ÁSLAUG ARNA SIGURBJÖRNSDÓTTIR

Frumvarp: Aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og skráning raunverulegra eigenda

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og lögum um skráningu raunverulegra eigenda. Með frumvarpinu er lagt til að komið verði á fót skrá um bankareikninga þar sem stjórnvöld sem sinna rannsókn mála sem tengjast peningaþvætti geta milliliðalaust nálgast upplýsingar um bankareikninga og geymsluhólf einstaklinga og lögaðila. Þá er kveðið á um að settar verði skorður við nafnlausri notkun fyrirframgreiddra korta. Einnig er lagt til að gildissvið laga um peningaþvætti verði útvíkkað þannig að fleiri aðilar falli undir lögin, þar með talið lánveitendur, bifreiðaumboð og bifreiðasalar. Lögð er til sú breyting á skilgreiningu einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla þannig að til þess hóps teljist einstaklingar í stjórnum stjórnmálaflokka í stað framkvæmdastjórna eins og núgildandi lög gera ráð fyrir.

Með frumvarpinu er einnig lögð til sú breyting á lögum um skráningu raunverulegra eigenda að ríkisskattstjóri hafi eftirlit með almannaheillafélögum með starfsemi yfir landamæri og þá er lögð sú skylda á skráningarskylda aðila að þeir þurfi að tryggja réttar upplýsingar um raunverulega eigendur.

Frumvarpinu er m.a. ætlað að ljúka við innleiðingu á fimmtu peningaþvættistilskipun Evrópusambandsins í innlenda löggjöf eins og Íslandi er skylt að gera vegna aðildar sinnar að EES-samningnum. Jafnframt er því ætlað að tryggja að Ísland uppfylli þær skuldbindingar sem það hefur undirgengist með aðild sinni að FATF.

Eitt meginefni frumvarpsins er gerð skrár um bankareikninga og geymsluhólf einstaklinga og lögaðila. Það er mikilvægur þáttur í vörnum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka að rannsakendur og eftirlitsaðilar geti fengið upplýsingar um hvaða aðilar sem eru til skoðunar eigi bankareikninga en tafir á slíku aðgengi geta valdið því að ekki takist að stöðva færslur sem eru ávinningur af refsiverðri háttsemi. Það er skýr vilji íslenskra stjórnvalda að taka baráttuna gegn peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu og fjármögnun gereyðingarvopna föstum tökum sem birtist m.a. í stefnu stjórnvalda sem gefin var út í júlí 2019. Áhersla er lögð á að íslensk löggjöf skuli á hverjum tíma innihalda fullnægjandi varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og uppfylla þær alþjóðlegu kröfur sem gerðar eru til varna gegn slíkum brotum.

Við undirbúning frumvarpsins var haft samráð við fjármála- og efnahagsráðuneytið, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, utanríkisráðuneytið, Seðlabanka Íslands, embætti héraðssaksóknara, skrifstofu fjármálagreininga lögreglu, Skattinn, embætti ríkislögreglustjóra, embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og Samtök fjármálafyrirtækja.

Virðulegur forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efnisatriðum frumvarpsins. Með því er brugðist við hraðri þróun í málaflokknum, gerðar tilteknar breytingar sem leiða af þeirri reynslu sem komin er á beitingu laga um peningaþvætti, sem sett voru hér á Alþingi vorið 2018, auk þess sem lokið er við innleiðingu á fimmtu peningaþvættistilskipun ESB.

Ég legg því til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og 2. umr.