Það er mikilvægt að jafna stöðu þeirra foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barns og ákveða að ala það upp saman á tveimur heimilum. Með nýju frumvarpi sem ég hef lagt fram er lögð til sú breyting að foreldrar geti samið um að skipta búsetu barnsins þannig að það verði skráð með tvö heimili.
Talsverðar breytingar hafa orðið á stöðu barnafjölskyldna og verkaskiptingu foreldra á liðnum árum. Ríkari áhersla er lögð á sameiginlega ábyrgð foreldra og í auknum mæli taka báðir foreldrar virkan þátt í uppeldi barna sinna. Það er þróun til hins betra.
Kerfið þarf að vera til fyrir öll mynstur fjölskyldna og má ekki þvælast fyrir þegar sú ákvörðun hefur verið tekin í sátt beggja aðila að deila ábyrgð og uppeldi. Foreldrar sem kjósa að ala upp börn sín í góðri sátt á tveimur heimilum þurfa að búa við sambærileg skilyrði af hálfu hins opinbera en ekki sé ýtt undir ágreining með ójafnri stöðu heimilanna. Skipt búseta stuðlar að jafnari stöðu foreldra og gerir ráð fyrir að foreldrar geti unnið saman í öllum málum er varða barnið. Samningur um skipta búsetu barns gerir því ríkar kröfur til foreldra um samstarf, virðingu, tillitssemi og sveigjanleika.
Allt þarf þetta að þjóna hagsmunum barns. Í hverju tilviki fyrir sig verður því að leggja einstaklingsbundið mat á það hvort skipt búseta sé barni fyrir bestu. Þarfir og hagsmunir barnsins eiga ætíð að vega þyngra en sjónarmið um jafnrétti foreldra. Foreldrar þurfa að aðlaga sig að aðstæðum barnsins frekar en barnið að aðstæðum þeirra.
Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að foreldrar sem semja um skipta búsetu komi sér einnig saman um sameiginlega ábyrgð á framfærslu barns. Ekki er gert ráð fyrir að þessi hópur foreldra geti óskað eftir úrskurði eða dómi um meðlag eða milligöngu hins opinbera um greiðslu meðlags. Þá er gert ráð fyrir því að báðir foreldrar eigi rétt á barnabótum og vaxtabótum. Ennfremur eru lagðar til breytingar sem stuðla að auknu samningsfrelsi foreldra vegna framfærslu og meðlags.
Í frumvarpinu er sjónum beint að sjálfstæðum rétti barns, hagsmunum þess og þörfum. Lagt er til það nýmæli að barn geti haft frumkvæði að því að sýslumaður boði foreldra til samtals til að ræða fyrirkomulag forsjár, lögheimilis, búsetu og umgengni. Markmið með slíku samtali er að leiðbeina barni og foreldrum og leitast við að stuðla að fyrirkomulagi sem er barninu fyrir bestu.
Kerfið á að vera til fyrir fólk í margbreytilegum aðstæðum og tryggja rétt þess óháð því mynstri sem það kýs að hafa á sambúð sinni og uppeldi barna sinna. Þetta frumvarp er stórt skref í þá átt.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. maí 2020