ÁSLAUG ARNA SIGURBJÖRNSDÓTTIR

Frumvarp: Aukið sjálfstæði þjóðkirkjunnar

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar og fleiri lögum og um brottfall laga um kirkjumálasjóð. Tilefni frumvarpsins má rekja til viðbótarsamkomulags sem undirritað var af fulltrúum íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar 6. september sl. um útfærslu og endurskoðun á svokölluðu kirkjujarðasamkomulagi, en ekki er um nýtt samkomulag að ræða. Með samningnum er stefnt að því að einfalda fyrirkomulag á greiðslum ríkisins til þjóðkirkjunnar og auka jafnframt sjálfstæði þjóðkirkjunnar, bæði í fjármálum og starfsmannamálum. Samningurinn gerir m.a. ráð fyrir að þjóðkirkjan muni bera fulla ábyrgð á eigin fjármálum og ákveði sjálf fjölda starfsmanna sinna. Til að tryggja að tiltekin efnisatriði samningsins öðlist lagagildi er dómsmálaráðherra falið samkvæmt samningnum og viljayfirlýsingu sem fylgdi honum að leggja fram frumvarp á Alþingi sem felur í sér ýmsar lagabreytingar sem tengjast málefnum kirkjunnar. Sem liður í því voru samþykkt lög á haustþingi sem sneru fyrst og fremst að launamálum og starfsmannamálum þjóðkirkjunnar, samanber lög nr. 153/2019, en mikilvægt var að þau lög tækju gildi um síðustu áramót miðað við samninginn. Til að framfylgja viðbótarsamningnum að öðru leyti stendur eftir að gera breytingar á þeim lögum sem frumvarp þetta fjallar um en þær snúa flestar að sjóðum kirkjunnar. Þar er um að ræða Kristnisjóð, Jöfnunarsjóð sókna, kirkjumálasjóð og héraðssjóði. Þá segir í viljayfirlýsingunni að stefnt skuli að því kirkjugarðar hætti að greiða fyrir prestsþjónustu tengda útförum. Breytingar þær sem lagðar eru til í frumvarpi þessu eru nauðsynlegar svo viðbótarsamkomulag frá september öðlist gildi að fullu. Þá ber að nefna að í viljayfirlýsingunni er gert ráð fyrir að fulltrúar þjóðkirkjunnar og ríkisins muni vinna að yfirferð gildandi laga um þjóðkirkjuna með það að markmiði að einfalda regluverkið enn frekar og sú vinna stendur yfir.

Þær breytingar sem eru lagðar til í frumvarpi þessu eru að brott falli ákvæði í lögum sem fjalla um Kristnisjóð, Jöfnunarsjóð sókna, kirkjumálasjóð og héraðssjóði. Í stað þeirra framlaga sem runnið hafa til sjóðanna samkvæmt fyrri samningi og lögum sem um sjóðinn gilda mun ríkið greiða þjóðkirkjunni árlegt framlag samkvæmt samkomulaginu. Þær greiðslur sem kirkjan fær samkvæmt samkomulaginu munu hér eftir taka breytingum eftir þeim sömu almennu launa- og verðlagsforsendum sem liggja til grundvallar fjárlögum hvers árs en samkvæmt samkomulaginu er þjóðkirkjunni ætlað að taka við eignum og skuldbindingum sjóðanna ásamt þeim verkefnum sem þeim er falið í lögum, auk þess sem kirkjuþingi er ætlað að setja nánari reglur um verkefni sjóðanna. Er það í samræmi við þá stefnu að auka sjálfstæði þjóðkirkjunnar í fjármálum og starfsmannamálum.

Svo sem stefnt er að í viljayfirlýsingu þeirri sem fylgdi samkomulaginu er síðan lögð til breyting á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu sem felur í sér að brott falli ákvæði um að kirkjugarðsstjórn beri kostnað af prestsþjónustu vegna útfara. Er þar um að ræða þjónustu presta við útfarir, kistulagningu og athafnir við jarðsetningu duftkers eða kistu og áætlað er að kirkjuþing setji þá sjálft gjaldskrá um þjónustu kirkjunnar, þar á meðal um prestsþjónustu.

Virðulegur forseti. Ég hef gert grein fyrir þeim efnisatriðum sem felast í þessu frumvarpi þar sem viðbótarsamningur milli ríkis og þjóðkirkju gerir ráð fyrir auknu sjálfstæði þjóðkirkjunnar í fjármálum og starfsmannamálum og einföldun lagaumhverfis og fyrirkomulags á þeim greiðslum sem þjóðkirkjan fær úr ríkissjóði. Er nauðsynlegt að gera þær lagabreytingar sem lagðar eru fram í frumvarpi þessu til að ná þeim markmiðum sem samkomulagið felur í sér. Fjárlög ársins 2020 taka til að mynda mið af viðbótarsamkomulaginu og er ekki gerð sérstök fjárveiting til kirkjumálasjóðs og Jöfnunarsjóðs sókna heldur eru þær fjárveitingar nú hluti af heildarfjárveitingu samkvæmt samkomulaginu. Frumvarpi þessu er því ætlað að samræma lagasetningunni við fjárlög og síðan endurskoðaða fjármálaáætlun.

Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.