Við sem þjóðfélag viljum koma vel fram gagnvart börnum á flótta, veita þeim þann stuðning sem til þarf, sýna þeim nærgætni og umhyggju. Fáir eru bjargarlausari í hópi flóttamanna en börn. Þau koma hingað í leit að vernd og eru ýmist í fylgd forsjáraðila, fjölskyldumeðlima eða ein og fylgdarlaus. Það er mikilvægt að halda vel utan um þennan viðkvæma hóp og tryggja að lögum um útlendinga er varða réttindi og hagsmuni barna sé framfylgt með fullnægjandi hætti.
Markmið mitt er að tryggja réttaröryggi og velferð barna í þessari viðkvæmu stöðu. Ég lét því gera úttekt til að meta stöðu barna í leit að alþjóðlegri vernd og koma með tillögur til úrbóta. Markmiðið var að rýna lagaumhverfi og meðferð þessara mála, taka saman helstu athugasemdir og gagnrýni og leggja fram tillögur að mögulegum úrbótum.
Niðurstaða úttektarinnar er að meginreglur Barnasáttamála Sameinuðu þjóðanna og mannréttindasáttmála Evrópu endurspeglast að miklu leyti í íslenskum lögum og reglugerðum er varða börn á flótta. Við framkvæmd laganna og gerð samantektarinnar hefur þó komið í ljós að enn eru tækifæri til breytinga og úrbóta – sem ég vonast til að komi til framkvæmda á næstunni.
Þegar kemur að mikilvægum samfélagsmálum eins og mannréttindum, siðferði og lýðræðislegri umgjörð íslensks samfélags má stundum ætla af umræðunni, að hér sé illa staðið að málum í alþjóðlegum samanburði. Það er auðvitað rangt. Við stöndum jafnfætis öðrum þjóðum í flestu tilliti þó að vissulega sé alltaf hægt að gera betur.
Ein af þeim tillögum sem lagðar eru fram til úrbóta snýr að því að herða á leiðbeiningarskyldu stjórnvalda og að reglur sem gilda um viðtöl við börn séu skýrari. Lagt er til að fylgdarlausum börnum verði tryggð búseta á heimili reknu af barnaverndaryfirvöldum og að mál þessi beri að nálgast sem barnaverndarmál. Þá er brýnt að setja verklagsreglur vegna mats á hagsmunum barna hjá Útlendingastofnun, ljúka vinnu sem þegar er hafin um sameiginlegt verklag Barnaverndarstofu og Útlendingastofnunar og gera úrbætur á barnvænni aðstöðu í móttökumiðstöð. Að sama skapi gætu fleiri börn notið þjónustu sveitarfélaga og þeim málum þarf að tryggja sérfæðiþekkingu um málefni barna.
Við meðferð mála, allt frá fyrstu móttöku og fram að birtingu ákvörðunar, og eftir atvikum við framkvæmd hennar, verður ávallt að taka mið af sérstöðu barna og réttindum þeirra. Íslendingar geta vitaskuld ekki leyst nema lítinn hluta þess vanda sem blasir við heimsbyggðinni og varðar börn á flótta, en það sem við getum gert eigum við að gera eins vel og við getum.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu