Á tímamótum – og allan ársins hring

Í upp­hafi nýs árs er við hæfi að meta árið sem nú er liðið og horfa til þess hvernig nýja árið lítur út. Árið 2019 var viðburðaríkt og full ástæða er til að horfa björt­um aug­um á árið 2020.

Ísland er á réttri leið og við get­um verið full til­hlökk­un­ar gagn­vart þeim krefj­andi verkefn­um sem bíða og nýj­um tæki­fær­um til að gera enn bet­ur.

Rík­is­sjóður hef­ur aldrei staðið styrk­ari fót­um og vext­ir hafa lækkað þrátt fyr­ir samdráttarskeið. Í gegn­um þau efna­hags­legu áföll, sér­stak­lega í ferðaþjón­ustu, sem urðu á ár­inu sem nú er liðið, hef­ur verðbólga hald­ist stöðug og gengið lítið lækkað. Sá grunn­ur er for­senda þess að hægt sé að vinna áfram að betri lífs­kjör­um allra lands­manna.

Útlitið í efna­hags­mál­um í upp­hafi síðasta árs var ekki bjart. Stærsta úr­lausn­ar­efnið voru kjara­samning­ar á al­menn­um vinnu­markaði. Með samstilltu átaki og vegna þeirra skynsam­legu ákvarðana sem tekn­ar voru tókst okk­ur að af­stýra óstöðug­leika og bæta lífs­kjör al­menn­ings, einkum hinna lægst launuðu, skapa for­send­ur fyr­ir auk­inn kaup­mátt, lægri vexti og stöðug­leika í verðlags­málum til hagsbóta fyr­ir alla.

Rík­is­stjórn­in kom með mynd­ar­leg­um hætti að lausn kjara­deil­unn­ar og mun áfram stuðla að auk­inni velsæld hér á landi. Við höf­um lækkað tekju­skatt, lengt fæðing­ar­or­lof, aukið barnabæt­ur og stuðning við ungt fólk í húsnæðis­kaup­um. Allt eru þetta brýn verk­efni sem einkum gagn­ast ungu fólki og hinum tekju­lægri. Ég er stolt af því að eiga sæti í ríkisstjórn sem berst fyr­ir bætt­um lífs­kjör­um almenn­ings með svo af­ger­andi hætti.

Mátt­ur sam­stöðu og gagn­kvæms skiln­ings er mik­ill og ár­ang­urs­rík­ur. Það mun ég hafa að leiðarljósi í störf­um mín­um í dómsmálaráðuneyt­inu á kom­andi ári. Þar bíða brýn verk­efni á borð við mál­efni fanga, útlendinga og lög­reglu, svo fátt eitt sé nefnt. Sú bjarg­fasta trú mín að mik­il­vægt sé að einfalda reglu­verk öll­um til hægðar­auka verður leiðarljós mitt á nýju ári – meðal ann­ars í breyting­um á lög­um um áfeng­is­sölu, breytingum á lög­um um mannanafna­nefnd og bættri þjón­ustu við almenning.

Sann­ind­in um þýðingu sam­stöðu og sam­heldni þjóðar­inn­ar birt­ist með óvænt­um hætti þegar gífurlegt óveður gekk yfir landið í byrj­un desem­ber. Þar urðum við vitni að því að þúsund­ir sjálf­boðaliða eru reiðubún­ir til að hætta lífi sínu til stuðnings og hjálp­ar meðborg­ur­um sín­um. All­ar aðgerðir stjórnmála­manna blikna í sam­an­b­urði. Þarna sýndu Íslend­ing­ar sín­ar bestu hliðar. Í þeim anda, umhyggju fyr­ir ná­ung­an­um, sem er svo stór þátt­ur í sam­fé­lagi okk­ar, skul­um við byggja framtíðina. Fyr­ir þessa dýr­mætu auðlind ber að þakka, ekki eingöngu um áramót held­ur all­an árs­ins hring.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. janúar 2020.