ÁSLAUG ARNA SIGURBJÖRNSDÓTTIR

Frumvarp: Skipt búseta barns

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breytingu á barnalögum en í frumvarpinu er lagt til að foreldrar sem fara sameiginlega með forsjá barns án þess að búa saman geti samið um skipta búsetu barns við tilteknar aðstæður, en sá möguleiki er ekki fyrir hendi í núgildandi lögum. Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir breytingum á ýmsum öðrum lögum til að tryggja þau réttaráhrif sem fylgja skiptri búsetu barns. Breytingar eru til að mynda lagðar til á barnaverndarlögum, lögum um lögheimili og aðsetur, lögum um skráningu einstaklinga og lögum um tekjuskatt.

Ef farið er yfir efnisatriði frumvarpsins er í fyrsta lagi lagt til nýtt ákvæði um heimild til að semja um skipta búsetu barns. Í dag hefur föst búseta barns tiltekin réttaráhrif og er réttarstaða lögheimilisforeldris samkvæmt núgildandi lögum önnur en réttarstaða umgengnisforeldris. Munurinn er fyrst og fremst sá að lögheimilisforeldri hefur ríkari rétt til að taka ákvarðanir um málefni barns og hefur einnig rétt til innheimtu og móttöku meðlags og opinbers stuðnings af ýmsu tagi sem umgengnisforeldri hefur ekki. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að foreldrar barns í skiptri búsetu fari sameiginlega með forsjá barns en réttarstaða þeirra verður önnur en þeirra foreldra sem ekki eru með skipta búsetu en hafa einnig sameiginlega forsjá.

Áhrif skiptrar búsetu eru fyrst og fremst þau að öll ákvarðanataka foreldra barns í skiptri búsetu verður sameiginleg. Þá er barn skráð í þjóðskrá með búsetu hjá báðum foreldrum, þ.e. útfærslan verður að lögheimili er á einum stað og búsetuheimili á öðrum stað. Með breytingunum munu báðir foreldrar með skipta búsetu barns jafnframt geta átt rétt á opinberum stuðningi í formi barnabóta og vaxtabóta. Markmið þeirra breytinga sem eru lagðar til er að stuðla að sátt og jafnari stöðu þeirra foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barns og ákveða sameiginlega að ala það upp saman á tveimur heimilum og vilji er til að hafa skipta búsetu. Ekki er gert ráð fyrir að búseta barns verði að vera nákvæmlega jöfn á báðum heimilum en gert er ráð fyrir því að barn búi álíka jafnt til skiptis hjá foreldrum sínum. Að öðru leyti er það í höndum foreldranna að útfæra það fyrirkomulag sem hentar best þörfum barnsins. Þá er ekki kveðið á um að barn skuli hafa náð tilteknum aldri til að skipt búseta komi til álita.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að uppfylla þurfi ákveðin skilyrði svo að skipt búseta geti komið til álita. Fyrirkomulagið gerir ráð fyrir að foreldrar geti alfarið unnið saman í öllum málum er varða barnið. Samningur um skipta búsetu barns gerir því ríkar kröfur til foreldra um samstarf, virðingu, tillitssemi og sveigjanleika. Þá er gerð krafa um nálægð heimila til að tryggja samfellu í daglegu lífi barns. Miðað er við að hagsmunir barnsins verði ávallt hafðir að leiðarljósi og í hverju tilviki fyrir sig verði lagt einstaklingsbundið mat á það hvort skipt búseta sé barni fyrir bestu. Þegar um skipta búsetu barns er að ræða verður ekki hægt að óska eftir staðfestingu á samningi um meðlag eða krefjast úrskurðar sýslumanns um meðlag eða njóta milligöngu Tryggingastofnunar um greiðslu meðlags. Þá verður ekki hægt að óska eftir staðfestingu samnings eða úrskurði um umgengni eða sérstök útgjöld eða úrskurði sýslumanns um utanlandsferð.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að samningur um skipta búsetu verði háður staðfestingu sýslumanns en sýslumanni ber að leiðbeina foreldrum um skilyrði sem þarf að uppfylla, sem ég hef farið hér yfir, til að skipt búseta komi til greina og hvaða réttaráhrif hún hafi í för með sér. Þá ber sýslumanni samkvæmt frumvarpinu að synja um staðfestingu á skiptri búsetu ef skilyrði eru ekki uppfyllt. Sýslumaður getur einnig fellt niður samning um skipta búsetu að ósk annars foreldris eða beggja. Við brottfall samnings er lögheimili barns óbreytt nema um annað sé samið og þá fellur samningur um skipta búsetu barns úr gildi ef annað foreldrið höfðar mál um forsjá eða lögheimili þess.

