Oft er kvartað undan því að pólitík sé óskiljanleg og verði því of fjarlæg fólkinu sem við stjórnmálamenn störfum fyrir. Ef það er upplifunin, þá erum við að bregðast hlutverki okkar. Ef fólk skilur ekki hvað við erum að fást við er of auðvelt að skapa upplýsingaóreiðu, kasta fram hálfsannleik eða engum sannleik, og afvegaleiða umræðu um mikilvæg mál.
Ég hef haft það að leiðarljósi frá því ég hóf fyrst þátttöku í stjórnmálum að vera skýr um þau málefni sem ég tjái mig um og ég fæ til úrlausnar. Ég lít á það sem eina af frumskyldum mínum sem stjórnmálamanns að kynna mér mál vel, taka afstöðu og svo ákvörðun sem bætir samfélag okkar. Í stóru og smáu. Og ég held að það sé eftirspurn eftir því að stjórnmálamenn tali skýrt þannig að kjósendur geti gert sér grein fyrir því hvar fólk stendur.
Sem ritari Sjálfstæðisflokksins og síðar sem þingmaður og ráðherra hef ég lagt mig fram um að segja á greinargóðan hátt frá öllum þeim verkefnum sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Hvort sem þau snúast um nálgunarbann, breytingar á lögreglunni, almannavarnir og öryggismál, stafræn ökuskírteini, skipta búsetu barna eða jafnræði í netverslun og heimild brugghúsa til að selja eigin framleiðslu. Það er óhjákvæmilegt að stjórnmálafólk verði fyrir gagnrýni og að það séu skiptar skoðanir á þeim málum sem það leggur fram eða stendur fyrir. Ég hef þó aldrei sett það fyrir mig að taka umræðu um það sem ég trúi á og standa með góðum málum. Ég mun halda áfram að tala fyrir þeim hugsjónum og grunngildum sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir.
Sjálfstæðisflokkurinn er og hefur lengi verið kjölfestan í íslenskum stjórnmálum. Hann þarf stuðning til að vera það áfram og til þess þarf fólk með skýra stefnu, fólk sem er óhrætt við að takast á við þau verkefni sem við blasa í síbreytilegum heimi. Um leið og Sjálfstæðisflokkurinn er táknmynd stöðugleika er hann líka óhræddur við að leiða breytingar og treysta nýju og ungu fólki til ábyrgðarstarfa. Hann er stór og hann er fjölbreyttur, innan hans búa margvíslegar skoðanir en við sem fylkjum okkur undir merki hans eigum það sameiginlegt að trúa á framtakssemi einstaklinga, að þeir eigi að fá sem mest frelsi til að taka ákvarðanir um eigið líf og skapa sín eigin tækifæri. Hluti af þeim tækifærum er að hafa áhrif á umhverfi sitt. Til þess eru margar leiðir og ein þeirra stendur opin um þessar mundir. Að taka þátt í prófkjöri er það næsta sem við komumst persónukjöri. Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík býður öllum sem hafa náð 15 ára aldri og eru skráðir í flokkinn að taka þátt í prófkjöri sínu nú um helgina. Ég vil hvetja sem flesta til að leggja sitt af mörkum til að taka þátt og móta framtíðina.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.