Stafræn tækni hefur umbylt samskiptum mannkynsins, bæði að efni og formi. Þetta felur í sér gríðarleg tækifæri til framfara, en einnig möguleika til þess að festa í sessi skaðlega hegðun og háttsemi sem birtist með nýjum hætti. Dæmi um þetta er þegar stafræn tækni er nýtt til þess að brjóta gegn kynferðislegri friðhelgi einstaklinga. Þetta hefur verið kallað hefndarklám, hrelliklám eða stafrænt kynferðisofbeldi.
Ríkisstjórnin leggur áherslu á baráttu gegn ýmsum birtingarmyndum kynferðislegs ofbeldis. Kynferðisofbeldi í gegnum stafræna tækni er ekki undanskilið, enda algengt notkunarform þess að brjóta á einstaklingum, sérstaklega kvenfólki. Núverandi löggjöf veitir aðeins brotakennda réttarvernd þegar kemur að kynferðisbrotum sem framin eru með stafrænum hætti og það orsakar meðal annars ósamræmi í dómaframkvæmd.
Ég mun leggja fram lagafrumvarp á næstu vikum sem felur í sér aukna vernd þeirra sem verða fyrir eða er hótað ofbeldi af þessum hætti. Um er að ræða breytingar á hegningarlögum sem fela í sér sérstakt ákvæði sem fjallar um brot gegn kynferðislegri friðhelgi einstaklinga. Engin einhlít skilgreining liggur fyrir um hugtakið en með því er vísað til háttsemi sem felst í því að nýta stafræn samskipti til þess að búa til, dreifa eða birta kynferðislegt myndefni af öðrum í heimildarleysi. Þá verður einnig gert refsivert að hóta notkun á þess konar efni sem og að falsa slíkt efni.
Það er mikilvægt að stjórnvöld láti sig þetta mál varða og bregðist við með þeim hætti að hægt sé að veita vernd og öryggi. Ofbeldi felur ekki bara í sér líkamlegar barsmíðar. Þeir sem beita því ofbeldi sem hefndarklám felur í sér vita að þeir eru að brjóta á viðkomandi með grófum hætti, leggja sálarlíf viðkomandi í rúst og gera fórnarlömbin óörugg og hrædd og þannig mætti áfram telja. Kynferðisofbeldi, hvort sem það er framið með stafrænni tækni eður ei, er ekki aðeins vandi á Íslandi heldur verkefni sem öll ríki heims þurfa að berjast gegn. Allir eiga rétt á friðhelgi, það á einnig við um kynferðislega friðhelgi.
Það er mikilvægt að styrkja réttarvernd einstaklinga með hliðsjón af þeim samfélagslegu breytingum sem hafa orðið með aukinni tæknivæðingu og þróun í viðhorfum til kynferðisbrota á Íslandi.
Um leið og við nýtum vel þá möguleika sem hin stafræna bylting býður upp á fyrir Ísland þurfum við að vera vakandi fyrir því að lögin séu uppfærð í takt við tækniframþróun, rétt eins og stýrikerfin í tölvunum. Viðhorfið um að sending nektarmynda feli sjálfkrafa í sér samþykki fyrir opinberri dreifingu efnisins er jafn úrelt og viðhorfið um að konur sem birta af sér kvenlegar sjálfsmyndir séu að kalla yfir sig kynferðislega áreitni.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.