Að hafa það heldur er sannara reynist

Á komandi þingvetri mun ég leggja fram á nýjan leik frumvarp um ærumeiðingar. Með frumvarpinu er leitast við að færa lagaumhverfi meiðyrðamála til nútímahorfs. Refsingar vegna ærumeiðinga yrðu að meginstefnu til aflagðar í þágu tjáningarfrelsis. Almenn ákvæði laga um ærumeiðingar yrðu færð úr almennum hegningarlögum yfir í sérstök lög á sviði einkaréttar. Sú breyting hefur verið gerð á frumvarpinu frá fyrri útgáfu þess síðastliðið vor að nafnlausar ærumeiðingar yrðu sérstakt hegningarlagabrot. Rógsherferðir, neteinelti og annað af því tagi myndi því áfram sæta rannsókn af hálfu lögreglu eftir kröfu þess sem misgert er við.

Á undanförnum árum hafa flest mál sem snúa að ærumeiðingum beinst að blaðamönnum. Því hefur verið haldið fram að óprúttnir aðilar hafi notað slíkar málsóknir sem verkfæri til þöggunar. Sama gildir um hótanir gagnvart blaðamönnum um málsóknir ef ákveðnum fréttaflutningi verði haldið áfram. Flestir þeirra sem gerst þekkja telja að úrelt lagaumhverfi sé á skjön við ákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu um tjáningarfrelsi. Núverandi lagaumhverfi virki beinlínis gegn frelsi til tjáningar. Með frumvarpinu er stefnt að því að lögin á þessu sviði endurspegli þau viðmið sem viðurkennd eru af íslenskum dómstólum og grundvallast á dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu í þessum málaflokki.

Gert er ráð fyrir þrenns konar úrræðum í frumvarpinu; miskabótum, bótum fyrir fjártjón og ómerkingu ummæla. Síðastnefnda úrræðið var ekki í fyrra frumvarpi. Dómstólar gætu þá látið þann sem með saknæmum og ólögmætum hætti meiðir æru einstaklings með tjáningu greiða miskabætur til þess sem misgert er við. Með sömu skilyrðum væri unnt að dæma bætur fyrir fjártjón ef því væri að skipta. Við beitingu þessara úrræða væri samkvæmt frumvarpinu m.a. höfð hliðsjón af sök, efni tjáningar og aðstæðum að öðru leyti. Tilgreindar eru aðstæður sem gera það að verkum að ekki kemur til bótaábyrgðar þegar þær eru fyrir hendi. Meðal þessara aðstæðna er að ummæli séu sannleikanum samkvæm eða ef um er að ræða gildisdóm sem settur er fram í góðri trú og hefur stoð í staðreyndum.

Í frumvarpinu felst mikil réttarbót og þá ekki síst í þágu fjölmiðla til að fjalla um brýn þjóðfélagsmál. Um leið felst í ákvæðum þess krafa um vönduð vinnubrögð fréttamanna og allra þeirra sem vilja tjá sig á opinberum vettvangi um mál þar sem æra einstaklinga liggur undir. Í þeim efnum munu áfram gilda sem endranær hin fleygu vísdómsorð Ara fróða að skylt sé að hafa það heldur er sannara reynist. Blaðamönnum og öðrum þeim sem tjá sig á opinberum vettvangi verður áfram skylt að vanda til verka, setja mál fram með hliðsjón af staðreyndum og vera í góðri trú um sannleiksgildi orða sinna.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. september 2020.