ÁSLAUG ARNA SIGURBJÖRNSDÓTTIR

Lögregluráð: Samvinna er styrkur

Ágætu fundarmenn.

Á þessum fyrsta fundi lögregluráðs vil ég lýsa ánægju minni með að okkur hafi loksins gefist færi á að koma saman til að hrinda starfi þess formlega af stað. Nátturan hefur minnt hressilega á sig með alvarlegum afleiðingum undanfarnar vikur og mikið hefur mætt á lögreglumönnum, almannavarnadeild og öðrum viðbragðsaðilum. Það er einmitt óvæntir atburðir og áskoranir sem einkenna starf lögreglunnar oft á tíðum. En það er ljóst að við verðum að vinna öll saman að uppbyggingu almannavarnakerfisins á landsvísu, með skýrum áætlunum, fræðslu og aukinni þekkingu. 

En að lögregluráðinu. Ég bind miklar vonir við að ráðið verði líflegur vettvangur umræðu, hugmynda og tillagna, sem geti veitt dómsmálaráðherra á hverjum tíma mikilvæga ráðgjöf varðandi breytingar á skipulagi og starfsemi lögreglunnar og jafnframt veitt honum og ráðuneytinu nauðsynlegt aðhald. Í ráðinu hljóta að koma til skoðunar hvers kyns skipulagsmál eins og t.d. flutningur eða staðsetning sameiginlegra verkefna. Öðru fremur trúi ég því að hér sé um að ræða mikilvægt skref í átt að góðri samvinnu okkar á milli.

Þegar ég tók við embætti dómsmálaráðherra í september sl. voru uppi háværar deilur innan lögreglunnar. Má jafnvel segja að þá hafi tíðkast hin breiðu spjótin og þá ekki síst í fjölmiðlum.

Líkt og þið þekkið manna best þá lýstu lögreglustjórar yfir vantrausti á þáverandi ríkislögreglustjóra – allir nema einn – og kvörtuðu yfir samskipta- og samráðsleysi. Jafnframt lýstu þeir þó yfir eindregnum vilja til að vinna saman að eflingu lögreglunnar í landinu. 

Eitt af fyrstu verkefnum mínum í embætti var því að bregðast við þeirri stöðu sem upp var komin og efna til funda um skipulag lögreglu með öllum hlutaðeigandi aðilum, þar á meðal nánast öllum þeim sem hér sitja, til að hlusta á skoðanir, kalla eftir afstöðu og greina vandann.

Í upphafi þessarar vinnu var varpað fram margvíslegum hugmyndum, m.a. um sameiningu embætta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum, stofnun nýs embættis landamæravörslu og flutning verkefna frá embætti ríkislögreglustjóra til annarra lögregluembætta. Niðurstaða þeirrar vinnu var að fara ekki út í þessar kerfisbreytingar heldur efna til stofnunar formlegs samráðsvettvangs – lögregluráðs – sem nú er að koma saman í fyrsta skipti.

Mikilvæg forsenda þessarar vinnu var sú ákvörðun að fyrrverandi ríkislögreglustjóra skyldi víkja til hliðar. Lét hann af störfum nú um áramótin. Í framhaldinu hefur embætti ríkislögreglustjóra verið auglýst laust til umsóknar. Umsóknarfrestur er liðinn og þriggja manna hæfisnefnd hefur verið skipuð – og er tekin til starfa – til að fara yfir umsóknir og koma með tillögu til ráðuneytisins. Stefnt er að því að nýr ríkislögreglustjóri taki við embætti hinn 1. mars næstkomandi. Í nefndinni sitja Andri Árnason, lögmaður, Ragnhildur Helgadóttir, prófessor, og Björn Rögnvaldsson, sérfræðingur í kjara- og mannauðssýslu ríkisins.

Eins og ykkur er kunnugt hefur Kjartan Þorkelsson, lögreglustjóri á Suðurlandi, verið settur tímabundið í embættið. Mun hann ásamt settum aðstoðarvararíkislögreglustjóra, Margéti Kristínu Pálsdóttur, halda utan um rekstur embættisins og fylgja störfum lögregluráðs úr hlaði. Auk þeirra hefur Víðir Reynisson tekið tímabundið til starfa og mun vinna ásamt þeim Kjartani og Margréti Kristínu að greiningu verkefna embættisins. Þau þrjú munu fara yfir þau verkefni sem þeim er ætlað að sinna í erindum sínum hér á eftir.

Þá hef ég einnig skipað starfshóp sem mun hafa yfirumsjón með þessari greiningarvinnu. Í honum sitja áðurnefnd Kjartan, Margrét og Víðir auk Jóns Bjartmarz frá embætti ríkislögreglustjóra. Fulltrúar dómsmálaráðuneytisins verða Eydís Líndal, Kjartan Ólafsson, Unnur Brá Konráðsdóttir og Ragna Bjarnadóttir, sem fer jafnframt með formennsku í hópnum.

