Þegar við fórum inn í nýtt ár var fáa sem grunaði að þremur mánuðum síðar myndi geisa skæður heimsfaraldur sem ógnar lífi og heilsu jarðarbúa svo og efnahag flestra þjóða heims.
Daglega berast hræðilegar fréttir utan úr heimi af sýkingu og dauðsföllum af völdum veirunnar og voldug ríki vestan hafs og austan undirbúa umfangsmiklar efnahagsaðgerðir til að verja hagkerfi sín gegn þeirri vá sem að steðjar. Öflug heilbrigðiskerfi kikna undan álaginu, ferðalög á milli landa hafa að mestu lagst af og heilu atvinnugreinarnar eru óstarfhæfar. Í raun mætti segja að það sé búið að slökkva á helstu hagkerfum heims.
Við Íslendingar höfum ekki farið varhluta af þessu ástandi. Íslensk stjórnvöld hafa brugðist við með margvíslegum aðgerðum á sviði heilbrigðismála. Þá hafa stjórnvöld einnig kynnt umfangsmiklar aðgerðir til að verja efnahag heimila og fyrirtækja og búa íslenskt atvinnulíf undir þær hremmingar sem eru fram undan – og það sem meira er, það sem síðan tekur við. Markmiðið er að efnahagslífið geti tekið hratt og örugglega við sér þegar faraldurinn er yfirstaðinn.
Heildarumfang efnahagsaðgerða ríkisstjórnarinnar gæti numið yfir 230 milljörðum króna. Aðgerðunum er öðru fremur ætlað að vinna gegn atvinnuleysi og tímabundnum tekjumissi einstaklinga. Fyrirtækjum verður skapað svigrúm til að lækka starfshlutfall hjá launafólki tímabundið og viðhalda þar með ráðningarsambandi á meðan erfiðustu mánuðirnir ganga yfir. Sérstakur barnabótaauki verður greiddur út í júní með hverju barni yngra en 18 ára og þannig hugað sérstaklega að barnafjölskyldum. Þessar aðgerðir og fleiri til munu minnka efnahagslega áfallið sem við horfum fram á.
Ljóst er að tekjur fjölda fyrirtækja munu skerðast vegna ástandsins. Að öllu óbreyttu hefðu mörg þeirra gripið til uppsagna. Með aðgerðum stjórnvalda er þó lagt kapp á að verja störfin. Þá er aðgerðunum ætlað að auðvelda heimilum og fyrirtækjum að takast á við það tímabundna tekjutap sem þau kunna að verða fyrir. Þannig er dregið úr óvissu og hjólum atvinnulífsins haldið gangandi.
Það er dýrmætt fyrir Ísland að vera í þeirri stöðu að geta varið störf og gripið til nauðsynlegra aðgerða til að minnka höggið á hagkerfið. Ástæðan er sú að þetta ástand mun á einhverjum tímapunkti líða hjá og þá er mikilvægt að við séum vel í stakk búin til að láta hjólin snúast á nýjan leik. Hið frjálsa markaðshagkerfi þarf að fá svigrúm til að starfa á ný þegar þessu ástandi lýkur, því þannig munum við ná árangri til lengri tíma.
Þetta eru fyrstu aðgerðir og líkast til ekki þær síðustu. Vegna skynsamrar hagstjórnar síðustu ára er möguleiki að bregðast við ef og þegar nauðsyn krefur. Það eru ekki öll ríki sem búa svo vel, en það gerum við sem betur fer.
Pistillinn „Dýrmæt staða á erfiðum tímum” birtist í Morgunblaðinu 27. mars 2020.