Uppbygging á Litla-Hrauni

Ríkisstjórnin samþykkti nýlega tillögu mína um að ráðast í uppbyggingu fangelsisins á Litla-Hrauni. Í fangelsinu, sem var upphaflega reist sem sjúkrahús, er um helmingur allra fangelsisrýma í landinu en það uppfyllir ekki lengur þær kröfur sem gera verður til slíkrar starfsemi. Má í því sambandi vísa í úttektir nefndar Evrópuráðsins um varnir gegn pyndingum o.fl. (CPT-nefndarinnar) frá árunum 2019 og 2020. Þar var m.a. bent á hve erfiðlega hefur gengið að stemma stigu við útbreiðslu fíkniefna í fangelsinu. Nefndin gerði einnig athugasemdir við aðgengi að heilbrigðisþjónustu og þá einkum geðheilbrigðisþjónustu fyrir fanga.

Talið er að nær 60% fanga í íslenskum fangelsum glími við vímuefnavanda og tiltölulega hátt hlutfall þeirra glímir við athyglisbrest eða önnur slík vandamál. Brýnt er að hjálpa fólki sem glímir við slíkan vanda og gildir það um fanga rétt eins og aðra landsmenn.

Í framhaldi af úttekt CPT-nefndarinnar var gerð aðgerðaáætlun um að efla heilbrigðisþjónustu við fanga, skilgreina verklag og ábyrgð í innri starfsemi fangelsanna og vinna að þarfagreiningu til að sporna gegn dreifingu og neyslu vímuefna á Litla-Hrauni. Náðst hefur góður árangur við uppbyggingu geðheilbrigðisþjónustu fyrir fanga með góðri samvinnu við yfirvöld heilbrigðismála. Er starfinu sinnt í gömlum aflögðum fangaklefum. Þeirri aðstöðu verður að koma í betra horf.

Með ákvörðun okkar um uppbyggingu á Litla-Hrauni hillir loks undir að húsakostur og annar aðbúnaður fanga í íslenskum fangelsum verði færður til nútímans. Það hefur dregist alltof lengi að taka til hendinni og það er gagnrýnivert að ábendingar CPT-nefndarinnar hafi þurft til að koma, þannig að nauðsynlegar úrbætur komist til framkvæmda. Ég tek fram að algjör samstaða og samhljómur var í ríkisstjórninni um þetta mál.

Kostnaður við fyrirhugaðar framkvæmdir á Litla-Hrauni er áætlaður um 1,6 milljarðar króna. Í fangelsinu verður byggð upp öflug heilbrigðis- og endurhæfingarþjónustu fyrir fangelsiskerfið í heild sinni og einnig verður öll aðstaða bæði fyrir fanga og fangaverði bætt til muna. Auðveldara verður að skilja að hinar ýmsu deildir fangelsisins og aðbúnaður aðstandenda til heimsókna verður einnig lagfærður.

Litla-Hraun er stærsta fangelsi landsins og þýðingarmikið að byggja þar upp og bæta aðstöðu til endurhæfingar fanganna sem þar dveljast. Með framkvæmdum þeim sem nú verður ráðist í er stefnt að því að vandamál fangelsisins verði færð í fullnægjandi horf til fyrirsjáanlegrar framtíðar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.