Fyrr í vikunni var fullyrt í fréttum að viðbrögð stjórnvalda í faraldrinum hefðu verið síðbúnari og kraftminni en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Þessar fregnir byggðust á röngum upplýsingum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem nú hefur leiðrétt misskilninginn. Umfang aðgerðanna var sagt um tvö prósent af landsframleiðslu hér á landi en hið rétta er að umfangið var um níu prósent af landsframleiðslunni.
Fulltrúar Samfylkingarinnar tóku fregnunum af meintu ráða- og aðgerðaleysi stjórnvalda fagnandi. Þar kristallast sá leiði siður sumra að horfa fremur á magn en gæði. Hið rétta er að aðgerðir hagstjórnarinnar miðuðu að því að úrræðin nýttust sem flestum. Þar segja strípaðar krónutölur sem útdeilt er til efnahagsaðgerða ekki nema hálfa söguna. Staðreyndin er sú að samdráttur í landsframleiðslu á síðasta ári var mun minni en flestar spár gerðu ráð fyrir og minni en ætla mætti miðað við vægi ferðaþjónustu í landsframleiðslunni. Þá dróst einkaneysla almennt minna saman en í flestum iðnríkjum.
Okkur hefur tekist vel að bregðast við óvenjulegri krísu með skynsamlegri hagstjórn. Um það verður ekki deilt. Ríkisfjármálunum var beitt til að styðja við heimili og fyrirtæki í landinu og Seðlabankinn lækkaði vexti í þeim tilgangi að styðja við eftirspurn.
Sem betur fer voru undirstöðurnar sterkar í upphafi faraldursins, ekki síst vegna lækkunar ríkisskulda á árunum á undan. Nú blasir hins vegar við okkur nokkru drungalegri mynd. Atvinnuleysi er í sögulegu hámarki og ríkissjóður verður rekinn með verulegum halla næstu árin. Óumflýjanlega mun það koma í hlut skattgreiðenda að greiða þann reikning.
Forgangsverkefni okkar sem störfum í stjórnmálum er að stuðla að því að til verði ný störf; að veita súrefni til atvinnulífsins og skapa því skilyrði til að endurheimta þau verðmæti sem glatast hafa í faraldrinum. Verðmætasköpun dróst saman um 200 milljarða króna í fyrra. Þau verðmæti verða ekki endurheimt með fjölgun opinberra starfsmanna líkt og sumir leggja til og ekki heldur með skuldasöfnun hins opinbera umfram það sem nú er. Leiðin út úr vandanum felst í öflugum atvinnufyrirtækjum og starfsfólki þeirra. Langtímaatvinnuleysi má ekki festast í sessi.
Stjórnmálamenn verða að tala af ábyrgð og raunsæi um þau þýðingarmiklu mál sem nú eru til úrlausnar. Þeir eiga ekki að stunda einhvers konar útgjaldakeppni af því tagi sem stjórnarandstaðan reyndi að efna til í vikunni. Reynt var að slá ódýrar pólitískar keilur en sú tilraun mistókst.
Greinin birtist í Morgunblaðinu.