ÁSLAUG ARNA SIGURBJÖRNSDÓTTIR

Fjártækniklasinn: Hvað erum við að gera gegn peningaþvætti?

Ágætu fundargestir,

Gaman að fá að vera með ykkur hérna á minni fyrstu ráðstefnu í raunveruleikanum í marga mánuði. Venjulega er þetta daglegt brauð í lífi stjórnmálamanna, og sérstaklega ráðherra, en ég hef ekki gert þetta lengi nema á Zoom. Einstaklega gaman og skemmtilegt fundarefni og áhugaverð erindi. Tímarnir hafa svo sannarlega verið óvenjulegir undanfarið, höggin stór og skammt á milli þeirra, þótt við séum nú vonandi að komast fyrir vind. Það er sem betur fer þannig að öll él styttir upp um síðir og þrátt fyrir að við eigum mörg verðug verkefni fyrir höndum, þá er sumarið nú samt komið með allri sinni birtu og bjartsýni sem fylgir íslensku sumarnóttinni.

Ég vildi að ég gæti haldið áfram á þessum skáldlegu nótum en í dag er það peningaþvætti sem er mál málanna og það er ekki mikið rými fyrir skáldskap þar. Við höfum líka átt á brattann að sækja í þeim efnum undanfarið. Ég þarf varla að upplýsa ykkur um það að Ísland var sett á svonefndan gráa lista FATF í október síðastliðnum og það var skellur, eins og Benedikt orðaði það. Aðdragandinn var sá að í fjórðu úttekt samtakanna á Íslandi, sem fór fram árið 2017, var talið að til staðar væru verulegir annmarkar að þessu leyti. Eftir úttektina fékk Ísland tiltekinn frest til að bæta úr þessum ágöllum en þrátt fyrir að hér hafi allir lagst á árar í þeirri úrbótavinnu og stórfelldur árangur vissulega náðst, þá dugði það ekki til og nafn Íslands á gráa listanum orðin staðreynd.

Ég tek fram og þetta hefur komið fram margoft áður, að við vorum auðvitað ekki sammála þeirri niðurstöðu FATF að setja Ísland á gráa listann. Það er ekkert launungarmál. Áður en kom að fundum FATF í október síðastliðnum vorum við þeirrar skoðunar að Ísland hefði þegar náð fullnægjandi árangri varðandi öll þau atriði sem þá voru enn talin útistandandi. Sérfræðingahópurinn sem sá um að meta árangur Íslands fyrir hönd FATF var hins vegar ekki á sama máli og það var það sem réði niðurstöðunni.

Þetta er auðvitað óheppilegt. Ég ætla ekki að standa hér og reyna að telja ykkur trú um annað. En við verðum líka að líta okkur nær og vera tilbúin til að læra. Staðreyndin er sú að við hefðum þurft að sinna þessum málaflokki betur og sérstaklega á árunum áður en fjórða úttekt FATF fór fram. En það sem er gert er gert og við breytum því ekki. Það er hvað við gerum núna sem skiptir máli. Og það er einmitt við þessar aðstæður sem eðli okkar Íslendinga kemur í ljós. Þegar ískaldur norðangarrinn skellur framan í okkur setjum við undir okkur hausinn og berjumst á móti hríðinni.

Og það er einmitt það sem við höfum gert, sett undir okkur hausinn og ráðist af festu í þau verkefni sem liggja fyrir og FATF taldi ennþá útafstandandi. Þegar Ísland var sett á gráa listann var samþykkt sérstök aðgerðaáætlun þar sem tilgreindar voru tilteknar aðgerðir sem okkur var gert að ljúka til þess að geta komist af listanum. Í fyrsta lagi var um að ræða aðgerð sem kallar á að tryggt sé að bæði grunnupplýsingar og upplýsingar um raunverulega eigendur lögaðila séu aðgengilegar fyrir þar til bær stjórnvöld innan hæfilegs tíma og þá sérstaklega með því að safna upplýsingum um raunverulega eigendur í þar til gerða skrá sem ber sama heiti. Samhliða þessu var gerð krafa um að sýnt yrði fram á að hæfilegum viðurlögum sé beitt í þeim tilvikum þar sem brotið er gegn þessum skyldum.

Í öðru lagi var um að ræða aðgerð sem laut að störfum skrifstofu fjármálagreininga lögreglu og var í raun tvískipt. Annars vegar var gerð krafa um að lokið yrði við innleiðingu á svokölluðu goAML kerfi hjá skrifstofunni, ekki var nægjanlegt að hafa fest kaup á því, og hins vegar að mannskap þar yrði fjölgað til að koma til móts við þá fjölgun sem hefur orðið á tilkynningum um grunsamlegar færslur frá tilkynningarskyldum aðilum og til að tryggja að skrifstofan haldi og styrki greiningarhæfni sína.

