Nú stendur yfir alþjóðlegt sextán daga átak gegn kynbundnu ofbeldi. Gærdagurinn markaði upphaf átaksins sem ætlað er að hvetja til umræðu og vitundarvakningar um að samfélagið allt standi saman gegn slíku ofbeldi og knýi á um afnám þess. Þetta árið beinist átakið að áhrifum heimsfaraldurs COVID-19 á kynbundið ofbeldi.
Vitað er að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til víða um heim í þeim tilgangi að ná tökum á faraldrinum valda félagslegri einangrun. Tilkynningum um heimilisofbeldi hefur fjölgað um þrettán prósent það sem af er ári miðað við sama tímabil í fyrra. Mest er fjölgunin vegna brota af hálfu maka eða fyrrverandi maka. Barnaverndartilkynningum hefur fjölgað um rúmlega fjórtán prósent á sama tímabili og hlutfallslega hefur mest fjölgað í tilkynningum um líkamlegt ofbeldi gegn börnum. Þetta er hryggileg mynd sem við okkur blasir.
Þess vegna er mikilvægt sem aldrei fyrr að leggja sérstaka áherslu á forvarnir og viðbrögð við ofbeldi. Við félags- og barnamálaráðherra settum á fót aðgerðateymi sem hefur skilað tillögum sem mörgum hefur þegar verið hleypt af stokkunum. Má í þessu samhengi nefna opnun nýs Kvennaathvarfs fyrir konur á Akureyri, opnun rafrænnar gáttar 112 og vitundarvakningu lögreglunnar til barna um ofbeldi. Þá hefur skilvirkni verið aukin í málaflokknum með auknum rafrænum samskiptum innan kerfisins. Þannig berast upplýsingar hratt og örugglega milli stofnana sem koma að ofbeldisbrotum og samhæfa betur aðgerðir gegn þeim.
Á yfirstandandi þingi hef ég mælt fyrir lagabreytingum sem málefninu tengjast um umsáturseinelti og kynferðislega friðhelgi sem styrkja vernd brotaþola gegn margs konar ofbeldi. Mikil framför hefur orðið í meðferð mála er varða
kynferðislegt ofbeldi á síðustu árum. Verkefninu er þó hvergi nærri lokið, áfram þarf að vinna að úrbótum hjá lögreglu og ákæruvaldi og passa að gætt sé að réttindum brotaþola á öllum stigum málsins í réttarvörslukerfinu. Ég mun ekki skorast undan ábyrgð í þeim verkefnum.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.