Hey þú, takk!

Í stað þess að fara á busa­ball í nýja mennta­skól­an­um aðstoðaðir þú for­eldra þína við að setja upp for­rit til að fara á fjar­fund í vinn­unni. Í stað þess að fara á ballið hitt­ir þú vin­ina á Zoom þar sem þið spjölluðuð um allt það helsta. Í stað þess að fara á æf­ingu dag­inn eft­ir fórstu út að skokka í ein­rúmi. Þú hef­ur ekki mátt knúsa ömmu en gafst þér samt tíma til að kenna henni að nota FaceTime til að tala við vini og ætt­ingja, þannig að hún fengi að minnsta kosti að sjá fram­an í þau. Í stað þess að sitja í skól­an­um og njóta fé­lags­skap­ar vina þinna hef­ur þú klórað þig í gegn­um lær­dóm­inn heima.

Þér er ef­laust búið að leiðast, þykja þetta allt ósann­gjarnt og skrýtið – en hef­ur þó reynt að gera það besta úr aðstæðum. For­eldr­ar þínir eru meira og minna heima að vinna, það heyr­ir til und­an­tekn­inga að þú hitt­ir vini og kunn­ingja, það er búið að slá af öll íþrótta­mót, stóra syst­ir missti af út­skrift­ar­ferðinni í vor og litli bróðir gat ekki haldið al­menni­lega ferm­ing­ar­veislu.
Það var búið að segja þér að þessi ár væru þau skemmti­leg­ustu, að á þess­um árum mynd­ir þú kynn­ast fullt af nýju fólki, eign­ast vini fyr­ir lífstíð, að þú gæt­ir verið í námi, íþrótt­um, vinnu og fé­lags­starfi en þess í stað ertu að mestu heima og hitt­ir gömlu (en góðu) vin­ina í gegn­um sím­ann.

Þú þarft að setja upp grímu til að fara í búðina, hef­ur aldrei þvegið þér jafn oft um hend­urn­ar og ert með spritt í vas­an­um. Þú hef­ur lagt mikið á þig til að fylgja sótt­varn­a­regl­um til að koma í veg fyr­ir frek­ari út­breiðslu kór­ónu­veirunn­ar sem við þekkt­um ekki í upp­hafi árs. Þess á milli heyr­ir þú og lest nei­kvæðar frétt­ir um að það sé kom­in kreppa, þú veist ekk­ert hvenær þú get­ur ferðast á ný og all­ir dagdraum­ar um framtíðina virðast fjar­læg­ir. Þú veist ekki hvenær þessu ástandi lýk­ur en þú von­ar að því ljúki fljót­lega. Þú get­ur ekki beðið eft­ir því að lífið fær­ist aft­ur í eðli­legt horf.
Þú þarft þó að muna að þú ert klár og mátt því ekki hætta að hugsa um framtíðina. Sam­fé­lagið mun þurfa á kröft­um þínum að halda og þú ert að öðlast reynslu sem mun nýt­ast þér alla ævi. Hún er ekki skemmti­leg þessi reynsla, en hún mun auðvelda þér að kom­ast yfir aðrar hindr­an­ir sem lífið fær­ir þér. Það skipt­ir þig og vini þína gíf­ur­lega miklu máli að gef­ast ekki upp og halda áfram að horfa til framtíðar. Leyfðu þér að hlakka til – hvers sem er!

Þú ert allt unga fólkið sem er að upp­lifa skrýtna tíma sem eng­inn gat séð fyr­ir. Jú, vissu­lega erum við öll sam­an í þessu en það má sér­stak­lega minn­ast þeirra fórna sem þú ert að færa á meðan þetta ástand var­ir. Takk fyr­ir að standa í þessu með okk­ur.

Greinin birtist í Morgunblaðinu.