Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna skilgreinir nú rúmlega 20 milljónir einstaklinga sem flóttafólk af völdum stríðsátaka og ofsókna á heimsvísu. Hér er um mikinn vanda að ræða sem verður ekki leystur nema með samstilltu átaki fjölmargra ríkja og á alþjóðlegum vettvangi.
Ísland tekur árlega á móti kvótaflóttamönnum í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Íslensk stjórnvöld hafa tekið á móti 247 slíkum einstaklingum frá árinu 2015. Stefnt er að því að taka á móti 85 á þessu ári og 100 á því næsta. Um er að ræða sýrlenskt flóttafólk sem er í flóttamannabúðum í Líbanon, afganskt flóttafólk í Íran og flóttafólk í sérstaklega viðkvæmri stöðu í Kenía.
Auk kvótaflóttamanna hefur umsækjendum um alþjóðlega vernd hér á landi fjölgað verulega á síðustu árum. Það er fólk sem kemur til landsins á eigin vegum. Árið 2009 bárust 35 slíkar umsóknir en þær voru 1.096 árið 2017 eða rúmlega 30 sinnum fleiri. Á síðasta ári voru umsóknir 867 talsins.
Samkvæmt upplýsingum frá Eurostat var Ísland árin 2017 og 2018 í 25. sæti yfir þau ríki Evrópu sem fékk til sín flesta umsækjendur um alþjóðlega vernd. Ef miðað er við umsækjendur á hverja milljón íbúa var Ísland í 6. sæti á sama lista. Í samanburði við Norðurlöndin voru umsóknir um alþjóðlega vernd hlutfallslega flestar á Íslandi árið 2019.
Til viðbótar við þá 376 umsækjendur um alþjóðlega vernd sem fengu jákvæða niðurstöðu hjá Útlendingastofnun árið 2019 fengu 155 einstaklingar alþjóðlega vernd eða mannúðarleyfi hjá kærunefnd útlendingamála, sem aðstandendur flóttamanna hér á landi eftir umsókn til Útlendingarstofnunar eða sem kvótaflóttamenn. Í heild fékk því 531 einstaklingur vernd hér á landi í fyrra en 288 einstaklingar árið 2018.
Við meðferð þessara viðkvæmu mála verður að sýna fólki virðingu og mannúð. Um leið verður að tryggja jafnræði. Umsóknir fara í faglegan farveg hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála. Kærunefndin metur ákvarðanir stofnunarinnar. Nefndin er sjálfstæð og úrskurðir hennar endanlegir. Henni var komið á fót til að bregðast við gagnrýni m.a. frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og Rauða krossi Íslands.
Íslenskt stjórnkerfi hefur átt fullt í fangi með að taka á móti þessum fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd. Kostnaður dómsmálaráðuneytisins vegna útlendingamála fór úr ríflega 663 m.kr. árið 2014 í u.þ.b. 3,6 milljarða króna árið 2019.
Eðli málaflokksins kallar á reglulega endurskoðun til að meta hvað megi betur fara og hvort verið sé að gera nóg með hliðsjón af innlendum og erlendum skuldbindingum. Þar sem viðfangsefnið er fólk og líf þess er bæði mikilvægt og sanngjarnt að umræða um málaflokkinn sé málefnaleg, almenn og yfirveguð.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 31. janúar 2020.