Fjárlagafrumvarp næsta árs ber þess skýr merki að við erum að takast á við gífurlegt efnahagslegt áfall af völdum Covid-19-faraldursins. Á þessu ári hafa tekjur hins opinbera dregist saman um vel á annað hundrað milljarða króna og útlit er fyrir að sú þróun muni halda áfram á næsta ári. Þá hafa útgjöld ríkissjóðs hækkað verulega vegna kostnaðarsamra aðgerða sem gripið hefur verið til, þá einkum í því skyni að verja lífskjör almennings.
Ríkisstjórnin mun grípa til ráðstafana til að halda uppi eftirspurn í hagkerfinu, líkt og fram kemur í fjárlagafrumvarpinu. Samdrátturinn verður þá minni en annars hefði orðið. Ekki verður dregið úr opinberri þjónustu og ráðist verður í sérstakt fjárfestingar- og uppbyggingarátak á næstu tveimur árum í framhaldi af þeim fjárfestingum sem þegar hafa verið kynntar til sögunnar. Þá verður dregið úr skattheimtu og útgjöld aukin vegna vaxandi atvinnuleysis.
Traustur rekstur ríkisins og ráðdeild undanfarinna ára gerir okkur kleift að grípa til slíkra aðgerða. Von okkar er sú að orkan sem býr í efnahagslífinu muni leysast úr læðingi um leið og skilyrði verða hagstæðari. Aukin útgjöld ríkissjóðs við þessar aðstæður miða að því að svo geti orðið. Um leið nýtum við tækifæri sem eru fyrir hendi til að gera rekstur ríkisins eins hagkvæman og mögulegt er þegar til lengri tíma er litið, því þannig náum við að bæta þjónustu og einfalda líf fólks.
Fjárlagafrumvarið endurspeglar skammtíma viðbrögð vegna kórónuveirunnar en tækifæri til langtíma hagræðingar felast m.a. í örri tækniþróun og lausnum sem bæði bæta þjónustu og kosta minna. Slíkar aðgerðir draga ekki aðeins úr kostnaði ríkisins heldur alls almennings sem þarf á þjónustunni að halda.
Aukin rafvæðing stjórnsýslunnar skapar skilyrði fyrir hagræðingu og um leið hraðari og betri þjónustu. Ég hef sem dómsmálaráðherra lagt ríka áherslu á innleiðingu rafrænna lausna t.d. hjá sýslumannsembættunum þar sem brýnt er að bæta þjónustu fjölskyldumála, við þinglýsingar og aðra afgreiðslu opinberra skjala. Tækninni fleygir ört fram á meðan stjórnsýsluafgreiðsla embættanna hefur setið eftir.
Á fjárlögum næsta árs eru framlög til innleiðingar rafrænnar þjónustu aukin um rúma tvo milljarða í verkefnið Stafrænt Ísland. Rafræn réttarvörslugátt er eitt þeirra verkefna sem dómsmálaráðuneytið vinnur að. Þar er áhersla lögð á aukna samvinnu stofnana innan réttarvörslukerfisins. Bein skilvirk þjónusta við almenning er mikilvæg, en ekki síður greið leið gagna innan kerfisins sem leiðir til styttri málsmeðferðartíma, aukins öryggis og betri nýtingar skattfjár.
Við skulum alltaf muna að stjórnsýslan er til fyrir fólkið en ekki öfugt. Þess vegna leggjum við áherslu á skilvirka og góða þjónustu.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.