ÁSLAUG ARNA SIGURBJÖRNSDÓTTIR

Alþingi: Áhrif COVID-19

Herra forseti. Við höfum lifað óvenjulega tíma síðustu vikur og mánuði. Heimsfaraldur geisar sem fáir ef nokkrir gátu séð fyrir að hefði eins óskapleg áhrif um allan heim og raun ber vitni. Fulltrúar okkar í almannavörnum og sérfræðingar í sóttvörnum hafa unnið mikið starf við að greina þann vanda sem við höfum staðið frammi fyrir og lagt fram skynsamlegar áætlanir um hvernig ætti að bregðast við á hverjum tíma í ljósi bestu fáanlegu upplýsinga. Í heildina verður að segja að almannavarnakerfið, sem snýst öðru fremur um samstarf allra aðila, hafi virkað vel og skilað miklum árangri. Á sama tíma hefur safnast upp mikilvæg reynsla sem við munum læra af, en mikið hefur reynt á almannavarnakerfið undanfarna mánuði á mismunandi vegu.

Við erum nú í fyrsta sinn á neyðarstigi almannavarna og höfum verið frá 6. mars sl. þegar ríkislögreglustjóri lýsti því yfir í samráði við sóttvarnalækni. Fyrstu smit innan lands voru staðfest þann dag. Neyðarstigið stendur enn yfir og verður áfram meðan einhverjar takmarkanir eru í gildi, en staðan er síðan metin frá degi til dags. Landsáætlun um heimsfaraldur var uppfærð en hún á að tryggja skipulögð og samhæfð viðbrögð allra aðila sem hlut eiga að máli þegar til heimsfaraldurs kemur. Fram að þeim tíma hafði mikill undirbúningur átt sér stað. Það var bara um miðjan janúar sem fyrstu fregnir bárust af nýrri kórónuveiru og á þeim tíma var ekki talin ástæða til neinna sérstakra aðgerða hér á landi. Þótt fljótlega mætti greina vaxandi áhyggjur af útbreiðslu sjúkdómsins var margt enn á huldu. Af ýmsum alþjóðastofnunum mátti greina að talið væri að útbreiðsla innan Evrópu væri ólíkleg og að veiran yrði ekki jafn skæð og SARS-veiran 2002. Í lok janúar lýstum við hér yfir óvissustigi þótt ekkert smit hefði borist til landsins en í því fólst fastmótað samstarf allra viðbragðsaðila til að virkja fyrirliggjandi viðbragðsáætlanir, upplýsingamiðlun til almennings var aukin og viðbragðsaðilar uppfærðu allar áætlanir sínar. Það var mikilvægt því að mánuði síðar var hættustigi lýst yfir þar sem fyrsta smitið hafði verið greint hér á landi og þá unnið eftir fyrrnefndri landsáætlun.

Auk framangreinds verður að geta þess að um miðjan mars lagði framkvæmdastjórn ESB til takmarkanir á ónauðsynlegum ferðum til aðildarríkja Schengen-svæðisins. Ísland hefur tekið þátt í þeim aðgerðum en staðan var orðin slík að allt farþegaflug var orðið mjög takmarkað og mörg lönd þá þegar búin að loka landamærum sínum. Framkvæmdastjórn ESB hefur óskað eftir því að íslensk stjórnvöld taki áfram þátt í samræmdum aðgerðum á ytri landamærum til 15. maí nk. og ákveðið hefur verið að Ísland geri það.

Virðulegur forseti. Ég hef stiklað á stóru frá því að faraldurinn hófst í Kína og hvernig brugðist var við hér á landi. Það er kannski tvennt sem vekur athygli mína, annars vegar hversu seint alþjóðlegar stofnanir virðast hafa áttað sig á alvarleika faraldursins og hvernig best væri að bregðast við honum og hins vegar hversu skjót íslensk sóttvarnayfirvöld voru að grípa til aðgerða og átta sig á hraðri útbreiðslu faraldursins þegar upplýsingar fóru að berast um alvöru málsins. Öll skref sem stigin hafa verið hafa byggst á ráðgjöf sérfræðinga á sviði sóttvarna. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur stýrt aðgerðum og heilbrigðiskerfið hefur staðið sig afar vel í þessum aðstæðum. Þjóðin hefur einhvern veginn verið sameinuð í viðbrögðum gegn hinum hræðilega vágesti og ég hef fulla trú á að svo verði áfram. Allir eiga þakkir skildar sem hafa lagt mikið á sig undanfarnar vikur til að staðan sé eins og hún er í dag.

Virðulegur forseti. Allar takmarkanir hafa áhrif á fólk. Við tökum þeim ekki af léttúð en þurfum að meta þær hverju sinni. Ég vil víkja að örfáum áhersluatriðum sem ég mun beita mér fyrir vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru. Frumhlutverkið er að vernda líf og heilsu fólks en unnið er að framhaldsaðgerðum er varða efnahagslegu áhrifin. Einnig verður að huga að öðrum neikvæðum áhrifum, eins og komið hefur verið inn á í dag, líkt og heimilisofbeldi, aukinni hættu á sjálfsvígstilraunum, fjárhagsáhyggjum, kvíða og depurð. Við því öllu þarf að bregðast. Á fundi lögregluráðs í síðustu viku voru ræddar tillögur til úrbóta ef þörf yrði á vegna aukins heimilisofbeldis. Lögð er áhersla á upplýsingagjöf svo að þolendur treysti sér til að leita sér hjálpar en forðist það ekki vegna veirunnar og smithættu. Einnig þarf að miðla upplýsingum um hvert gerendur geta leitað og hvert börn geta leitað eftir aðstoð. Börn eru sérstaklega viðkvæmur hópur. Lögreglan gegnir mikilvægu hlutverki við að bera kennsl á aðstæður þeirra og veita þeim stuðning og mikilvægt er að gripið sé eins fljótt og mögulegt er inn í aðstæður þar sem hætta er á ofbeldi. Heimilið er ekki öruggur staður fyrir alla. Í gangi er vinna er varðar ferðatakmarkanir eða öllu heldur afléttingu þeirra á næstu mánuðum og hver staðan er. Þar erum við ekki eyland, enda erum við háð bæði framboði og eftirspurn annarra ríkja og ákvörðunum sem teknar verða þar. Við verðum í miklu samstarfi við lönd í kringum okkur.

Fleiri áherslumál mætti nefna en ég læt hér staðar numið. Fram undan er mikið verk. Samstaða þjóðarinnar skiptir öllu máli í þessum krefjandi (Forseti hringir.) viðfangsefnum og að samstaðan verði jafn kröftug og hún hefur verið fram að þessu. Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með fólki sem hefur tekist á við þetta af yfirvegun og skynsemi og við þurfum á því að halda áfram.