Í stað þess að fara á busaball í nýja menntaskólanum aðstoðaðir þú foreldra þína við að setja upp forrit til að fara á fjarfund í vinnunni. Í stað þess að fara á ballið hittir þú vinina á Zoom þar sem þið spjölluðuð um allt það helsta. Í stað þess að fara á æfingu daginn eftir fórstu út að skokka í einrúmi. Þú hefur ekki mátt knúsa ömmu en gafst þér samt tíma til að kenna henni að nota FaceTime til að tala við vini og ættingja, þannig að hún fengi að minnsta kosti að sjá framan í þau. Í stað þess að sitja í skólanum og njóta félagsskapar vina þinna hefur þú klórað þig í gegnum lærdóminn heima.
Þér er eflaust búið að leiðast, þykja þetta allt ósanngjarnt og skrýtið – en hefur þó reynt að gera það besta úr aðstæðum. Foreldrar þínir eru meira og minna heima að vinna, það heyrir til undantekninga að þú hittir vini og kunningja, það er búið að slá af öll íþróttamót, stóra systir missti af útskriftarferðinni í vor og litli bróðir gat ekki haldið almennilega fermingarveislu.
Það var búið að segja þér að þessi ár væru þau skemmtilegustu, að á þessum árum myndir þú kynnast fullt af nýju fólki, eignast vini fyrir lífstíð, að þú gætir verið í námi, íþróttum, vinnu og félagsstarfi en þess í stað ertu að mestu heima og hittir gömlu (en góðu) vinina í gegnum símann.
Þú þarft að setja upp grímu til að fara í búðina, hefur aldrei þvegið þér jafn oft um hendurnar og ert með spritt í vasanum. Þú hefur lagt mikið á þig til að fylgja sóttvarnareglum til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu kórónuveirunnar sem við þekktum ekki í upphafi árs. Þess á milli heyrir þú og lest neikvæðar fréttir um að það sé komin kreppa, þú veist ekkert hvenær þú getur ferðast á ný og allir dagdraumar um framtíðina virðast fjarlægir. Þú veist ekki hvenær þessu ástandi lýkur en þú vonar að því ljúki fljótlega. Þú getur ekki beðið eftir því að lífið færist aftur í eðlilegt horf.
Þú þarft þó að muna að þú ert klár og mátt því ekki hætta að hugsa um framtíðina. Samfélagið mun þurfa á kröftum þínum að halda og þú ert að öðlast reynslu sem mun nýtast þér alla ævi. Hún er ekki skemmtileg þessi reynsla, en hún mun auðvelda þér að komast yfir aðrar hindranir sem lífið færir þér. Það skiptir þig og vini þína gífurlega miklu máli að gefast ekki upp og halda áfram að horfa til framtíðar. Leyfðu þér að hlakka til – hvers sem er!
Þú ert allt unga fólkið sem er að upplifa skrýtna tíma sem enginn gat séð fyrir. Jú, vissulega erum við öll saman í þessu en það má sérstaklega minnast þeirra fórna sem þú ert að færa á meðan þetta ástand varir. Takk fyrir að standa í þessu með okkur.
Greinin birtist í Morgunblaðinu.