Nú er áformað að selja um fjórðungshlut ríkisins í Íslandsbanka og vonandi ganga þær áætlanir eftir á fyrri hluta þessa árs. Ríkissjóður eignaðist bankann sem hluta af stöðugleikaframlagi Glitnis á árinu 2015. Allt frá þeim tíma hefur legið fyrir að ríkið hygðist selja þegar tækifæri skapaðist enda hvorki rétt né skynsamlegt að meirihluti bankakerfisins sé til lengdar í eigu hins opinbera. Fjárbinding ríkisins er í dag um 400 milljarðar króna í bankastarfsemi – sem er í eðli sínu áhætturekstur og samsvarar um 37% af skuldum hins opinbera. Þessum fjármunum væri betur varið í arðsamari verkefni eins og t.d. uppbyggingu innviða eða til að minnka skuldsetningu ríkissjóðs.
Eins og vænta mátti hafa úrtöluraddir ekki látið á sér standa og helst fundið þessum hugmyndum til foráttu að tímasetningin sé óheppileg í miðjum heimsfaraldri og að of lágt verð muni fást fyrir hlutinn. Þessi rök standast engan veginn. Þvert á móti hafa skapast góðar aðstæður til að hefja sölu bankans. Vaxtalækkanir leiða til þess að almennir fjárfestar beina sjónum sínum í auknum mæli að hlutabréfum. Hlutabréfaverð hefur hækkað verulega undanfarna mánuði. Vel heppnað hlutafjárútboð Icelandair sl. haust gefur vonir um góðan árangur. Hlutabréf í Íslandsbanka fjölga fjárfestingakostum og verða eflaust eftirsótt meðal almennra fjárfesta.
Þá hefur því verið haldið fram að sala sé óráðleg þar sem stór hluti lána bankans séu í frystingu vegna faraldursins. Þetta er orðum aukið. Samkvæmt upplýsingum frá bankanum er slík frysting öðru fremur bundin við fyrirtæki í ferðaþjónustu og nema alls um 10% af lánasafni banka ns. Áætlanir og aðgerðir stjórnvalda miða sérstaklega að því að viðsnúningur í þeirri grein verði hraður samhliða bólusetningum næstu mánuði.
Loks hafa andstæðingar fyrirhugaðrar sölu haldið því fram að nýir eigendur muni ganga að veðum og selja eignir fyrirtækja sem eiga í erfiðleikum. Þetta er ástæðulaus ótti. Hagsmunir banka og viðskiptavina þeirra fara saman. Bankar hafa þannig hag af því að standa með viðskiptavinum sínum í gegnum erfiða tíma, líkt og íslensku bankarnir hafa gert, og aðstoða þá við uppbyggingu þegar storminn lægir. Þar er eignarhald ríkisins engin forsenda. Hvergi hefur borið á því að Arion banki, sem skráður er á markað, gangi harðar fram gegn viðskiptavinum sínum en ríkisbankarnir. Þó má einnig hafa í huga að ekki er stefnt að sölu meirihluta bankans í þessari atrennu.
Aðalatriðið er þó að skuldlítill ríkissjóður hefur riðið baggamuninn þegar efnahagsáföll hafa dunið yfir þjóðina. Með yfirgnæfandi eignarhaldi á fjármálakerfinu dregur úr mætti ríkisins til að mæta ytri áföllum þegar þau verða. Nú er tækifæri til að draga úr þeirri áhættu með því að hefja sölu á hlutabréfum ríkisins í Íslandsbanka og nýta fjármunina betur í þágu almennings.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.