Ríkið á ekki að vera tímaþjófur

Ég hef sem dómsmálaráðherra lagt áherslu á raunverulegar lausnir sem eru til þess fallnar að bæta og einfalda líf okkar – og spara okkur tíma. Einn liður í því er framtíðarsýn um sýslumenn sem ég kynnti nýlega en hún felst meðal annars í því að veita framúrskarandi þjónustu óháð búsetu og staðsetningu, hvar og hvenær sem er. Því hefur nú verið fylgt eftir.

Tíminn er líklega eina fyrirbærið sem ekki er hægt að endurheimta. Þess vegna eru fleiri meðvitaðir um mikilvægi þess að nýta tímann vel og forðast það sem stelur frá okkur tíma. Allir hafa einhverjum skyldum að gegna en við reynum að skipuleggja daginn þannig að tíminn nýtist vel í önnum dagsins.

Flestir líta á samskipti við hið opinbera sem tímaþjóf – og það með réttu. Við könnumst við það að þurfa að bíða í langri röð eftir afgreiðslu, til að skila inn pappírum, sækja um leyfi og þar fram eftir götunum. Eftir því sem okkur tekst að færa þjónustu hins opinbera á rafrænt og aðgengilegt form munu slíkir tímaþjófar heyra sögunni til. Einkafyrirtækjum hefur tekist vel til við að einfalda þjónustu og gera hana aðgengilegri. Hið opinbera, í þessu tilfelli ríkisvaldið, á ekki að vera eftirbátur hvað þetta varðar. Það skýtur skökku við að geta afgreitt flókna fjármálagerninga, svo dæmi sé tekið, á skömmum tíma með einföldum og rafrænum hætti en þurfa að bíða í röð eftir mun einfaldari afgreiðslu hins opinbera.

Í síðustu viku opnuðum við nýjan vef sýslumanna þar sem í boði verður ný þjónusta sem býður upp á netspjall og spjallmenni, aðgengilegri upplýsingar, leiðir til að sækja um ýmiss konar leyfi með rafrænum hætti og aðrar sjálfsafgreiðslulausnir sem verða í boði allan sólarhringinn. Nýr vefur sýslumanna á Ísland.is markar þannig tímamót í þjónustu við fólkið í landinu og mun einfalda líf okkar allra.

Þar er nú þegar hægt að sækja ýmis vottorð með rafrænum hætti, sækja um leyfi, skila inn umsóknum, endurnýja leyfi og réttindi, foreldrar með sameiginlega forsjá geta gert samninga sín á milli og þannig mætti lengi áfram telja. Innan skamms verður einnig hægt að þinglýsa kaupsamningum með rafrænum hætti þannig að bið eftir þinglýsingu, sem áður tók nokkrar vikur, mun heyra sögunni til. Með því að auka við rafræna þjónustu færum við þjónustuna nær fólki og komum í veg fyrir að það þurfi að flakka á milli stofnana til að verða sér úti um gögn eða bíða í röðum eftir afgreiðslu. Fólk getur þá varið tíma sínum í aðra mun mikilvægari hluti.

Ég er stolt af þessu verkefni og hef sem fyrr segir lagt áherslu á leiðir til að einfalda þjónustu ríkisins þannig að hún sé aðgengilegri, skilvirkari og betri en áður. Þegar við eigum þess kost að einfalda líf fólks eigum við að grípa tækifærið.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.