Ríkið gegn Apple?

Það dytti fáum í hug að opna í dag ríkisrekna matvöruverslun, ríkisrekið bifreiðaverkstæði eða ríkisrekna raftækjaverslun. Við vitum að þessi þjónusta er betur komin í höndum einkaaðila, sem keppa sín á milli um viðskiptavini og eru meðvitaðir um það að bæði vörur og þjónusta þurfa að uppfylla nútímalegar kröfur þeirra.

Það gilda sömu lögmál um rekstur banka. Allar líkur eru á að fátt verði skylt með bankaþjónustu framtíðarinnar og þeirri sem við þekkjum í dag, meðal annars vegna mikilla tæknibreytinga.

Það má taka sem dæmi að flóknir fjármálagerningar, til að mynda almenn hlutafjárútboð, sem áður kölluðu á tugi sérfræðinga, fara nú í auknum mæli fram með sjálfvirkum hætti í tölvum. Yfirbyggingin minnkar óðum, hefðbundnum útibúum er lokað í stórum stíl og viðskiptavinir banka geta framkvæmt meginþorra sinna viðskipta í gegnum síma og tölvu. Fjártæknifyrirtæki spretta upp um allan heim. Tæknirisar á borð við Apple og Facebook eru þegar farnir að keppa á hluta markaðarins og hyggja á frekari landvinninga. Fyrirséð er að þessi þróun haldi áfram og færist í aukana.

Eigendur banka þurfa að leiða breytingarnar, halda í við þær eða kasta inn handklæðinu. Spurningin er hvort ríkið sé best til þess fallið að leiða meirihluta bankakerfisins í þessu róti og hvort almenningur sé þá til í að taka á sig höggið, ef illa fer?

Nú stendur til að selja um fjórðungshlut ríkisins í Íslandsbanka. Eftir sem áður yrði meirihluti bankans enn í ríkiseigu, auk Landsbankans. Rök þeirra sem eru andsnúnir sölunni eru meðal annars þau að ríkið sé að „afsala sér arðgreiðslum til framtíðar. Meinið við þá röksemdafærslu er að ekkert bendir til þess að arðgreiðslur úr hefðbundinni bankastarfsemi séu óþrjótandi auðlind, ekki síst með tilliti til þeirra breytinga sem blasa við.

Vel kann að vera að einhverjum þyki skynsamlegt að ríkið eigi banka. Skynsamlegast hlýtur þó að vera að ríkið dragi úr áhættu sinni gagnvart einstökum atvinnugreinum og bindi ekki 400 milljarða af almannafé í áhættusamri og sveiflukenndri bankastarfsemi.

Nema ef við ætlum okkur enn á ný að verða best í heimi – í þetta sinn í bankaþjónustu í boði ríkisins – og leggja Apple og alla hina í samkeppninni.

Þetta snýst þó ekki bara um það hvort bankar séu í eigu ríkisins eða ekki – heldur miklu fremur um það hversu stórt og fyrirferðarmikið ríkisvaldið á að vera í atvinnulífinu. Ríki og sveitarfélög eiga nógu erfitt með að sinna rekstri mennta- og heilbrigðisstofnana með fullnægjandi hætti. Allt er þetta áminning um að við eigum að vera ófeimin að ræða alla kosti þess að láta einkaaðila sinna rekstri fyrirtækja og leggja af þá mýtu að ríkið eitt geti veitt fullnægjandi þjónustu.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.