Ríkisstjórnin hefur lagt sig alla fram við að hjálpa heimilum og fyrirtækjum að komast í gegnum öldurótið sem skapast hefur af völdum heimsfaraldurs COVID-19. Áhersla hefur verið lögð á að verja störf og afkomu almennings.
Einn liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar lýtur að því að koma líflínu til fyrirtækja sem orðið hafa fyrir tekjuhruni. Heil atvinnugrein – ferðaþjónustan – hefur nánast lagst á hliðina. Tekjusamdráttur fjölmargra fyrirtækja er vel yfir 75% á milli ára. Það er því nauðsynlegt að skapa fyrirtækjum í þessum aðstæðum skjól til uppbyggingar; rétt eins og skipi sem tekið er í slipp til viðgerða og viðhalds.
Ég hef mælt fyrir frumvarpi á Alþingi sem felur í sér tímabundið úrræði – greiðsluskjól – handa fyrirtækjum í sérstakri neyð vegna faraldursins. Að uppfylltum ákveðnum skilyrðum geta þau fengið greiðsluskjól í áföngum í allt að ár. Heimildin er veitt strax og hún berst héraðsdómi. Fyrirtæki í greiðsluskjóli fá tækifæri til að semja við kröfuhafa með fulltingi sérstaks aðstoðarmanns. Þar er um að ræða lögmann eða löggiltan endurskoðanda sem fyrirtækið tilnefnir sjálft sér til aðstoðar en héraðsdómur staðfestir.
Frumvarpið veitir fyrirtækjum vernd gegn öllum innheimtu- og þvingunarúrræðum og skiptir þá ekki máli hvort kröfuhafi er einkaaðili, ríki eða sveitarfélag. Greiðsluskjóli getur lokið án frekari aðgerða með því að starfsemi fyrirtækis kemst í rétt horf. Fyrirtæki getur einnig náð frjálsum samningum við kröfuhafa. Þá verður unnt samkvæmt frumvarpinu að koma á nauðasamningi með tiltölulega einfaldri aðgerð. Þá er einungis nauðsynlegt að umsjónarmaður samþykki nauðasamninginn og að héraðsdómur staðfesti hann – ekki þarf að fara í atkvæðagreiðslu meðal kröfuhafa.
Með þessu frumvarpi verður komist hjá mögulegum gjaldþrotum fyrirtækja sem hefðu, í eðlilegu árferði, séð fram á rekstur til framtíðar. Það er samfélaginu nauðsynlegt að halda lífi í þannig fyrirtækjum, þannig tryggjum við áfram störf og hagvöxt. Rétt er að undirstrika að hér er um tímabundið ákvæði að ræða tengt hinu sérstaka neyðarástandi og tengist þeim óvæntu aðstæðum sem við búum nú við. Vonandi nýtist úrræðið sem flestum fyrirtækjum í vanda þannig að þau verði tilbúin þegar á reynir og full starfsemi geti hafist að nýju.
Það er hlutverk þeirra stjórnmálamanna sem fara með völd í landinu að sýna ábyrgð og festu í því ástandi sem nú ríkir og boða lausnamiðaðar aðgerðir. Það er gert með þessu frumvarpi sem gagnast fyrirtækjum til lengri tíma.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. júní 2020.