Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins fóru mikinn þegar endanleg niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) var kynnt í Landsréttarmálinu í síðustu viku. Meðal annars var kvartað yfir því að málinu hefði yfir höfuð verið skotið til yfirdeildar dómstólsins. Flestir sérfræðingar töldu þó að fyrri dómur MDE hefði skapað mikla réttaróvissu. Sú skoðun var réttmæt. Átti fyrri dómur við um alla 15 dómara réttarins en ekki aðeins þá fjóra sem drógu sig í hlé? Hvað með meginregluna um endanlegt vald Hæstaréttar til að skýra og túlka íslensk lög? Þá var dómurinn klofinn og minnihluti MDE hafði komist að sömu niðurstöðu og Hæstiréttur í málinu.
Nú, þegar rykið hefur sest, blasir við að það var tvímælalaust rétt ákvörðun að skjóta málinu til yfirdeildar MDE. Í niðurstöðu hennar kemur fram að ekki leikur neinn vafi lengur varðandi lagalega stöðu Landsréttar. Fyrri dómurinn náði til fjögurra dómara af 15. Þrír þeirra hafa síðan fengið skipun að loknu faglegu ferli þar sem matsnefnd hefur metið þá hæfasta úr hópi fjölmargra umsækjenda.
Fyrir liggur að Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft forystu um að koma upp nýju dómstigi, Landsrétti. Það var gert í ráðherratíð Ólafar Nordal. Markmiðið var að efla og styrkja stoðir réttarkerfisins og það hefur gengið eftir. Landsréttur starfar á milli héraðsdómstólanna og Hæstaréttar. Þar fer fram milliliðalaust mat á munnlegri sönnunarfærslu á áfrýjunarstigi, ef þörf krefur, bæði í einkamálum og sakamálum. Þetta er grundvallaratriði og mikil réttarbót. Hæstiréttur eflist í kjölfarið sem stefnumarkandi æðsti dómstóll þjóðarinnar.
Stofnun Landsréttar er þó ekki eina framfarasporið sem stigið hefur verið í dómskerfinu á síðustu árum. Nefna má stofnun dómstólasýslunnar sem annast stjórnsýsluverkefni allra þriggja dómstiganna svo og hinn nýja Endurupptökudómstól sem tekur til starfa á næstunni.
Þegar upp er staðið blasir við að staða íslenskra dómstóla hefur styrkst til mikilla muna. Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft forystu um framangreindar umbætur og þær tala sínu máli um það fyrir hvað flokkurinn stendur í málefnum dómstólanna. Við viljum öfluga, sjálfstæða dómstóla sem almenningur getur treyst og sem veita öðrum greinum ríkisvaldsins öflugt eftirlit og aðhald.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu