Fröken Reykjavík

Að mörgu leyti geta orð Jónasar Árnasonar í texta sönglagsins um Fröken Reykjavík einnig átt við um borgina sjálfa: „Ó, það er stúlka engum öðrum lík, það er hún fröken Reykjavík.“ Með sinn „djarfa svip og ögn af yfirlæti“ má með nokkurri einföldun segja að Reykjavík sé blanda af evrópskri stórborg með þéttri byggð og úthverfum eins og í Bandaríkjunum. Höfuðborgin okkar hefur þannig fjölbreytta kosti fyrir þá sem þar búa. Með þeim hætti ættu kjörnir fulltrúar einmitt einnig að nálgast borgarbúa, hvort sem er í samgöngumálum, menntamálum, velferðarmálum eða öðrum málaflokkum. Fjölbreytni og valfrelsi eru góðir kostir.

Íbúar í Reykjavík eiga að búa við mikil lífsgæði. Í Reykjavík eiga að felast tækifæri, borgin á að vera aðsópsmikil og litrík „á ótrúlega rauðum skóm“ líkt og segir í söngtextanum. Ungt fólk á að velja sér borgina sem vænlegan kost fyrir sig og sína fjölskyldu. Þar á að vera auðvelt að stofna fyrirtæki, hafa aðgang að leikskóla, komast leiðar sinnar með skilvirkum hætti, njóta afþreyingar og alls þess sem borgin hefur upp á að bjóða.

Reykjavík er nógu stór til að rýma fjölbreytt hverfi og ólíka valmöguleika – en á sama tíma nógu lítil til að tryggja að rekstur og stjórn borgarinnar taki mið af þjónustu við borgarbúa en ekki stjórnkerfið sjálft. Því miður endurspeglar vinstri stjórnin í Reykjavík hvorugt.

Valfrelsi í samgöngumálum

Lífsgæði borgarbúa byggjast að stórum hluta á skilvirkum samgöngum.

Þau verða ekki til með því að verja – eða eyða – löngum tíma til að komast í og úr vinnu svo tekið sé dæmi. Í fjölbreyttum hverfum borgarinnar er allur gangur á því hvernig íbúar sinna öðrum daglegum þörfum, svo sem verslunarferðum, íþrótta- og tómstundastarfi barna og öðru. Það sem skiptir mestu er að kjörnir fulltrúar bjóði borgarbúum upp á valfrelsi til að bæta lífskjör þeirra. Óháð því hvort borgarbúar velja að ferðast með bíl, strætó eða á hjóli, þá þurfum við að hlúa þannig að samgöngukerfinu í heild sinni að hver og einn komist leiðar sinnar á áreiðanlegan, markvissan og fljótan hátt. Það gerist ekki með þvinguðum samgöngumáta heldur með vönduðu skipulagi þar sem ýtt er undir valfrelsi borgarbúa.

Markmið allra kjörinna fulltrúa, bæði borgarfulltrúa og þingmanna, ætti að vera að tryggja að borgarbúar eigi auðvelt með að komast á milli staða með þeim hætti sem hentar þeim best. Það felur vissulega í sér uppbyggingu á innviðum, svo sem almenningssamgöngum, hjólreiðastígum og vegum. Þá er ekki unnt að undanskilja einn samgöngumáta á kostnað annars.

Borgin rekin á yfirdrætti

Reykjavíkurborg er aftur á móti nokkur vandi á höndum, því fjárhagur hennar er svo gott sem að þrotum kominn. Þrátt fyrir góðæri síðustu ára hafa skuldir borgarinnar aukist um tæp 85% að nafnvirði og eigið fé borgarinnar er innan við 20%. Aftur á móti jukust skatttekjur borgarinnar um 48% umfram verðlag á árunum 2012-2018 enda er útsvar í hámarki og fasteignaskattar háir. Ef Reykjavíkurborg væri heimilisbókhald væri rekstur heimilisins í járnum og yfirdrátturinn fullnýttur þrátt fyrir að heimilismenn hefðu fengið launahækkanir síðustu ár. Ekkert má út af bera í slíkri stöðu og þegar flest heimilistækin eyðileggjast á sama tíma er ekkert eftir aflögu. Því miður bendir fátt til þess að fjárhagur Reykjavíkurborgar batni á næstu árum.

Flest af stærri sveitarfélögum landsins hafa bætt stöðu sína verulega á liðnum árum og það hefur ríkissjóður einnig gert. Reykjavíkurborg sker sig úr hvað rekstur varðar en ósjálfbær rekstur borgarinnar hefur neikvæð áhrif á daglegt líf borgarbúa til lengri tíma. Það kemur alltaf að skuldadögum og í tilfelli borgarinnar koma áhrifin fyrst og fremst fram í verri þjónustu við borgarbúa. Það er mikil ábyrgð fólgin í því að reka sveitarfélag enda byggjast lífsgæði íbúanna á því að vel sé haldið á málum.

Fjölgum störfum

Áhrifaríkasta leið Reykjavíkurborgar til að bæta fjárhag sinn – og auka um leið lífsgæði borgarbúa – er að vaxa úr núverandi stöðu. Það gerist öðru fremur með öflugu atvinnulífi og fjölgun starfa í einkageiranum. Óháð ytri aðstæðum hverju sinni, þá ætti það ávallt að vera stefna borgarinnar að laða til sín fjölbreytt fyrirtæki, byggja upp öflugt atvinnulíf og fjölga störfum. Í því ástandi sem nú ríkir þarf að ganga lengra en áður, til dæmis með því að létta á regluverki og lækka fasteignaskatta.

