Þó svo að við vitum ekki nákvæmlega hvernig faraldurinn muni þróast og hversu lengi þá er ýmislegt annað sem við vitum. Við vitum að þetta gengur yfir í bylgjum og það mun þurfa að herða eða slaka á samkomutakmörkunum eftir atvikum. Við vitum að mestu hvernig veiran smitast og samhliða vitum við hvernig við getum reynt að takmarka innanlandssmit. Við vitum líka að við þurfum að fara eftir þeim leiðbeiningum og tilmælum sem hafa komið fram.
Við vitum líka að hagkerfið stendur ekki af sér óbreytt ástand. Einangrað hagkerfi í lokuðu landi er ekki vænlegt til þess að viðhalda þeim góðu lífsgæðum sem hér eru. Ríkissjóður er ekki sjálfbær eins og sakir standa og innlend velta ein og sér ber ekki uppi það atvinnustig og þann hagvöxt sem þörf er á. Við vitum að innanlandsferðalög Íslendinga í sumar hafa að einhverju leyti bætt það tjón sem veiran hefur valdið ferðaþjónustunni en við vitum um leið að sá ávinningur er aðeins til skemmri tíma. Við vitum líka að koma erlendra ferðamanna í sumar hefur stutt við varnarbaráttu ferðaþjónustunnar og við vitum sömuleiðis að aðeins lítið brot af þeim ferðamönnum sem hingað hafa komið í sumar eru með virk smit. Við vissum að önnur bylgja veirunnar myndi koma og svokölluð opnun landsins (lands sem var aldrei lokað) er ekki ástæða þess.
Sem fyrr segir vitum við ekki hvernig veiran mun þróast né hvort og þá hvenær við finnum lækningu við henni. Það sem við vitum þó er að við þurfum áfram að þétta raðirnar í baráttunni. Stjórnmálamenn, sérfræðingar og almenningur þurfa að finna leið til að láta lífið halda áfram, halda hagkerfinu gangandi, sjá til þess að börn komist í skóla og þannig mætti áfram telja. Allt skiptir þetta máli.
Við þurfum að standa saman. Slagurinn er ekki búinn og við þurfum að standa nokkrar lotur í viðbót.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. ágúst 2020