Í þriðja lagi þurfti að tryggja að hér væri til staðar skilvirkt eftirlit með því að bæði fjármálafyrirtæki og aðrir tilkynningarskyldir aðilar samkvæmt peningaþvættislögunum, sinni þeim skyldum sem á þeim hvíla í tengslum við alþjóðlegar þvingunaraðgerðir og þá sérstaklega hvað varðar þær skyldur sem leiða má af lögum um frystingu fjármuna o.fl. nr. 64/2019 sem tóku gildi á síðasta ári.

Í fjórða lagi var Íslandi svo gert að klára að setja löggjöf sem tryggir skilvirka yfirsýn og eftirlit með svokölluðum almannaheillafélögum. Var þá gert ráð fyrir að slík löggjöf næði til þeirra almannaheillafélaga sem eru metin í hættu á því að vera misnotuð í þágu fjármögnunar hryðjuverka hér á landi. Sú löggjöf, það er að segja lög um skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri hefur þegar verið sett og tók raunar gildi á seinasta ári. Þá var jafnframt gerð krafa um að útbúnir yrðu verkferlar og tryggt að til staðar væru fullnægjandi úrræði til að meta hættuna af fjármögnun hryðjuverka í þessum geira, eftir atvikum með því að nota þau úrræði sem umrædd löggjöf kveður á um.

Í þessar aðgerðir var umsvifalaust ráðist af fullum krafti af hálfu hlutaðeigandi stjórnvalda og allt kapp lagt á að ljúka þeim á sem skemmstum tíma. Sú afdráttarlausa vinna varð til þess að strax í febrúar var talið að Ísland hefði lokið þeim aðgerðum sem lutu að lagasetningu og eftirliti með áhættusömum almannaheillafélögum, eftirliti varðandi alþjóðlegar þvingunarráðstafanir og mönnun skrifstofu fjármálagreininga lögreglu. Eftir standa þá þessar tvær aðgerðir, þ.e. innleiðing goAML skráningarkerfisins og skráning raunverulegra eigenda og viðurlög.

Hvað goAML skráningarkerfið varðar þá var frá upphafi ljóst að innleiðing þess myndi taka ákveðinn tíma og að því ferli yrði ekki flýtt. Hvorki með fjármagni eða mannskap, það tæki einfaldlega ákveðinn tíma. Þær áætlanir sem við lögðum fram í þeim efnum stóðust fullkomlega og þann 4. maí var kveikt á kerfinu og byrjað að taka á móti fyrstu tilkynningunum frá þeim tilkynningarskyldu aðilum sem hafa verið skráðir inn í kerfið.  Mér skilst að við taki ákveðið aðlögunarferli þar sem skráðum aðilum sem tilkynna í gegnum kerfið verður fjölgað jöfnum höndum og að um mitt sumar sé gert ráð fyrir að skrifstofa fjármálagreininga lögreglu muni einungis taka á móti tilkynningum í gegnum þetta nýja skráningarkerfi. Það er kannski óþarfi að taka fram að þetta mun auðvitað hafa í för með sér verulegt hagræði fyrir alla starfsemi skrifstofunnar og auka til muna alla skilvirkni í störfum hennar, því kerfið er ekki bara skráningakerfi heldur er líka hægt að nota það í þeirri greiningarvinnu sem fram fer hjá skrifstofu fjármálagreininga lögreglu.  

Hvað varðar skráningu raunverulegra eigenda þá voru samþykkt ný lög um skráningu þeirra í júlí á seinasta ári. Fyrirtækjaskrá setti í kjölfarið á fót skrá yfir raunverulega eigendur og í byrjun árs var hafið átak, sem ég held að hafi ekki farið framhjá neinum, í því að kynna þá skyldu fyrir lögaðilum hér á landi að skrá raunverulega eigendur fyrir 1. mars síðastliðinn. Þrátt fyrir að tíminn hafi verið knappur og umfang verkefnisins verulegt, svo ekki sé meira sagt og þrátt fyrir að hér hafi geisað heimsfaraldur kórónuveirusýkingar, sem setti allt samfélagið og heiminn allan raunar algjörlega úr skorðum, þá hafa skráningar gengið mjög vel og í raun farið fram úr okkar björtustu vonum. Staðan er nú sú að mikill meirihluti lögaðila hefur þegar skráð raunverulega eigendur og mér skilst að fyrirtækjaskrá horfi til þess að skráningum geti verið að fullu lokið innan fáeinna mánaða. Þá mun fjöldi lögaðila hafa verið afskráður úr fyrirtækjaskrá í kjölfar átaksins auk þess sem fyrirtækjaskrá er farin að beita dagsektum gagnvart þeim lögaðilum sem enn hafa ekki sinnt skyldum sínum í þessum efnum. Þannig að ef einhver hér hefur ekki klárað að skrá raunverulega eigendur, þá eru nú seinustu forvöð til að hysja upp um sig buxurnar og klára málið. Það þurfti ég sjálf að gera þegar ég áttaði mig á því að ég var ennþá skráð formaður framhaldsskólanefndar í hestaíþróttum þegar þessi skráning stóð sem hæst. 