Fyrst og fremst þarf stjórnkerfi borgarinnar að vera skilvirkt. Á síðustu árum, og löngu fyrir Covid-19-faraldurinn, höfum við ítrekað séð og lesið fréttir af seinagangi í svörum borgarinnar við fyrirspurnum, tafir í afgreiðslu beiðna o.s.frv. Stjórnkerfi borgarinnar er orðið of stórt og þunglamalegt og það mun til lengri tíma skaða atvinnulífið í borginni – og þar með lífsgæði borgarbúa.

Framúrskarandi menntakerfi

Rekstur grunnskóla er eitt mikilvægasta verkefni sveitarfélaga. Til að auka lífsgæði í Reykjavík þarf að efla menntakerfið til muna. Það er ekki gert með því einu að fjölga starfsmönnum á skrifstofu skólaráðs.

Ein stærsta áskorun menntakerfisins er að búa nemendur á öllum aldri undir framtíðina. Það verkefni er sífellt í þróun og því er stöðnun líklega versti óvinur menntakerfisins – og þá um leið atvinnulífsins, nýsköpunar, rannsókna og þannig mætti áfram telja. Ísland ver hærra hlutfalli landsframleiðslu til grunnskóla en nokkurt annað þróað ríki, 2,33%, en er þó í 39. sæti á PISA. Þótt það sé ekki fullkominn mælikvarði segir hann okkur hvar við stöndum í samanburði við önnur lönd. Við viljum að menntakerfið okkar sé framúrskarandi og að við fáum gæði fyrir þá fjármuni sem við verjum í kerfið. Til þess verðum við að auka sveigjanleika og tækifæri hvers nemenda til að blómstra.

Skólastarf snýst þó ekki eingöngu um einkunnir nemenda á prófum heldur þá hæfni sem nemendur þurfa til að spjara sig síðar í samfélaginu. Til að efla menntakerfið þurfa borgaryfirvöld að bjóða upp á aukinn sveigjanleika og aukið valfrelsi. Í stað þess að leggja stein í götu einkarekinna skóla ætti borgin að greiða götu þeirra. Um leið er hægt að efla kennslu í skólum borgarinnar til muna og bjóða upp á fjölbreytt skólastarf. Þetta þarf að gera í góðu samstarfi við kennara og hvetja til nýsköpunar í skólastarfi.

Allt felur þetta í sér aukin lífsgæði borgarbúa – og í þessu tilviki yngstu kynslóðanna sem munu vonandi sjá hag sinn í því að vilja búa í Reykjavík til framtíðar.

Lítil borg en samt svo stór

Fleiri þættir fela í sér aukin lífsgæði í Reykjavík. Valfrelsi á ekki síður við í heilbrigðis- og velferðarmálum borgarinnar, rétt eins og í samgöngumálum, atvinnumálum og menntamálum líkt og hér hefur verið rakið.

Fyrir einhverjum kann það að virka sem draumsýn að búa í borg sem býður íbúum upp á fjölbreyttar og greiðar samgöngur, framúrskarandi menntakerfi, öflugt atvinnulíf, hófsama skattheimtu og skilvirkt stjórnkerfi. Í þessu felst þó engin draumsýn því eins og ég nefndi hér í upphafi þá er Reykjavík nógu stór en um leið nógu lítil til að byggja upp þá þjónustuþætti og þau kerfi sem til þarf til að íbúar hennar geti búið við þessi lífsgæði.

Til að svo geti orðið þurfa kjörnir fulltrúar í Reykjavík að taka mið af þörfum einstaklinga og fyrirtækja. Stærra stjórnkerfi felur ekki endilega í sér betri borg eða betra líf fyrir borgarbúa – öðru nær.

Stjórnmálin í Reykjavík þurfa heldur ekki að snúast um hagsmunaárekstra eða baráttu á milli hverfa. Í samgöngumálum geta hagsmunir Vesturbæjar og Miðbæjar farið saman við hagsmuni Grafarvogs og Grafarholts, svo tekin séu dæmi. Allir þeir sem búa í þessum hverfum þurfa að komast á milli staða með einum eða öðrum hætti. Því fleiri valmöguleikar, því líklegra er að sátt ríki um innviðauppbyggingu borgarinnar og það sem meira máli skiptir; því meiri líkur eru á að sátt ríki á meðal íbúa borgarinnar. Hið sama á við um skólastarf, velferðarþjónustu og aðra þá þætti sem hér hefur verið fjallað um.

Við sem störfum sem kjörnir fulltrúar Reykvíkinga erum líklegri til að auka lífsgæði í borginni með því að hlusta á borgarbúa, setja okkur í spor þeirra sem búa í mismunandi hverfum, þeirra sem sækja vinnu í aðra hluta borgarinnar, þeirra sem treysta á menntakerfi sem undirbýr börn undir framtíðina og þeirra sem vilja hafa fjölbreytt val um eigið líf. Reykjavík er nógu stór en á sama tíma nógu lítil til að við getum hlustað á allar þessar raddir.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.