Áhlaupið rann út í sandinn

Áhlaupið á þinghúsið í Washington að áeggjan Donalds Trumps minnir okkur á þau fornu sannindi að vald spillir og algert vald gjörspillir. Með þeim orðum vísaði Acton lávarður til þess að of mikil völd á hendi eins leiðtoga hefðu tilhneigingu til þess að slæva siðferðisvitund hans þannig að hann gæti ekki lengur greint rétt frá röngu. Eiginhagsmunir ná yfirhöndinni.

Þegar forseti Bandaríkjanna sættir sig ekki við úrslit kosninga, reynir allt hvað hann getur til að hnekkja þeim og efnir til fjöldafunda og óeirða í því skyni, þá er ekki aðeins illt í efni fyrir lýðræðið í Vesturheimi heldur í öllum vestrænum ríkjum. Sem betur fer rann áhlaupið út í sandinn. Bandaríska þingið gat á endanum sinnt þeirri lýðræðislegu skyldu sinni að staðfesta réttmæt úrslit kosninga. Að öllu óbreyttu fara forsetaskipti fram hinn 20. janúar.

Bandaríkin hafa lengi verið í forystu lýðræðisríkja. Þau hafa birst okkur sem boðberi laga og réttar í alþjóðlegum samskiptum. Vissulega eru dæmi um ósigra en hæst standa þó dæmin um glæsta sigra í þeirri sögu. Til að mynda í heimsstyrjöldum síðustu aldar og eftirmálum þeirra þegar lýðræðisríkin höfðu betur í baráttunni gegn alræðisöflum kommúnismans og nasismans í Evrópu. Alþjóðlegt viðskiptakerfi, Sameinuðu þjóðirnar og aðrar alþjóðlegar stofnanir eru að stórum hluta verk Bandaríkjamanna. Nefna má Atlantshafsbandalagið sem tryggt hefur frið og öryggi í okkar heimshluta í rúm sjötíu ár.

Áhlaupið á þinghúsið var sorglegur atburður í sögu Bandaríkjanna. Vinir og bandamenn um allan heim hafa áhyggjur af afleiðingunum fyrir stöðu lýðræðis og sjónarmið réttarríkisins. Alræðisríkin sækja á og benda á þennan atburð í áróðursstríði sínu gegn lýðræði, frelsi og mannréttindum. Undanfarin fjögur ár hafa markast af sundrungu og illdeilum þar sem orðræðan hefur einkennst af ofstæki og fullkomnu hatri. Afleiðingarnar blasa við. Þessu verður að linna. Þar eru undir ekki aðeins hagsmunir Bandaríkjanna heldur allra lýðræðisríkja. Leiðtogar beggja flokka í bandarískum stjórnmálum þurfa að slíðra sverðin og vinna saman að því að sameina þjóðina.

Okkur Íslendingum ber einnig að læra af þessum atburði. Verðum við ekki að vanda orðræðuna betur? Orð geta verið dýr eins og við blasir í Bandaríkjunum, en þau mega ekki kosta okkur það þjóðfélag sem við höfum byggt upp á grundvelli lýðræðis, mannréttinda, laga og réttar. Við getum deilt um hlutverk ríkisins, skatta, atvinnumál og önnur mál sem snúa að daglegu lífi borgaranna. Við getum áfram tekist á um ólíkar hugmyndir um bætt þjóðfélag. Slíkt verður best gert með sanngjörnum og málefnalegum hætti en aldrei með upphrópunum og dylgjum, hvorki í Bandaríkjunum né á Íslandi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.