Það er kannski rétt að taka fram að þótt við höfum auðvitað lagt áherslu á að klára þau atriði sem enn eru útistandandi á aðgerðaáætlun okkar hjá FATF, þá er það langt í frá það eina sem við erum að vinna að þegar kemur að þessum málaflokki. Samhliða þessari vinnu höfum við t.d. verið að sækja um hækkun á tilmælum hjá FATF. Það er sem sagt metið sérstaklega af hálfu FATF í aðskildu ferli hversu vel aðildarríki hafa aðlagað löggjöf sína að tilmælum samtakanna. Ísland fékk hækkun á 14 tilmælum af 40 síðasta sumar og nú liggur inni frá okkur beiðni um hækkun á 11 tilmælum til viðbótar sem tekin verður fyrir í október.

Við höfum einnig hafið vinnu við að endurskoða ákvæði íslenskrar löggjafar um svokallaðar sýndareignir og þá liggur nú fyrir hjá Alþingi frumvarp til breytinga á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Með því frumvarpi er annars vegar verið að skerpa á nokkrum atriðum sem upp hafa komið við beitingu laganna og hins vegar að innleiða það sem eftir stendur af fimmtu peningaþvættistilskipun Evrópusambandsins, en þar er fyrst og fremst um að ræða skyldu til að koma á fót skrá yfir bankareikninga sem hlutaðeigandi yfirvöld hafa aðgang að í tengslum við störf sem tengjast aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Ég hef þegar lagt fram frumvarp um þetta efni sem er nú til meðferðar í þinginu og bind vonir við að það klárist í sumar.

En ef ég vík aftur að gráa listanum þá vildi ég að ég gæti staðið hérna og sagt ykkur að þetta væri allt saman klappað og klárt. Við værum búin að ljúka öllum þessum aðgerðum og ekkert annað fyrir FATF að gera en að strika okkur út af gráa listanum. En ég er ekki í þeirri aðstöðu að geta sagt það við ykkur hér dag. Það eru aðrir sem hafa það hlutverk að leggja mat á árangur okkar, og trú honum eins og Benedikt kom inn á, og úrskurða um hvort hann teljist fullnægjandi eða ekki. Og þegar slík aðstaða er fyrir hendi er heillavænlegast að reiða sig á þá gamalgrónu aðferðafræði að fæst orð bera minnsta ábyrgð.

Það sem ég get hins vegar sagt ykkur er það að við sjálf getum ekki annað en verið hæstánægð með þann árangur sem hefur náðst og við höfum kynnt hann með stolti fyrir þeim sérfræðingum sem meta okkar árangur af hálfu FATF. Nú liggur fyrir að þessir sérfræðingar munu skila skýrslu sinni til FATF í lok þessa mánaðar og hún verður svo tekin fyrir á næstu reglulegu fundum FATF sem munu fara fram með rafrænum hætti um miðjan júní.

Verði það niðurstaðan þar, sem maður auðvitað vonar, að Ísland teljist hafa lokið þeim aðgerðum sem út af standa með fullnægjandi hætti, má gera ráð fyrir að mælt verði með því að FATF sendi fulltrúa sína hingað til lands til að staðfesta þann árangur. Ferlið er sem sagt þannig að slík vettvangsathugun þarf alltaf að fara fram og ákvörðun um hana verður aðeins tekin á reglulegum fundum FATF sem fara fram í febrúar, júní og október á hverju ári, á næsta fundi eftir athugunina eigum við kost á að komast af gráa listanum. Vegna COVID-19 ætlaði FATF að hætta við fundinn í júní og fresta öllu ferlinu fram í október. Það hefði haft þau áhrif að í október hefði verið tekið ákvörðun um að koma í vettvangsathugunin og í febrúar lögð fram tillaga um hvort við hefðum uppfyllt skilyrðin. Ég taldi það algjörlega ótækt og mótmælti þeirri ráðstöfun, sérstaklega á tækniöld, að það væri ekki líðandi að Ísland sem hefði uppfyllt öll sín skilyrði í maí 2020 myndi losna af listanum í febrúar 2021. Sérstaklega ekki frá samtökum sem biðja okkur um skilvirkni. Við því var brugðist og þess vegna er fundur í júní, bara til þess að taka fyrir mál Íslands og örfá önnur. Hann verður rafrænn. Því eigum við möguleika á að komast af listanum í október ef niðurstaða þessarar vettvangsathugunar verður jákvæð sem við auðvitað bindum vonir við. 

Hefði ég verið á ferðinni hérna hjá ykkur mánuði seinna hefði ég væntanlega getað upplýst ykkur um þetta nánar, en svona hittist þetta bara á. En fyrir áhugasama, sem ég geri svona frekar ráð fyrir að allir hérna inni eru, þá er þetta nú svo sem ekki langur tími. Ég held að við getum verið stolt af þeim árangri sem við höfum náð til að bregðast við þessum athugasemdum. Við ætlum ekki að vera á gráa listanum til frambúðar og við ætlum síðan að vera í foryrstu, eins og Benedikt kom inn á. Ég vona að við förum að sjá til sólar í þessu eins og öðru. 

Takk fyrir mig.