Kæru FKA konur og aðrir gestir.
Mikið er gaman að fá tækifæri til þess að vera með ykkur hér í dag. Ég ætla að reyna að tala ekki lengi en ég ætla hins vegar að nýta tímann, í að tala aðeins um tímann. „Tíminn er svo ruglaður!” – Þetta sagði lögfræðingur við mig um daginn og bætti við: „Mér finnst það hafa verið í gær þegar þú sast hjá mér í munnlegu prófi í lagadeildinni en núna ertu farin að skipa Hæstaréttardómara!”
Vissulega hefur tíminn liðið hratt í mínu tilviki og ekki ýkja langt síðan ég tók þetta próf hjá honum í lagadeildinni – við erum reyndar á fjórða forsætisráðherranum frá þeim degi. En það er þetta með tímann.
Sumum finnast hlutirnir breytast of hratt, eins og sá sem sagði stuttu eftir að ég var skipuð dómsmálaráðherra og verið var að velta vöngum á miðlunum yfir því hvort kona yrði ekki skipuð útvarpsstjóri: „Hva? Á bara að skipa krakka og kellingar í öll embætti?” Sumum finnst hlutirnir alveg eins og þeir eigi að vera: líkt og 15 ára stelpan sem sendi mér póst um daginn og sagði : ,,Ég ætla að verða dómsmálaráðherra”. Svo stundum, og á öllu alvarlegri nótum, finnst manni hlutirnir ganga alltof hægt eða beinlínis afturábak, eins og þegar maður fylgist með umræðum og tillögum á Bandaríkjaþingi um hertari þungunarrofslöggjöf þar í landi.
En það er þetta með tímann.
Manni fallast auðveldlega hendur þegar manni finnst langt á áfangastað, það á jafnt við um jafnréttisbaráttuna og hringferð Sjálfstæðisflokksins í rútu um landið! En þá má líka stundum minna sig á hversu langt við erum komin, til þess að missa ekki sjónar af því hve langt við getum enn færst áfram á stuttum tíma. Það eru einungis rétt rúm hundrað ár síðan fyrsta konan lauk háskólaprófi frá Háskóla Íslands. Sú var Kristín Ólafsdóttir, fyrsti kvenlæknir á Íslandi.
Um jólin las ég nýju bókina um Vigdísi Finnbogadóttur eftir Rán Flygenring. Ég gaf þessa bók öllum börnunum mínum — sem ég á ekki heldur frænkur og vinkonur — í jólagjöf. Að lesa hana er eilítið eins og maður sé að lesa um löngu liðna atburði í mannkynssögunni: Með réttu ættu a.m.k. 100 ár að vera liðin síðan hugmyndin um kvenforseta hefði fyrst komið fram. Og hugsið ykkur að það séu aðeins 40 ár síðan — þegar Vigdís var kjörin forseti — að einhverjir hneyksluðust á því hvað hún ætlaði nú að gera í þessu embætti — einstæð móðir sem ætti engan mann! Sem betur fer voru hennar aðstæður gjörólíkar þeim sem við upplifum í dag.
Það finnum við líka sem sitjum í ríkisstjórn konunnar hans Gunnars Sigvaldasonar. Kristínu og Frú Vigdísi, líkt og Katrínu Jakobsdóttir hefur ekki skorti framsækni, kunnáttu eða afl. Margir hlutir hafa breyst hratt, þökk sé allskonar konum sem hafa haft þessi gildi að leiðarljósi.
Þegar ég til dæmis lít mér nær og sé hvað mamma mín heitin var að gera á mínum aldri. Fyrir 35 árum stundaði hún nám sem kennari við Stanford háskóla, til að læra að nýta tölvur við kennslu. Á þeim tíma notuðu innan við 1% framhaldsskólakennara tölvur við ritvinnslu á Íslandi. Manneskja í kennarastétt sem lét sér detta í hug að læra sérstaklega frekari nýtingu á þessum tólum á þeim tíma skorti ekki framsækni.