Í öðru lagi um efnisatriði frumvarpsins felur það í sér almennar breytingar á ákvæðum um framfærslu barns og meðlag sem munu auka samningsfrelsi foreldra. Í frumvarpinu er lagt til að afnema skyldu til að staðfesta samning foreldra um meðlag við skilnað, sambúðarslit eða við ákvörðun um forsjá og lögheimili barns. Þess í stað er lögð áhersla á að foreldrar sem búa ekki saman beri sameiginlega ábyrgð á framfærslu þess. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að foreldri sem barn býr ekki hjá geti tekið þátt í framfærslu barns, annaðhvort með greiðslu kostnaðar við framfærsluna eða með greiðslu meðlags. Að taka þátt í framfærslu með greiðslu kostnaðar þýðir samkvæmt frumvarpinu að foreldrar semji um að það foreldri sem barn býr ekki hjá taki að sér beint og milliliðalaust að greiða tiltekinn kostnað sem fellur til með reglubundnum hætti. Þar má nefna daggæslu eða tómstundir sem dæmi. Lögheimilisforeldri tekur væntanlega að sér greiðslu annarra daglegra útgjalda og foreldrar geta einnig valið að það foreldri sem barn býr ekki hjá greiði til hins foreldrisins tiltekna fjárhæð sem er þá skilgreind sem meðlag. Í þeim tilvikum ber lögheimilisforeldri að nýta meðlagið til að standa straum af kostnaði vegna barnsins ásamt því að taka þátt í framfærslunni fyrir sitt leyti. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að munur sé á því hvor leiðin er valin þegar kemur að innheimtuúrræðum. Þannig geta foreldrar einungis óskað eftir staðfestingu sýslumanns ef gerður er samningur um greiðslu meðlags og slíkir samningar eru eingöngu aðfararhæfir. Þá er ekki unnt að leita til Tryggingastofnunar um greiðslur nema samið hafi verið um greiðslu meðlags. Ef foreldrar semja aftur á móti um skipta búsetu barns er gengið út frá því að foreldrar séu sammála um hvort þeirra greiði einstaka kostnaðarliði eða hvernig þeir deila kostnaði vegna framfærslunnar, enda gert ráð fyrir því að foreldrar geti verið samstiga í öllum málum við uppeldi barnsins í því úrræði.

Í þriðja lagi felur frumvarpið í sér að barnalög beri skýrlega með sér þær forsendur sem verða að liggja til grundvallar samningum foreldra um tiltekið fyrirkomulag forsjár, búsetu og umgengni. Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir að foreldrar geti samið með ýmsum hætti og er mikilvægt að foreldrar átti sig á því hvenær heimild til að semja um skipta búsetu barns á við. Samhliða því að lögfesta forsendur til að semja um skipta búsetu er líka mikilvægt að víkja forsendum annarra samninga í lögunum. Lögbundnar forsendur veita mikilvægar vísbendingar um hvernig meta skuli hagsmuni barns hverju sinni. Samanburður á forsendum samninga er einnig til þess fallinn að hjálpa foreldrunum að átta sig á réttarstöðunni og velja þá leið sem hentar barni best. Í frumvarpinu er því til viðbótar forsendum skiptrar búsetu gert ráð fyrir að lögfesta almennar forsendur samninga um sameiginlega forsjá og jafna umgengni en forsendur slíkra samninga er nú aðeins að finna í lögskýringargögnum.

Þá felur frumvarpið í sér nýtt ákvæði um samtal að frumkvæði barns og skýrari ákvæði um rétt barns til að tjá sig. Í frumvarpinu er því það nýmæli að barn geti haft frumkvæði að því að sýslumaður boði foreldra til samtals til að ræða fyrirkomulag forsjár, lögheimilis, búsetu eða umgengni. Með breytingunum hefur barn kost á að tjá sig og tjá foreldri afstöðu sína og geta foreldrar eftir atvikum samið um eða gert kröfur um breytingar á fyrirliggjandi ákvörðun. Með þessu nýja ákvæði í barnalögum er stefnt að því að styrkja rétt barnsins til að beita sér í málum sem líkleg eru til að hafa grundvallaráhrif á velferð þess og líðan. Markmiðið með samtali er að leiðbeina barni og foreldrum og leitast við að stuðla að fyrirkomulagi sem sé barni fyrir bestu, að teknu tilliti til sjónarmiða barnsins. Ekki er gerð krafa um tiltekinn lágmarksaldur barns en gengið er út frá því að barnið taki sjálfstæða ákvörðun og hafi frumkvæði að því að nýta þennan rétt. Þá þarf sýslumaður að meta þarfir barns á ólíkum aldurs- og þroskaskeiðum.

Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að breyta orðalagi 33. gr. a og 43. gr. barnalaga til að styrkja rétt barnsins til að tjá sig við sáttameðferð og úrlausn ágreiningsmála.

Lagt er til að frumvarpið taki gildi 1. apríl 2021 en í frumvarpinu kemur fram að gert sé ráð fyrir því að fram að gildistöku verði unnið að breytingum á fleiri lögum og reglugerðum sem heyra undir félagsmálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti til að tryggja að fullu þau réttaráhrif sem felast í skiptri búsetu barns.

Hæstv. forseti. Ég hef gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins. Ég tel að í frumvarpinu séu mörg framfaraskref, bæði fyrir börn og foreldra. Ég legg áherslu á að það er ekki hægt að dæma skipta búsetu heldur verður slíkur vilji að vera uppi hjá báðum foreldrum og er það þá lausn og styrkir jafna stöðu foreldra, kjósi þau svo að ala barnið upp á tveimur heimilum til jafns, í sátt um alla þætti í uppeldi barnsins.

Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. velferðarnefndar og 2. umr.