ÁSLAUG ARNA SIGURBJÖRNSDÓTTIR

Frumvarp: Lögbann á fjölmiðlaumfjöllun

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl., með það að markmiði að styrkja tjáningarfrelsi með því að bæta umgjörð lögbannsmála á hendur fjölmiðlum. Lögbann á fjölmiðlaumfjöllun felur í sér fyrir fram takmörkun á tjáningarfrelsi sem gera verður sérstaklega ríkar kröfur til samkvæmt stjórnarskránni og mannréttindasáttmála Evrópu. Þar reynir á mörk tjáningarfrelsis annars vegar og friðhelgi einkalífs hins vegar, auk þess sem lögbann af þessu tagi getur hamlað eða komið í veg fyrir lýðræðislega umræðu þegar tjáning um málefni sem varðar almenning er fyrir fram takmörkuð, svo sem í aðdraganda kosninga. Slíkt tjón verður tæpast metið til nánar tiltekinnar fjárhæðar og vandséð hver ætti þá kröfu um greiðslu bóta. Augljóst er hvaða þýðingu fjölmiðlar hafa fyrir lýðræðislega umfjöllun og því brýnt að úr lögbannsmálum þeim á hendur sé leyst skjótt og greiðlega.

Í þessu frumvarpi er því að finna tillögur sem ætlað er að styrkja umgjörð lögbannsmála og hraða málsmeðferðinni eftir því sem kostur er, að gættum réttindum gerðarbeiðanda og gerðarþola við slíka gerð. Við mótun þeirra tillagna sem frumvarpið hefur að geyma hefur verið komið til móts við þau sjónarmið án þess að stefna í hættu þeirri málsmeðferð sem nú þegar er við lýði við bráðabirgðagerðir samkvæmt gildandi lögum.

Í því augnamiði að einfalda og skýra málsmeðferð fyrir sýslumanni og hjá dómstólum er lagt til með 1. gr. frumvarpsins að gerðarbeiðanda verði ávallt skylt að leggja fram tryggingu til bráðabirgða fyrir hugsanlegu tjóni þegar lögð er fram beiðni um lögbann við birtingu efnis. Slík skylda kann vissulega að vera íþyngjandi fyrir gerðarbeiðanda en á móti eru ríkir hagsmunir af því að fá að birta efni auk þess sem réttur til þess kann að vera varinn af tjáningarfrelsisákvæði 73. gr. stjórnarskrárinnar. Með þessu móti er jafnframt áréttað hversu mikla þýðingu lögbannsgerð sem beinist að birtingu efnis hefur.

Með 2. gr. frumvarpsins er lagt til að frestir við meðferð lögbannsmála hjá sýslumanni verði takmarkaðir eins og kostur er og einungis veittir í undantekningartilvikum. Þá er lögð áhersla á að sýslumaður hraði ávallt eftir því sem unnt er meðferð lögbannsmála í ljósi þeirra lýðræðislegu hagsmuna sem undir eru. Er því lagt til að frelsi málsaðila til að semja um fresti verði takmarkað að verulegu leyti svo að málinu verði lokið svo fljótt sem verða má og án allra ónauðsynlegra tafa.

Ttil að stuðla að hraðari meðferð mála er varða staðfestingarmál í kjölfar lögbanns fyrir dómi er síðan lagt til með 3. gr. frumvarpsins að um þau fari eftir XIX. kafla laga um meðferð einkamála, um flýtimeðferð einkamála, eftir því sem við á. Er þá ekki síst litið til þeirra ákvæða þess kafla sem heimila dómara að hafa ríkari stjórn á meðferð máls fyrir dómi en almennt gerist og reglur þeirra um skemmri kæru- og áfrýjunarfresti. Skjót meðferð mála af þessum toga er brýn enda nauðsynlegt að sem fyrst fáist niðurstaða um hvort lögbann hafi réttilega verið lagt á í ljósi þeirra réttinda sem eru varin af 73. gr. stjórnarskrárinnar.

Með 4. gr. frumvarpsins eru síðan að lokum lagðar til strangari bótareglur í málum af þessu tagi og dómara heimilað að dæma bætur að álitum vegna tjóns sem varð við það að birting efnis var hindruð vegna lögbanns eða beiðni um það. Ljóst er að torvelt kann að vera að áætla tap, t.d. vegna tapaðra auglýsinga eða minni söluhagnaðar. Því er lögð til heimild fyrir dómara í 4. gr. frumvarpsins að meta slíkt tjón að álitum, hafi ekki tekist sönnun um fjárhæð þess.

Þetta eru efnisatriði frumvarpsins í þessum fjórum greinum og ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.