Frumhlaup frá vinstri

Fyrr í vik­unni var full­yrt í frétt­um að viðbrögð stjórn­valda í far­aldr­in­um hefðu verið síðbún­ari og kraft­minni en í þeim lönd­um sem við ber­um okk­ur sam­an við. Þess­ar fregn­ir byggðust á röng­um upp­lýs­ing­um frá Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðnum sem nú hef­ur leiðrétt mis­skiln­ing­inn. Um­fang aðgerðanna var sagt um tvö pró­sent af lands­fram­leiðslu hér á landi en hið rétta er að um­fangið var um níu pró­sent af lands­fram­leiðslunni.

Full­trú­ar Sam­fylk­ing­ar­inn­ar tóku fregn­un­um af meintu ráða- og aðgerðal­eysi stjórn­valda fagn­andi. Þar krist­all­ast sá leiði siður sumra að horfa frem­ur á magn en gæði. Hið rétta er að aðgerðir hag­stjórn­ar­inn­ar miðuðu að því að úrræðin nýtt­ust sem flest­um. Þar segja strípaðar krónu­töl­ur sem út­deilt er til efna­hagsaðgerða ekki nema hálfa sög­una. Staðreynd­in er sú að sam­drátt­ur í lands­fram­leiðslu á síðasta ári var mun minni en flest­ar spár gerðu ráð fyr­ir og minni en ætla mætti miðað við vægi ferðaþjón­ustu í lands­fram­leiðslunni. Þá dróst einka­neysla al­mennt minna sam­an en í flest­um iðnríkj­um.

Okk­ur hef­ur tek­ist vel að bregðast við óvenju­legri krísu með skyn­sam­legri hag­stjórn. Um það verður ekki deilt. Rík­is­fjár­mál­un­um var beitt til að styðja við heim­ili og fyr­ir­tæki í land­inu og Seðlabank­inn lækkaði vexti í þeim til­gangi að styðja við eft­ir­spurn.

Sem bet­ur fer voru und­ir­stöðurn­ar sterk­ar í upp­hafi far­ald­urs­ins, ekki síst vegna lækk­un­ar rík­is­skulda á ár­un­um á und­an. Nú blas­ir hins veg­ar við okk­ur nokkru drunga­legri mynd. At­vinnu­leysi er í sögu­legu há­marki og rík­is­sjóður verður rek­inn með veru­leg­um halla næstu árin. Óumflýj­an­lega mun það koma í hlut skatt­greiðenda að greiða þann reikn­ing.

For­gangs­verk­efni okk­ar sem störf­um í stjórn­mál­um er að stuðla að því að til verði ný störf; að veita súr­efni til at­vinnu­lífs­ins og skapa því skil­yrði til að end­ur­heimta þau verðmæti sem glat­ast hafa í far­aldr­in­um. Verðmæta­sköp­un dróst sam­an um 200 millj­arða króna í fyrra. Þau verðmæti verða ekki end­ur­heimt með fjölg­un op­in­berra starfs­manna líkt og sum­ir leggja til og ekki held­ur með skulda­söfn­un hins op­in­bera um­fram það sem nú er. Leiðin út úr vand­an­um felst í öfl­ug­um at­vinnu­fyr­ir­tækj­um og starfs­fólki þeirra. Lang­tíma­at­vinnu­leysi má ekki fest­ast í sessi.

Stjórn­mála­menn verða að tala af ábyrgð og raun­sæi um þau þýðing­ar­miklu mál sem nú eru til úr­lausn­ar. Þeir eiga ekki að stunda ein­hvers kon­ar út­gjalda­keppni af því tagi sem stjórn­ar­andstaðan reyndi að efna til í vik­unni. Reynt var að slá ódýr­ar póli­tísk­ar keil­ur en sú til­raun mistókst.

Greinin birtist í Morgunblaðinu.