Aðeins eru rétt rúmir þrír mánuðir liðnir frá því fyrstu fregnir bárust um nýja hópsýkingu lungnabólgu í Kína, sem síðar hefur verið gefið heitið COVID-19. Í frétt á heimasíðu landlæknis 13. janúar er vísað í upplýsingar frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) og Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) um þennan nýja sjúkdóm. Þar segir að ekkert smit á milli manna hafi verið staðfest og ekki sé talin ástæða til ferðatakmarkana til og frá Kína. Tíu dögum síðar segir að smit á milli einstaklinga hafi verið staðfest en virðist ekki vera algengt. Þá var talið að mikil útbreiðsla innan Evrópu væri talin ólíkleg að mati ECDC og að veiran virtist ekki valda jafn skæðum sjúkdómi og SARS-veiran árið 2002.
Atburðarásin síðan hefur verið nokkuð hröð.
Ríkislögreglustjóri og sóttvarnalæknir hófu formlega vinnu 24. janúar í samræmi við fyrirliggjandi viðbragðsáætlun um alvarlega smitsjúkdóma. Örfáum dögum síðar var lýst yfir óvissustigi og síðan hættustigi þegar fyrsta smitið hafði verið greint hér á landi 28. febrúar. Ríkislögreglustjóri lýsti loks yfir neyðarstigi almannavarna 6. mars í samráði við heilbrigðisyfirvöld. Fyrstu smit innanlands voru staðfest þann dag. Neyðarstigið er enn í gildi og verður á meðan einhverjar takmarkanir eru við lýði. Takmarkanir um samkomubann og tveggja metra nálægðarreglu gilda áfram þó að létt verði á þeim takmörkunum í skrefum frá og með 4. maí. Þá hefur Ísland tekið þátt í ferðatakmörkunum á ytri landamærum Schengen frá 20. mars. Viku áður hafði Bandaríkjastjórn sett á strangar ferðatakmarkanir frá Evrópu. Ferðatakmarkanir þessar verða í gildi til 15. maí.
Tvennt vekur athygli við framangreinda atburðarás. Annars vegar hve seint alþjóðlegar stofnanir virðast hafa áttað sig á alvarleika faraldursins, en þær fengu vitneskju um hann í lok desember. Hins vegar hve íslensk almanna- og sóttvarnayfirvöld voru fljót að grípa til aðgerða þegar upplýsingar fóru að berast í lok janúar um að smit bærist á milli manna.
Aðgerðirnar hafa haft mikil áhrif á líf okkar allra. Þær hafa nú borið þann árangur að COVID-19 er í rénun hér á landi. Alltaf er þó sú hætta fyrir hendi að faraldurinn blossi upp aftur ef ekki er varlega farið. Mikilvægt er að fylgja áfram tilmælum á grundvelli sóttvarna því enn eru smit að greinast hér á landi og verkefninu er ekki lokið. Þá mun ríkisstjórnin kynna nýjar efnahagsaðgerðir í þessari viku til að styðja áfram við bakið á heimilum og fyrirtækjum þar til ástandið færist í eðlilegra horf.
Mikilvægt er að taka næstu skref að yfirlögðu ráði. Tímabært er orðið að huga að öðrum mikilvægum hagsmunum. Ein helsta áskorunin sem við stöndum frammi fyrir lýtur að því hvernig best verður staðið að því að opna landamærin fyrir frjálsri för fólks á nýjan leik. Það verður naumast gert alveg á næstunni, líklega í nokkrum áföngum og í samstarfi við önnur ríki.
Þjóðin hefur sýnt samstöðu á þessum erfiðu tímum. Öllu skiptir að sú samstaða rofni ekki því þolinmæði þrautir vinnur allar.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 21. apríl 2020.