Áfengi til útlanda og aftur heim

Frá árinu 1995 hefur almenningur átt þess kost að flytja inn eigið áfengi til einkaneyslu. Einkaréttur ÁTVR til innflutnings á áfengi var með öðrum orðum afnuminn fyrir 25 árum. Fjölmargir nýta sér þetta, kaupa áfengi í verslunum erlendis og láta senda heim til sín á Íslandi.

Samhliða auknu valfrelsi neytenda og alþjóðavæðingu hefur ósk almennings um aukið frjálsræði í áfengislöggjöf farið vaxandi. Frumvarp til breytinga á áfengislögum, sem nú er til kynningar í samráðsgátt Stjórnarráðsins, miðar að því að heimila sölu áfengis í gegnum vefverslanir, innlendar sem erlendar.

Íslendingar kaupa hlutfallslega meira af erlendum áfengistegundum en íbúar nágrannalanda okkar gera. Íslenskir áfengisframleiðendur hafa staðið höllum fæti gagnvart erlendri samkeppni, um árabil meðal annars vegna þess að erlendir áfengisframleiðendur hafa greiðan aðgang að íslenskum neytendum í gegnum auglýsingar og netverslun á meðan íslenskir framleiðendur hafa það ekki. Það er því fullt tilefni til að endurskoða löggjöf um áfengisauglýsingar í náinni framtíð.

Núverandi lagaumhverfi felur í sér ójafnræði milli innlendrar og erlendrar verslunar, sem er ósanngjarnt og fer gegn hagsmunum neytenda. Fá, ef einhver dæmi, má finna í íslenskum lögum þar sem almenningi er heimilt að kaupa vörur frá erlendum verslunum til innflutnings, en mega ekki kaupa sömu vöru af íslenskri verslun. Innlendir framleiðendur hafa gripið til þess ráðs að selja afurðir sínar til útlanda, til sölu í erlendum vefverslunum, oftar en ekki til íslenskra neytenda. Við getum farið betur með fjármuni og hugað betur að loftslagsmálum.

Fjöldi sölustaða áfengis hefur margfaldast frá árinu 1995 í samræmi við áherslur og kröfur neytenda. Frumvarpið hróflar ekki við almennum verslunarrekstri ÁTVR og felur ekki í sér tillögur um breytingu á áfengisstefnu, áherslum í lýðheilsumálum eða tekjuöflun ríkisins á þessu sviði. Með því að heimila sölu áfengis í gegnum vefverslanir er ekki verið að auka sýnileika áfengis í íslensku samfélagi. Í þeim tilvikum þar sem neytendur sækja áfengið á starfsstöð leyfishafans, þarf leyfishafinn að gæta þess að áfengi sé ekki til sýnis á starfsstöðinni.

Sömu almennu skilyrði verða sett fyrir vefverslunarleyfi, eins og öðrum leyfum sem fjallað er um í áfengislögum. Einstaklingar og lögaðilar munu almennt geta fengið slíkt leyfi, hafi þeir náð tilskildum aldri og tilkynnt ríkisskattstjóra um atvinnustarfsemi sína.

Verði frumvarpið að lögum er stigið mikilvægt skref í átt að auknu jafnræði, frelsi og samkeppni innlendrar verslunar við þá erlendu.

Pistillinn „Áfengi til útlanda og aftur heim” birtist í Morgunblaðinu 19. febrúar 2020