Nokkrar vikur verða að sekúndum

Ávallt ber að stefna að því að bæta þjónustu hins opinbera, gera hana skilvikari og einfaldari. Allir þeir sem fjárfest hafa í húsnæði þekkja það að þurfa að þinglýsa viðeigandi pappírum. Þinglýsingar gegna þýðingarmiklu hlutverki í fjármála- og viðskiptalífi landsmanna. Það á ekki bara við um atvinnurekstur heldur einnig einstaklinga. Sá sem vill stofna til réttinda yfir eign getur bæði aflað veðbókarvottorða og rannsakað fasteignabækur hjá sýslumanni og gengið þannig úr skugga um hverjir eiga réttindi yfir eigninni og hvaða kvaðir hvíla á henni.

Framkvæmd þinglýsinga hefur verið handvirk fram að þessu. Á þessu ári verða rafrænar þinglýsingar loks að veruleika. Það mun gerast í nokkrum skrefum. Ég bind vonir við að áfangasigrum fari fjölgandi á næstunni um leið og fyrstu rafrænu færslurnar fara að berast til þinglýsingar og verkefnið kemst á almennilegt skrið. Rafrænar aflýsingar, sem telja um 40% skjala hjá sýslumanni, eru nú þegar tilbúnar til notkunar og fjármálastofnanir geta nýtt sér þá lausn.

Ný framkvæmd mun auka öryggi í viðskiptum og um leið stytta afgreiðslutímann til muna. Þinglýsingin verður að jafnaði framkvæmd á fáeinum sekúndum með sjálfvirkri ákvarðanatöku þinglýsingakerfisins. Það er ekki á hverjum degi sem við sjáum afgreiðslu ríkisins stytta úr nokkrum vikum niður í nokkrar sekúndur en það á svo sannarlega við hér.

Rafrænar þinglýsingar munu ótvírætt leiða til hagræðingar fyrir samfélagið í heild og þá einkum fyrir þá sem koma að þinglýsingum og byggja rétt sinn á þinglýsingu. Áætlaður árlegur ávinningur ríkisins, fyrirtækja, banka, lífeyrissjóða og annarra aðila er á bilinu 1,2 – 1,7 milljarðar króna. Erfitt er að meta annan ávinning, svo sem tímasparnað fyrir einstaklinga og fyrirtæki, en hann er ótvíræður þegar við snúum frá fornri framkvæmd að nútímalegum og stafrænum stjórnsýsluháttum.

Stjórnvöld eiga að bjóða upp á framúrskarandi þjónustu, skjóta afgreiðslu mála og einfaldar lausnir þar sem það á við, líkt og í þessu tilviki. Okkur ber ætíð að leita leiða til að einfalda líf bæði almennings og fyrirtækja og það má ekki vera þannig að ríkið sé Þrándur í götu hefðbundinna viðskipta. Stjórnendur fyrirtækja í samkeppnisrekstri átta sig flestir á því að þó svo að hlutirnir hafi einu sinni verði gerðir með einhverjum ákveðnum hætti þá þýðir það ekki að þannig þurfi það alltaf að vera, sérstaklega þegar betra fyrirkomulag er fyrir hendi. Þeir verða að tileinka sér nýja tækni og laga sig að breyttum aðstæðum. Hlutverk okkar stjórnmálamanna er að einfalda líf fólks og tryggja að ríkið og þjónustustofnanir þess dragist ekki aftur úr heldur sinni verkefnum sínum eins og best verður á kosið hverju sinni.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.

Styrkja framboðið

Það er hægt að styrkja framboðið með því að leggja inn á reikning þess.


Þeir sem styrkja framboðið fá í staðinn gjöf með merki framboðsins á meðan birgðir endast.

Hægt er að styrkja framboði beint með því leggja inná bankareikning framboðsins:  

Kennitala: 620616-0870

Reikningsnúmer: 0133-26-011882

Frambjóðandi má ekki taka við hærri styrkjum frá einstaka fyrirtæki eða lögaðila en sem nemur 400.000 kr. á ári. Birta ber nöfn allra fyrirtækja/lögaðila sem styrkja kosningabaráttu frambjóðandans.

Frambjóðandi má ekki taka við hærri styrkjum frá einstaklingum en sem nemur 400.000 kr. á ári. Birta skal nöfn einstaklinga sem veitt hafa styrki sem metnir eru á meira en 300.000 kr. til kosningabaráttunnar.