Kvennaathvarf á Norðurlandi verður opnað í fyrsta sinn í dag. Hingað til hefur ekki verið neitt búsetuúrræði utan Reykjavíkur fyrir konur og börn sem ekki geta dvalið á heimili sínu vegna ofbeldis. Mikilvægt er að tryggja íbúum á landsbyggðinni aðgengi að þjónustu vegna heimilisofbeldis. Hér er um tilraunaverkefni að ræða og þörfin á slíku úrræði verður metin eftir því hvernig til tekst og nokkur reynsla hefur fengist af starfseminni.
Ein hliðarverkana kórónuveirufaraldursins er sú að konur hafa því miður orðið berskjaldaðri fyrir ofbeldi á heimilum sínum í kjölfarið. Fjöldi slíkra ofbeldismála jókst þegar faraldurinn stóð sem hæst og takmarkanir á samkomuhaldi og öðrum samskiptum fólks voru í hámarki. Tilkynningar um heimilisofbeldi á fyrri hluta þessa árs hafa ekki verið fleiri síðan árið 2015.
Enginn getur búið við slíkar aðstæður. Heimilið á að vera friðar- og griðastaður en ekki vettvangur ofbeldis og annarra óhæfuverka. Kvennaathvarfið hefur reynst þessi staður fyrir fjölmargar konur og börn þar sem öryggi og hlýja mæta þeim sem þangað leita. Um leið er það hryggilegur vitnisburður um þá staðreynd að of margar konur og börn búa við óásættanlegar aðstæður á heimilum sínum. Kynbundið ofbeldi er mesta ógn gegn frelsi og sjálfsákvörðunarrétti kvenna sem fyrirfinnst í íslensku samfélagi. Þessu verður að breyta með uppfræðslu og virkum aðgerðum.
Gripið hefur verið til markvissra aðgerða og vitundarvakningar gegn ofbeldi. Opnun Kvennaathvarfsins á Norðurlandi er ein af sjö tillögum aðgerðateymis sem við félagsmálaráðherra skipuðum í byrjun maí í þeim tilgangi að stýra og samræma vinnu við útfærslu aðgerða gegn ofbeldi á tímum efnahagsþrenginga og áfalla. Önnur tillaga aðgerðateymisins snýr að því að efla og þróa samvinnu sýslumanna, lögreglu, félagsþjónustu og barnaverndar í málum er lúta að velferð og högum barna sem búið hafa við ofbeldi á heimili sínu. Sýslumanninum í Vestmannaeyjum hefur verið falið að stýra þessu tilraunaverkefni og ég bind miklar vonir við að það skili góðum árangri.
Margt hefur áunnist í þessari baráttu síðustu ár. Frekari umbóta er þó þörf og hrinda þarf í framkvæmd mörgum af þeim tillögum sem þegar liggja fyrir. Ég mun beita mér í þessum málum og í haust mun ég þannig leggja fram frumvörp sem kveða á um refsingu við umsáturseinelti, um bætta réttarstöðu brotaþola í kynferðisbrotamálum og um refsingu við brotum á kynferðislegri friðhelgi.
Skilaboðin eru afar skýr: Við verðum sem þjóð að taka höndum saman og uppræta hvers kyns ofbeldi í samfélagi okkar og þá ekki síst ofbeldi á heimilum.
Greinin „Vernd gegn ofbeldi” birtist í Morgunblaðinu 28. ágúst 2020.