Loks er vert að geta þess að von er á stjórnsýsluúttekt ríkisendurskoðunar á allra næstu dögum.  Ég bind vonir við að þar komi fram hvernig fjármunir þeir sem ríkið veitir til lögreglu á ári hverju eru nýttir og hvernig gera má betur við þá 17 milljarða sem lögreglan fær á hverju ári. Loks hef ég afráðið að fela lögfræðingum ráðuneytisins að ljúka vinnu við samningu reglugerðar á grundvelli lögreglulaga þar sem nánari fyrirmæli verða um hlutverk ríkislögreglustjóra. Það hefur skort á skýrleika um hlutverk embættisins og með reglugerðinni verður reynt að bæta úr því eftir því sem unnt er á grundvelli gildandi laga. Legg ég áherslu á að drög að þeirri reglugerð verði tilbúin og kynnt lögregluráði á næstunni svo að hún verði tilbúin eins fljótt og verða má.

Samkvæmt framansögðu verða skýr kaflaskipti þegar nýr ríkislögreglustjóri kemur til starfa á vordögum. Hugmynd mín er sú að embætti ríkislögreglustjóra verði í framtíðinni öflugt samræmingar- og þjónustuafl fyrir lögregluna í heild, með skýra sýn á löggæslu og leiði stefnumörkun til framtíðar.

Markmiðin með stofnun lögregluráðs er að auka samvinnu lögregluembættanna, gera störf lögreglunnar skilvirkari, draga úr tvíverknaði og nýta fjármuni sem best.  Það á að ræða og koma með tillögur um framtíðarskipulag löggæslunnar í landinu. Hvaða verkefni er rétt að embætti ríkislögreglustjóra sinni til framtíðar? Hvernig verður best tryggt að aðbúnaður, viðbragðstími, þjónustuhlutverk og tækjabúnaður lögreglunnar sé eins og best verður á kosið alls staðar á landinu?

Ekkert er athugavert við heilbrigð skoðanaskipti um þessi og önnur álitaefni – jafnvel hraustleg skoðanaskipti á stundum. Sérstaklega á þeim stundum sem sú umræða verður persónuleg og sérstaklega viðkvæm er mikilvægt að við getum talað saman á þessum vettvangi í stað þess að heyja baráttuna fyrir opnum tjöldum. Saman getum við náð ótrúlegum árangri í löggæslu, að skapa traust og ekki síst skilvirkni. 

Ákvarðanir og stefnumörkun í löggæslumálum verður að hvíla á faglegum og vönduðum undirbúningi þar sem heilbrigð skoðanaskipti eru lykilatriði. Í sameiningu þurfum við að vinna að ákveðinni viðhorfsbreytingu innan lögreglunnar og ég held og vona að við séum í öllum grundvallaratriðum sammála um það.

Lögreglan er ein mikilvægasta stofnun þjóðfélagsins. Henni ber að tryggja öryggi almennings og halda uppi lögum og reglu. Þetta er ekki lítið hlutverk og því fylgir mikil ábyrgð. Hafa ber í huga að hlutverk lögreglunnar er í eðli sínu þjónusta í þágu borgaranna. Lögreglunni ber því að sýna öllum einstaklingum tilhlýðilega virðingu. Þetta krefst mikils aga og sjálfstjórnar lögreglumanna í orðum, athöfnum og allri framgöngu. Almennt má segja að vel hafi til tekist í þessu efni og ég tel að almenningur beri mikið traust til lögreglunnar. Þetta traust hefur orðið til á löngum tíma og mikilvægt að fylgja kröfum og kalli tíðarandans svo lögreglan njóti ávallt nauðsynlegs og víðtæks stuðnings.  

Í því sambandi er mikilvægt – ekki síst til að viðhalda trausti þjóðarinnar – að efla óháð eftirlit með störfum lögreglunnar.

Til framtíðar á lögreglan að vera öflug, vel tækjum búin, fagleg og áreiðanleg. Hún á að vera fær um að takast á við sífellt flóknari og skipulagðari brotastarfsemi og búa yfir nægilegum styrk til að bregðast við nýjum verkefnum.  Borgararnir eiga að geta treyst á færni og þekkingu lögreglumanna við fjölmargar og erfiðar aðstæður í raunheimum sem og í stafrænum heimi fjölþjóðlegrar brotastarfsemi. Skipulag lögreglunnar á að vera með þeim hætti að það styðji við þessi markmið og stuðli að auknu öryggi almennings í hvívetna. Ný löggæsluáætlun á að geta nýst okkur og lögregluráðinu vel til að vinna að þessum markmiðum.

Í öllu því sem að framan greinir felst hin mikla áskorun hins nýja lögregluráðs og það er einlæg von mín að ráðið verði öflugt og farsælt í störfum sínum.