Á undanförnum árum hafa komið upp fjölmörg mál þar sem einstaklingar hafa verið beittir ofbeldi, sætt ofsóknum eða hótunum og í framhaldi óskað eftir nálgunarbanni á þann sem ofbeldinu beitir. Um sum þessara mála hefur verið fjallað í fjölmiðlum en þau eru þó talsvert fleiri en fólk gerir sér almennt grein fyrir.
Nálgunarbannið er ráðstöfun en ekki eiginleg refsing og erfitt hefur reynst að fella fjölbreytta háttsemi undir ákveðin hegningarlagabrot. Fram til þessa hefur úrræðið því ekki veitt þolendum ofbeldis nægilega vernd fyrir síendurteknum friðhelgisbrotum eða ofsóknum sem skert hefur frelsi þess sem fyrir ofbeldinu verður.
Til að styrkja þessa vernd er mikilvægt að lögfesta sérstakt refsiákvæði. Ég hef lagt fram frumvarp um „umsáturseinelti“ (e. stalking) sem ég tel mikilvægt til að veita einstaklingum þá vernd sem þeir þurfa og þá friðhelgi sem þeir eiga rétt á. Með frumvarpinu er lagt til að nýrri lagagrein verði bætt við almenn hegningarlög sem geri það refsivert að hóta, fylgjast með, setja sig í samband við eða með öðrum sambærilegum hætti sitja um annan einstakling ef háttsemin er endurtekin og til þess fallin að valda ótta eða kvíða. Lagt er til að brot gegn ákvæðinu varði sektum eða fangelsi allt að fjórum árum.
Með þessu nýja ákvæði erum við að stíga mikilvægt skref í aukinni réttarvernd þeirra sem verða fyrir ofbeldi. Ákvæðið kemur til viðbótar ákvæðum um nálgunarbann og brottvísun af heimili og er sambærilegt ákvæði í hegningarlögum flestra Norðurlandaþjóðanna.
Eftir að Ísland gerðist aðili að Istanbúl-samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og á heimilum voru árið 2016 gerðar breytingar á íslenskum hegningarlögum til að tryggja að íslensk refsilöggjöf uppfyllti ákvæði samningsins. Þá var ekki talin þörf á refsiákvæði um umsáturseinelti en af dómaframkvæmd og reynslu er ljóst að núverandi rammi laganna nær ekki nægjanlega vel utan um þessa háttsemi sem á grófan hátt skerðir frelsi og friðhelgi annarra.
Í frumvarpinu eru algengustu aðferðir sem beitt er við umsáturseinelti taldar upp. Sú upptalning er þó ekki tæmandi og aðrar aðferðir sem eru til þess fallnar að valda öðrum hræðslu eða kvíða falla einnig undir ákvæðið. Ákvæðið gerir engar kröfur til tengsla geranda og þolanda enda getur umsáturseinelti bæði beinst að einhverjum sem gerandi þekkir vel sem og bláókunnugum.
Það eru sjálfsögð mannréttindi að einstaklingum sé tryggður sá réttur í lögum að ganga um í samfélaginu óáreittir. Með ákvæðinu treystum við þann rétt okkar allra og stígum mikilvægt skref í átt að aukinni réttarvernd þeirra sem verða fyrir ofbeldi.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.