ÁSLAUG ARNA SIGURBJÖRNSDÓTTIR

Fríkirkjan í Hafnarfirði: Lánið bæði og lífið er valt

Kærar þakkir fyrir að bjóða mér á þessa fallegu stund hérna með ykkur í kvöld. 

Ég er þakklát fyrir að fá tækifæri til að segja hér nokkur orð, sífellt er lífið að gefa manni nýjar áskoranir, tækifæri og fjölbreytta daga. Lífið er nefnilega svo dásamlegt þrátt fyrir alla þröskuldana í því.

Leiðarstefið um að hver dagur sé dýrmætur, hvert andartak og hver upplifun einstök. 

Það eru skilaboð sem reynast mörgum flókin í amstri dagsins. Það er áskorun fyrir mig og fleiri að staldra við og muna að njóta, muna að lífið er ekki sjálfgefið og hver dagur sé dýrmætur. Ekki síst þegar sífellt berast erfiðar fréttir, af slysum, snjóflóðum og óveðrum. 

Hugur okkar er hjá strákunum og fjölskyldum þeirra sem þurfa allan okkar stuðning, kærleik og hugsanir.  

Á lífsins leið þurfum við stundum að horfast í augu við staðreyndir og aðstæður sem við ekki skiljum og getum ekki fundið lausnir við. 

Eins og segir í kvæði Guðmunds Friðjónssonar:

Lánið bæði og lífið er valt, ljós og myrkur vega salt.

 

Flest höfum við gengið í gegnum lífsreynslu sem setur skarð í lífið og tilveruna, flest höfum við upplifað sorg. Ýmsir viðburðir á lífsins vegi – reynast misstórir þröskuldar sem þarf að klífa yfir.  En það skilur mann eftir, að minnsta kosti mig, með nokkrar lífsreglur og lærdóm. Lærdómurinn er að muna það á hverjum degi er mikilvægt að lifa lífinu lifandi. Lífið er nefnilega yndislegt og dýrmætt og því má ekki gleyma þó það dimmi fyrir á köflum. 

 

Í amstri hversdagsins gleymist stundum hvers vegna við séum að þessu öllu saman, þegar verkefnin virðast endalaus, alltaf hægt að gera meira, sinna fleiru, klára hitt og gera þetta. Sjálf tek ég gjarnan að mér hrúgu af verkefnum, vill sinna öllum vel, gera allt vel og hoppa á öll þau tækifæri sem bjóðast. 

En einhversstaðar þarna á milli er millivegur sem allir reyna að finna. Vegurinn þar sem þú nýtur lífsins í bland við öll verkefnin sem þú tekur að þér á hverjum degi. Og þá skiptir máli að verkefni dagsins séu þess virði. 

 

Mér hefur stundum þótt þetta erfitt, krefjandi að passa upp á það á hverjum degi að maður sé að hugsa um sjálfan sig. Krefjandi að setja sig í fyrsta sætið, því stundum er auðveldara að hraðspóla og gleyma svolítið sjálfum sér. Fyrst og síðast getur maður ekki hjálpað öðrum nema að maður hjálpi sjálfum sér fyrst og maður á líka erfiðara með að elska aðra ef maður elskar sjálfan sig ekki líka. 

Það er stundum gott að spyrja sig spurningar – hvort maður sé að njóta? 

Stundum er svarið já, en maður verði mögulega að taka sér meiri tíma í að átta sig á því hvað lífið er gott og átta sig á því að hver dagur sé einstakur. 

Stundum er svarið nei og þá verður maður að taka ákvörðun um að gera minna af því sem lætur mann ekki njóta hvers dags.  Hvort sem það er að færri eða önnur verkefni, félagsskapur sem veitir manni ekki gleði eða að átta sig á því að hamingjan fæst hvergi keypt, að hamingjan felst ekki í dauðum hlutum. Það getur verið erfitt og krefjandi að breyta háttum sínum og hugsunum en að sama skapi líka lífsnauðsynleg. 

Maður veit aldrei hvað næsti dagur ber í skauti sér og því verður maður bara að lifa núna. Ég stekk t.d. í ýmsar djúpar laugar ef ég tel að ég geti haft áhrif, læt slag standa og sé svo hvernig fer.  Ég reyni að lifa eftir þeim formerkjum að hver dagur sé mikilvægur. 

Ég vil njóta hvers dags og vera sátt í dagslok því dagurinn verður ekki endurtekinn. Það er erfitt en stundum tekst það. Markmiðið að lokum er að það séu fleiri dagar en færri sem maður nýtur. En svo verður maður að líka að leyfa sér að líða illa. Við erum eftir allt manneskjur, sem þurfum að fara vel með okkur, finna meðalveginn, njóta en líka gráta þegar þess er þörf. 

Sorgin ber oft á dyr – sjálf leitaði ég til kirkjunnar eftir að ég missti mömmu fyrir rúmum 7 árum síðan. Ég fann svör við spurningum og útskýringu á tilfinningum sem koma upp vegna sorgarinnar.  Ekki þannig að sorgin hverfi, en hún getur dregið máttinn úr manni en hún er líka þess eðlis að smátt og smátt umbreytist hún. Hún blandast betri tilfinningum á borð við þakklæti og skilningi gagnvart því sem við fáum ekki breytt og þeirri von sem vonandi flestir eiga um að dag einn, þegar við verðum gengin sömu leið og lögð til sömu hvílu í íslenskri mold, að þá megum við að nýju hitta fyrir þá sem við elskum og söknum í dag. 

 

Þakklætið ætti að vera leiðarstef á góðu og slæmu dögunum. Þakklæti fyrir lífið og dýrðina í því, og líka þakklætið sem maður finnur í sorginni, þakklætið fyrir allt það sem maður saknar. 

 

Takk.