Bjarni Benediktsson, þá forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, stóð á hátindi ferils síns þegar hann lést í eldsvoða á Þingvöllum fyrir 50 árum, þann 10. júlí 1970.
Þegar litið er yfir langan og farsælan feril Bjarna leynir sér ekki að hann bjó yfir öllum þeim þremur eiginleikum sem Max Weber telur í bók sinni Mennt og máttur að séu aðalsmerki stjórnmálamannsins. Eldmóðurinn kom kannski gleggst fram í öryggis- og varnarmálum. Sem utanríkisráðherra var Bjarni í forystu á miklum átakatímum og lagði grunn að þeirri stefnu sem fylgt hefur verið síðan, með áherslu á samstarf vestrænna lýðræðisríkja í Atlantshafsbandalaginu og með varnarsamningi við Bandaríkin. Þá var Bjarni í fararbroddi í öðru ekki síðra hagsmunamáli þjóðarinnar sem var útfærsla og yfirráð landhelginnar.
En eldmóðurinn dregur skammt, segir Weber, og gerir engan að stjórnmálamanni sem ekki tekst að beita honum fyrir vagn góðs málstaðar og gerir síðan ábyrgðina gagnvart honum að mælikvarða gerða sinna. Lýðræði, frelsi einstaklingsins og réttarríkið voru kjarninn í málflutningi og hugmyndafræði Bjarna. Þar kom sér vel mikil menntun og fræðastörf í lögfræði og yfirburða þekking á menningu og sögu þjóðarinnar. Hann var einn öflugasti verjandinn þegar vegið var að réttarríkinu og lýðræðislegum stjórnarháttum í kjölfar heimsstyrjaldarinnar þegar hugmyndaleg barátta frelsis og lýðræðis gegn alræði kommúnismans stóð sem hæst.
Eldmóður og ábyrgðarkennd eru mikilvægir eiginleikar en einnig verður stjórnmálamaður að hafa til að bera glöggskyggni eða yfirsýn yfir menn og málefni. „Vandinn er alltaf, hvernig sami hugur geti hýst brennandi eldmóðinn og kalda glöggskyggnina, Stjórnmál eru viðfangsefni höfuðsins, en ekki annarra hluta líkamans,“ segir Max Weber.
Til vitnis um glöggskyggni Bjarna má vitna til orða hans sjálfs í ræðu sem hann flutti hjá Vöku, félagi lýðræðissinnaðra stúdenta, skömmu eftir að hann tók við starfi borgarstjóra árið 1940, þá 32 ára gamall: „Til þess að taka að sér forsjá í málum annarra, að stjórna þeim, þarf ætíð mikla þekkingu. Stjórnmálamaðurinn verður meðal annars að þekkja land sitt, gæði þess og torfærur, þjóð sína, kosti hennar og galla, viðskipti hennar við aðrar þjóðir og geta gert sér grein fyrir, hver áhrif atburðir með þeim muni hafa á hag hennar. Svo verður hann að þekkja sjálfan sig, mannlegt eðli, veilur þess og styrkleika [...] Til viðbótar verður að hafa kjark til að standa með því, sem maður telur rétt og þora að framkvæma það, hvað sem tautar.“
Bjarni Benediktsson var ekki aðeins áhrifamikill stjórnmálamaður heldur fylgdi mikil gæfa stefnu hans og ákvörðunum á mikilvægum tímum í sögu þjóðarinnar. Fyrir þá framgöngu og staðfestu sína verður Bjarna minnst um langa framtíð.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. júlí 2020.