Ekki frekar en hún Guðrún Ögmundsdóttir, sem kvaddi okkur nýlega. Kona sem barðist með kjafti og klóm fyrir réttindum kvenna og hinsegin fólks. En það var ekki bara barátta hennar sem var framsækin, heldur nálgun hennar og viðhorf, hvatning til kvenna þvert á flokka – og ekki síður hvatning til karla um að taka þátt í þessari mikilvægu baráttu. Nú, eða Hildur Guðnadóttir – sem í næsta mánuði gæti orðið fyrsti Íslendingurinn sem vinnur til Óskarsverðlauna, auk þess sem hún gæti orðið fyrsta konan í heiminum til þess að vinna verðlaunin í sínum flokki.
Kæru konur.
Í þessari viku eru allir helstu viðskiptajöfrar og stjórnmálaleiðtogar heimsins saman komnir á ráðstefnu í Davos í Sviss – og ræða brýnustu mál samtímans m.a. loftlagsmálin og jafnrétti kynjanna. Í grein sem liggur frammi á ráðstefnunni blasir við tafla þar sem enn á ný kemur fram að Ísland hafi náð lengst allra ríkja í jafnréttismálum. Það er gott að vera fyrirmynd, en betur má ef duga skal. Í greininni sem liggur frammi á ráðstefnunni í Davos — The route to gender equality? Fix the system, not the women — segir að leiðin að fullu jafnrétti á vinnustöðum felist í því að breyta kerfinu, breyta kúltúrnum, en ekki konunum. Er ekki kominn tími til að breyta menningunni á fjölmörgum íslenskum vinnustöðum? Lifa ekki alls kyns fordómar góðu lífi í þjóðfélagi okkar sem torvelda enn frekari framfarir? Heyrist ekki enn oft sagt að konur skorti metnað, sjálfstraust, þær fælist undan ábyrgð, séu áhættufælnar, þori ekki að taka mjög stórar ákvarðanir og að það séu einfaldlega ekki nógu margar konur til að taka að sér stóru störfin?
Svona tal er ekki aðeins skaðlegt heldur beinlínis rangt og hægir á árangri. Þessu þarf að breyta. Það þarf að kveða svona drauga niður í hvert skipti sem þeir láta á sér kræla. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að það bætir andrúmsloftið innan fyrirtækja og skilar þeim og þjóðfélaginu öllu – betri árangri ef jafnrétti nær fram að ganga. Á öllum sviðum.
Kæru vinkonur
Það voru framsýnar konur sem stofnuðu þennan félagsskap — FKA — fyrir rétt rúmum 20 árum. Markmiðið var að efla tengslanet kvenna og láta rödd þeirra heyrast sem víðast í íslensku atvinnulífi. Þetta hefur skilað miklum árangri. Framsækni, kunnátta og afl — einkunnarorð FKA — eiga svo sannarlega við fjölda íslenskra kvenna sem hafa skilað okkur á þann stað sem við erum á í dag og munu á endanum skila okkur á áfangastað. Sá áfangstaður felur í sér jöfn tækifæri á öllum sviðum, hvort sem rætt er um forstjórastóla, stjórnir fyrirtækja, heimilisstörf, launakjör eða ráðuneyti. Ég vil að lokum óska þeim sem taka við verðlaunum hér í kvöld, fyrirfram til hamingju. Ég veit að þið eruð vel að þessu komnar. Þið, eins og svo margar á undan ykkur, hafið þurft að sýna framsækni, kunnáttu og afl.
Þegar við veltum aftur fyrir okkur tímanum – af því að minn ræðutími er búinn – þá vitum við ýmislegt um fortíðina og við vitum ýmislegt um daginn í dag. Við vitum að aldrei fyrr hefur mannkynið haft það jafn gott og í dag, bæði í efnahagslegu og félagslegu samhengi. Jafnrétti kynjanna spilar þar stórt hlutverk, reyndar mjög stórt. Við vitum aftur á móti minna um framtíðina, en við vitum þó að það er undir okkur komið að móta hana. Formæður okkar höfðu ekki sömu tækifæri til þess, en það höfum við. Við skulum nýta þau tækifæri vel.