sinni þeim skyldum sem á þeim hvíla í tengslum við alþjóðlegar þvingunaraðgerðir. Þá sérstaklega hvað varðar þær skyldur sem leiða af tiltölulega ný settum lögum um frystingu fjármuna o.fl. nr. 64/2019. Bæði Fjármálaeftirlitið og peningaþvættiseftirlit Ríkisskattstjóra, sem fer með eftirlit með öðrum tilkynningarskyldum aðilum en fjármálafyrirtækjum, hafa styrkt eftirlit sitt verulega hvað þetta varðar, uppfært verkferla og aukið fjölda vettvangsathugana hjá tilkynningarskyldum aðilum þar sem þessi atriði eru sérstaklega tekin til skoðunar. Þetta er ein af þeim aðgerðum sem snýr nær eingöngu að skilvirkni og áframhaldandi eftirliti þar sem getur verið erfitt að sjá fyrir einhvern fastan lokapunkt, en vinnu við þessa aðgerð miðar samkvæmt þessu vel.

 

Í fjórða lagi er Íslandi gert að setja löggjöf sem tryggir skilvirka yfirsýn og eftirlit með svokölluðum almannaheillafélögum. Slík löggjöf á að ná til þeirra almannaheillafélaga sem eru metin í hættu á því að vera misnotuð í þágu fjármögnunar hryðjuverka. Þá er jafnframt gerð krafa um að útbúnir séu verkferlar og að tryggt sé að til staðar séu fullnægjandi úrræði til að meta hættuna af fjármögnun hryðjuverka í þessum geira, eftir atvikum með því að nota þau úrræði sem umrædd löggjöf gerir ráð fyrir.

 

Þessi löggjöf hefur þegar verið sett með lögum um skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri nr. 119/2019. Lögin taka til almannaheillafélaga sem stofnað er til eða starfrækt eru í þeim tilgangi að safna eða útdeila fjármunum í almannaþágu og eru með starfsemi yfir landamæri. Löggjöfin felur í sér viðbrögð við niðurstöðum áhættumats Ríkislögreglustjóra að þessu leyti, því það er þegar búið að meta hættuna af fjármögnun hryðjuverka hjá almannaheillafélögum. Heildaráhættan fyrir fjármögnun hryðjuverka hjá slíkum félögum var metin lág/miðlungs en ákveðnir veikleikar voru hins vegar greindir hjá almannaheillafélögum sem starfa yfir landamæri, svo sem skortur á yfirsýn og utanumhaldi. Lagasetningin felur jafnframt í sér viðbrögð við athugasemdum FATF að þessu leyti um skort á eftirliti með þessum félögum. Þessu til viðbótar hefur stýrihópur dómsmálaráðherra útbúið sérstaka aðferðafræði fyrir eftirlit með þeim almannaheillafélögum sem eru í hvað mestri hættu á því að vera misnotuð .

 

Líkt og hér hefur verið lýst er verið að vinna að framkvæmd allra þeirra aðgerða sem krafist er af okkur af hálfu FATF. Það sem næst gerist í þessu ferli er að sérfræðingahópurinn sem sá um að meta árangur Íslands fyrir fundinn í október mun skila skýrslu til FATF um þann árangur sem Ísland hefur náð varðandi aðgerðaáætlunina. Ítarlegum upplýsingum og gögnum um þá vinnu hefur þegar verið skilað af okkar hálfu. Sérfræðingahópurinn leggur síðan mat á þær upplýsingar og skilar skýrslu til FATF sem ræðir hana á fundi sínum í febrúar.  

 

Þá erum við komin að spurningunni um það hvenær þess megi vænta að Ísland komist af gráa listanum? Líkt og ég minntist á hérna áðan þá erum við ekki ein í þessu ferli og það hvenær við komumst af listanum er háð því að FATF telji að við höfum lokið þeim aðgerðum sem eru á aðgerðaáætluninni með fullnægjandi hætti. Við erum m.ö.o. ekki dómarar í eigin sök og þurfum að sætta okkur við að það séu aðrir sem eigi lokaorðið í þessum efnum. Það sem við getum hins vegar gert og það sem höfum verið að gera er að vinna áfram af þeirri einurð og krafti sem einkennt hefur allar okkar aðgerðir undanfarna 18 mánuði.

 

Ég get samkvæmt þessu ekki gefið endanlegt svar um það hvenær við losnum af listanum. Ég get hins vegar sagt ykkur að það liggur fyrir að það mun gerast í tengslum við reglulega fundi FATF sem haldnir eru í febrúar, júní og október á hverju ári. Ég ætla aftur á móti að leggja áherslu á að ég mælist gegn óhóflegri bjartsýni hvað þetta varðar. Það hefur heyrst tal um að við gætum þess vegna losnað af listanum núna strax í febrúar, en ég ætla ekki að draga dul á þá skoðun mína að það er eitthvað sem verður að teljast fremur ólíklegt. Að öðru leyti ætla ég ekki að hafa uppi frekari getgátur í þessum efnum, en ítreka að það verður í engu slegið slöku við af okkar hálfu í þeirri viðleitni að stytta þann tíma eins mikið og mögulegt er.