Drifkraftur efnahagslífsins

Eitt mikilvægasta verkefnið sem blasir við þjóðinni er að ná atvinnuleysinu niður. Þessi vágestur hefur ekki einungis í för með sér efnahagslega erfiðleika heldur einnig félagslegar afleiðingar sem erfitt er að meta til fjár. Um 11 þúsund manns hafa misst vinnuna frá því faraldurinn gerði fyrst vart við sig í fyrra og nú eru um 21 þúsund manns án atvinnu í landinu. Við þessu þarf að bregðast með afgerandi hætti.

Vandinn verður þó ekki leystur með því einu að fjölga störfum hjá hinu opinbera. Lausnin liggur í eflingu atvinnulífsins sem stendur undir verðmætasköpun hagkerfisins og þar með skatttekjum ríkis og sveitarfélaga. Á liðnum 15 mánuðum hafa fyrirtækin í landinu tekið á sig þungt högg með tilheyrandi fækkun starfa á meðan starfsemi ríkisins hefur lítið raskast. Nýlega birtust tölur um launaþróun á almennum og opinberum vinnumarkaði þar sem í ljós kom að hið opinbera hefur leitt launaþróun á vinnumarkaði. Sú staða gengur ekki til lengdar.

Flest erum við sammála um að reka öflugt velferðarkerfi, menntakerfi, tryggja öryggi og góða þjónustu hins opinbera á þeim sviðum sem það veitir þjónustu. Ekkert af þessu er sjálfsagður hlutur heldur hvílir velferðin á frjálsum viðskiptum, markaðshagkerfi og öflugu atvinnulífi.

Stjórnmálamenn eiga það til að tala um öflugt atvinnulíf án þess að skilgreina það frekar. Stundum boða menn fjölgun starfa á vegum hins opinbera eða sérstök uppbyggingarverkefni sem takmarkast við ákveðinn stað eða ákveðna stund þótt ekki liggi fyrir hve sjálfbær þau eru til lengri tíma litið.

Verkefni stjórnmálamanna felst þó öðru fremur í því skapa einkageiranum viðunandi aðstöðu til að vaxa og dafna, tryggja samkeppnishæft skattaumhverfi og að regluverk hér sé ekki flóknara en annars staðar. Einnig verður að tryggja að möguleikar til menntunar og nýsköpunar séu viðunandi, að traust hagstjórn skapi jafnvægi og að samgöngu- og fjarskiptainnviðir séu til staðar. Þannig mætti áfram telja.

Þetta eru verkefnin sem stjórnmálamenn eiga að einbeita sér að. Þeir eiga síðan að treysta einkaaðilum til að skapa öflugt atvinnulíf á þessum grunni.

Í árlegri úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem birt var á dögunum var sérstaklega bent á mikilvægi þess að tengja saman launaþróun og framleiðni í atvinnulífinu þannig að íslensk fyrirtæki geti vaxið og dafnað – og skapað störf. Sjóðurinn mælir enn fremur með endurskoðun á heildarsamningum á vinnumarkaði. Með þeim hætti geti samfélagið fetað sig í átt að fjölgun starfa og tryggt fjölbreytni í íslensku atvinnulífi. Þetta er skynsamleg nálgun og í samræmi við þau fornu sannindi að drifkraftur efnahagslífsins býr í einstaklingunum og fyrirtækjum þeirra. Þar verða verðmætin til sem skapa grundvöllinn að velmegun þjóðarinnar.