Á árinu sem er að líða fór sem oftar að atburðirnir tóku á sig allt aðra mynd en nokkurn gat órað fyrir. Í kjölfar norðanóveðurs undir lok síðasta árs heilsaði nýja árið með snjóflóðum á Flateyri og í Súgandafirði og jarðskjálftum og landsigi nálægt Grindavík. Undir lok ársins féllu aurskriður á Seyðisfjörð þannig að rýma þurfti bæinn og íbúarnir máttu þola margvíslegar þjáningar og eignatjón. Þá er ótalinn faraldurinn sem hrjáð hefur heiminn með vaxandi þunga allt frá því fréttir fóru að berast af nýrri tegund kórónuveiru í Kína í byrjun ársins.
Þegar árið er gert upp verður að draga rétta lærdóma af viðburðum þess. Ber þar fyrst að nefna mátt samstöðu og samheldni þjóðarinnar. Sjálfboðaliðar í björgunar- og hjálparsveitum gegna lykilhlutverki við hlið heilbrigðisstarfsmanna, lögreglu og annarra viðbragðsaðila þegar náttúruöflin sýna mátt sinn. Ósérhlífni þessa góða fólks er ómetanleg. Samhugur hefur einnig ríkt meðal þjóðarinnar varðandi þær umfangsmiklu aðgerðir sem nauðsynlegt hefur verið að grípa til vegna faraldursins þar sem fjöldi fyrirtækja og einstaklinga hefur þurft að færa miklar fórnir.
Farsæl hagstjórn síðustu ára kemur sér vel á þessum erfiðu tímum þar sem áhersla var lögð á að greiða niður skuldir ríkissjóðs og byggja upp öflugan gjaldeyrisvarasjóð. Sú fyrirhyggja er lærdómsrík því hún hefur auðveldað okkur förina í gegnum efnahagslega erfiðleika ársins.
Ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á samstöðu þjóðarinnar um brýnustu verkefnin. Nefna má uppbyggingu innviða og mikinn stuðning við þá sem orðið hafa fyrir skakkaföllum. Áður hafði ríkisstjórnin lagt drjúgan skerf til lífskjarasamninga 2019 sem reynst hafa mikið gæfuspor.
Í árslok hafa orðið þau straumhvörf að farið er að bólusetja þjóðina gegn kórónuveirunni og vonir glæðast um bjartari tíma fram undan. Samhliða skiptir máli að grundvöllur hefur verið lagður fyrir öfluga viðspyrnu í atvinnu- og efnahagslífi landsmanna.
Áherslur Sjálfstæðisflokksins endurspeglast í fjölmörgum aðgerðum ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu. Við leggjum áherslu á frjálst markaðshagkerfi því við vitum að það mun auka hagsæld þjóðarinnar. Boðskapur okkar um öflugt atvinnulíf er ekki orðin tóm því þannig sköpum við störf og um leið tekjur heimilanna. Þegar bólusetningum lýkur bíður okkar það mikilvæga hlutverk að endurreisa hagkerfið, tryggja fyrirtækjum góð rekstrarskilyrði og berjast gegn þeirri vá sem atvinnuleysi er. Í stuttu máli þurfum við að vaxa út úr efnahagsvandanum, skapa aukinn hagvöxt, ný störf og fjárfestingar í efnislegum innviðum, hugviti o.s.frv. Stilla ber skattheimtu í hóf en verja um leið grunnþjónustu hins opinbera. Í þessu felast verkefnin á nýju ári.
Fram undan er ár mikilla tækifæra og full ástæða er til aukinnar bjartsýni. Ég lýk þessum orðum með því að óska öllum landsmönnum friðar og hagsældar á komandi ári.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.