Landhelgisgæslan er ein af grunnstoðum öryggis þjóðarinnar og hlutverk hennar verður seint ofmetið. Á það erum við stöðugt minnt þegar náttúruöflin láta til sín taka. Við höfum ætíð búið við ógn af völdum náttúrunnar og verið meðvituð um afl hennar frá því að land byggðist.
Mikilvægt er að Landhelgisgæslan búi yfir öflugum tækjakosti og búnaði til að sinna öryggishlutverki sínu. Að mati Gæslunnar verða á hverjum tíma að vera til staðar a.m.k. tvö öflug og haffær varðskip og einnig hefur verið talin þörf á eflingu þyrluþjónustunnar. Ég er fullmeðvituð um að úrbóta er þörf og það fyrr en seinna.
Nýlega kom í ljós alvarleg bilun í vél varðskipsins Týs og við slipptöku í janúar blasti við að ráðast þyrfti í enn frekari viðgerðir á skipinu til að gera það siglingarhæft á ný. Áætlaður heildarviðgerðarkostnaður varðskipsins hleypur á hundruðum milljóna króna á næstu árum. Það er óviðunandi staða og brýnt að bregðast við með skjótum og öruggum hætti. Nýsmíði er ekki kostur vegna þess hve langan tíma hún tekur auk þess sem staða á mörkuðum fyrir kaup á hentugum skipum, t.d. þjónustuskipum úr olíuiðnaðinum, er talin einkar góð um þessar mundir.
Að mati Landhelgisgæslunnar er unnt að kaupa nýleg, vel búin skip fyrir um 1-1,5 milljarða króna. Til samanburðar má gera ráð fyrir að nýtt skip eins og varðskipið Þór myndi kosta 10-14 milljarða króna.
Í ljósi hagstæðra skilyrða á mörkuðum með skip taldi ég bæði skynsamlegt og rétt að stíga það skref að hefja nú þegar undirbúning að kaupum á öflugu skipi til að sinna verkefnum Gæslunnar til hliðar við varðskipið Þór. Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum sl. föstudag tillögu mína þess efnis og þegar hefur verið hafist handa við undirbúning málsins. Ég vænti þess að nýtt skip verði komið í gagnið áður en næsti vetur gengur í garð.
Auk framangreinds liggur fyrir að ný björgunarþyrla mun á næstunni leysa TF-LIF af hólmi. Þá verða þrjár nýlegar og öflugar björgunarþyrlur til staðar í landinu. Næsta haust ætti þá Landhelgisgæslan að vera einkar vel búin tækjum og búnaði til að takast á við sín mikilvægu öryggis- og gæslustörf.
Nafnahefð skipa Landhelgisgæslunnar á rót í menningarsögu þjóðarinnar og nöfnin eru sótt í norræna goðafræði. Skip Gæslunnar hafa borið nöfn ásanna og er ég mjög fylgjandi þessari hefð. Tel ég þó nú tíma kominn til að rétta hlut ásynja í nafnahefðinni þannig að gyðja ástar og frjósemi og dóttir sjávarguðsins Njarðar, Freyja, muni stilla sér upp við hlið hins öfluga Þórs, enda er frjósemi hafsins grunnur þess samfélags sem við nú byggjum.